143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afskaplega gefandi umræða vegna þess að hún er lausnamiðuð. Nú er það þannig að barn á leikskóla á fyrsta ári kostar 180 þús. kr. á mánuði í Reykjavík — 180 þús. kr. á mánuði. Ef það fjármagn rynni til heimilisins og foreldrarnir væru heima í foreldraorlofi og ef atvinnulífið gæti tekið upp á því að veita fólki vinnu hluta úr degi — segjum 60% vinnu fyrir hádegi og 60% vinnu eftir hádegi — væri hægt að tengja þetta allt saman, fæðingarorlofið, foreldraorlofið og greiðslur frá sveitarfélaginu sem eru skattfrjálsar í dag. Ég reiknaði það út á sínum tíma, en það er reyndar dálítið langt síðan, herra forseti, að þá gætu foreldrarnir verið með barninu í tvö ár með sæmilega afkomu ef þau fengju það gjald sem sveitarfélagið borgar fyrir dagvistun barna skattfrjálst.

Þetta er umræða sem ég veit að menn hafa ekki tekið. Á 25. lið á dagskránni í dag er einmitt þingsályktunartillaga um leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Ég sakna þess í henni sé ekki talað um þennan möguleika, foreldraorlof, og að greiðslur sveitarfélagsins renni beint til foreldranna til heimilisins, skattfrjálst, þannig að hægt sé að leysa vandamálið með litla borgarann sem er sendur allt of snemma að mínu mati núna út í heim. Oft eru börn send mjög ung til dagmömmu, jafnvel eins árs og þaðan af yngri. Þau eru mörg hver, tel ég, ekki reiðubúin til þess, þau eru ekki búin að uppgötva sitt nærumhverfi heima sem þarf ákveðinn tíma til og ég held að það væri heppilegra að þau væru eitthvað lengur heima.