143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[02:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Þetta er búið að vera nokkuð löng og mjög góð umræða. Hún hefur verið málefnaleg. Ég hef tekið þátt í henni með andsvörum og setið allan tímann í þingsal. Ég ætla að fara í gegnum það hvernig umræðan var. Undir seinni helming umræðunnar var dálítið mikið um endurtekningar þannig að ég þurfti ekki að fara í andsvör, ég ætlaði ekki að svara aftur fyrir það sama og ég svaraði áður fyrir. Það eru eflaust einhverjar skýringar.

Ef ég fer í gegnum umræðuna er það í fyrsta lagi þjóðhagsspá Hagstofunnar og Helguvíkurverkefnið sem menn fréttu í dag að væri að falla niður. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það og svaraði því að Helguvíkurverkefnið vægi ekki mjög þungt á árinu 2014, það væri frekar 2015 og 2016 sem það vægi þyngra. Það er svo merkilegt að það er búið að vera forsenda fjárlaga núna í nokkur ár.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þjóðhagsspána. Síðan er það spurningin um stuðninginn við nýsköpunarfyrirtæki. Það var rætt dálítið mikið. Ég tel að nefndin hafi fundið nokkuð góða lausn á því að minni fyrirtæki fá styrk, þau stærri fá líka styrk nema sá styrkur er lækkaður með því að lækka þakið. Allir þeir sem fengið hafa styrk með núverandi kerfi fá því sama prósentustyrk nema hann er lækkaður með því að hafa lægra þak.

Nokkuð mikil umræða var um skrásetningargjöld í háskóla. Ég las greinargerð úr frumvarpinu á bls. 10 þar sem segir að skráningargjöldin sem hér er verið að leggja til, 75 þús. kr., svari nokkurn veginn til kostnaðar við skráningu í Háskólanum á Akureyri og í Háskólanum í Reykjavík, annar með 80 þús. kr. og hinn með tæp 70 þús. kr. Þetta er því eingöngu fyrir kostnaði, má segja, við þessa háskóla.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á dálítið skemmtilegan punkt sem ég hefði gjarnan viljað ræða við hana, en það bauðst nú ekki af því að það voru svo margir í andsvari. Hún sagði að á Norðurlöndunum væri eftirspurn eftir háskólum en hér á landi væri eftirspurn eftir nemendum. Það er dálítið athyglisvert. Það má vel vera að háskólarnir á Íslandi séu með of mikið námsframboð og að það þyrfti að reyna að takmarka það og búa til eftirspurn nemenda til þess að koma í veg fyrir brottfall, ef ástæðan fyrir brottfallinu er sú að það vanti eftirspurn nemenda eftir námi.

Menn hafa verið að ræða ýmislegt á háskóladögum undanfarið til að leysa þetta óskaplega vandamál, þ.e. 38% brottfall fyrsta árs nema, sem er bara óviðunandi, herra forseti. Það kostar þjóðfélagið óskaplega mikið og kostar nemendur líka óskaplega mikið. Það eru alltaf einhver vonbrigði og þeir sem eru í alvöru námi missa kjarkinn. Ég held að sé mjög mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir þetta brottfall og vinna að því nemandi stundi námið af alúð og krafti og skoða hvort hækkað skráningargjald muni hvetja menn til dáða til að halda sig við námið, eins og sagt er í nefndarálitinu. Ég get ímyndað mér að ef það kostar ekki neitt geti maður skráð sig í margar deildir og marga háskóla og láti svo eitt falla niður þá skipti það ekki máli. En ef menn þurfa að borga fyrir það verða menn kannski eitthvað iðnari við kolann, þeir tapa þá alla vega þessu fé ef þeir gefast upp. Menn hafa verið að ræða ýmsar aðrar leiðir, að setja numerus clausus eða eitthvað slíkt. Ég er ekki mjög hrifinn af því vegna þess að það gæti útilokað gott fólk.

Ég tel að sé mjög brýnt að menn fari gegnum þá umræðu. Mér finnst það áhugavert sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, sagði um eftirspurnina eftir námi.

Þá var rætt nokkuð um Starfsendurhæfingarsjóð og frest á honum. Nú er starfandi nefnd um starfsgetumat sem ég stýri reyndar. Ég tel mjög brýnt að það náist í gegn vegna þess að núverandi örorkumat kemur í veg fyrir endurhæfingu. Það þýðir ekkert að koma með starfsendurhæfingu ef fólk má ekki endurhæfast. Það sem ég á við með því er að ef maður sem er 75% öryrki endurhæfist niður í 74%, missir hann nánast allar bætur. Það er bara örorkustyrkurinn eftir og hann er mjög lágur. Það þýðir það að maðurinn má hreinlega ekki endurhæfast, eins ankannalega og það nú hljómar. Það er ákveðið mein sem vinna þarf bug á, ég held að allir séu sammála því. Ég hef ekki heyrt um neinn sem ekki vill hafa starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat.

Þá var rætt um brottfellingu laga um greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Það er hlutur sem leiðir rökfræðilega til þess að annaðhvort eru menn á atvinnuleysisbótum vegna hráefnisskorts, því að þá er heimilt að segja fólki upp nánast með engum fyrirvara, eða eins og núna, að fyrirtæki fá styrkinn, þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður borgar styrkinn hvort sem er. Það sem gæti gerst er að fólk sem verður atvinnulaust vegna hráefnisskorts fari í nám eða eitthvað svoleiðis eða fái vinnu annars staðar, þá kemur þetta ekki upp. En alla jafnan hefur þetta þau áhrif í litlum sjávarplássum að fólk væri bara atvinnulaust þennan tíma.

Síðan var nokkuð mikil umræða um komugjöld á spítala. Þetta er nú ein af þeim heilögu kúm sem ekki má nefna á Íslandi en það er bara heilmikið að breytast. Ég nefndi hér fyrr í kvöld og hef gert það áður að kviðsjáraðgerðir er undursamleg tækni sem gerir það að verkum að skurðurinn er ekki margir sentímetrar, 10–20 sentímetrar, heldur bara pínulítið gat á maganum eða hvar sem er eða að farið er í gegnum nefið eða eitthvað. Þar hafa læknar getað farið inn á hin dýpstu svið líkamans, blásið upp með vatni eða lofti, farið inn með myndavél og tekið mynd af öllu saman og síðan hakkað út viðkomandi líffæri, eitil eða stein eða hvað það nú er, ef það er krabbamein hakka þeir æxlið út. Þetta er alveg ótrúleg tækni. Fólk kemur að morgni og fer heim til sín að kvöldi, en það er ekki síður veikt en þeir sem skornir eru upp. Það getur verið alveg jafn mikið veikt, eftir því hvað menn kalla veikindi, krabbamein eða eitthvað slíkt. En þetta gerir það að verkum að fólk fer í svona aðgerð og borgar meira að segja fyrir aðgerðina. Reyndar borga öryrkjar og aldraðir minna en aðrir, t.d. lágtekjukona í umönnunarstörfum, ég nefni það sem dæmi, hún þarf að borga ansi mikið fyrir þess konar aðgerðir. Hún borgar mikið meira en aðrir af því að hún er venjuleg.

Ég held við verðum að fara að skoða þetta mjög nákvæmlega og fara að horfa fram hjá þessum heilögu kúm sem menn hafa horft á, að það má bara ekki borga fyrir innlögn, alveg sama um hvað er að ræða. Það er óréttlátt þegar einn maður fer inn á spítala, hann er veikur og er skorinn upp með svona aðferð og borgar fyrir aðgerðina, fyrir lækninn, hjúkrunina, fyrir rannsóknir og allt sem því fylgir. Svo kemur annar á eftir honum, hann fer í sömu rannsókn, fær þessa sömu lækna og sömu hjúkrunarfræðinga og svo framvegis og hann borgar ekki neitt. Hann gæti verið með miklu lægri tekjur þannig séð. Sjúkdómar velja fólk ekki eftir tekjum. Ég held því að við verðum að fara að horfa á þetta dálítið opið og kalt og án tilfinningasemi.

En þetta er mjög viðkvæmt mál og hefur verið rætt mikið í þeirri nefnd sem ég stýri, um greiðsluþátttöku. Hún reyndar er í ákveðinni biðstöðu núna af vissum ástæðum.

Þetta voru nú helstu umræðurnar um þessi mál. Ég hef reynt að taka þátt í umræðunni með andsvörum og veita svör jafnóðum og aðrir hafa komið með spurningar um eitt og annað. Menn eru kannski ekki alltaf sáttir við svörin, það verður þá þannig að vera.

Hér var kallað að menn skildu ekki slysatryggingarnar og það allt, en það gengur í rauninni út á tiltölulega einfaldan hlut. Maður sem er tryggður, t.d. með ökutækjatryggingu hjá bifreiðatryggingafélagi eða vátryggingafélagi, lendir í tjóni. Hingað til hafa sjúkratryggingar eða almannatryggingar borgað eingreiðslu fyrst og síðan hefur skaðabótatryggingafélagið borgað það sem upp á vantar og dregur frá það sem ríkið hefur greitt. Dæminu er snúið við með þessu. Þetta eru í grunninn þær breytingar sem verða.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur tekið þátt í umræðunni. Hún hefur farið í sex andsvör en ekki reyndar við 1. umr., þá hefði hún kannski getað komið að athugasemdum um að málið ætti heima í öðrum nefndum eða beðið um að vísa því annað. Málið er nefnilega búið að hafa mjög góðan tíma í efnahags- og viðskiptanefnd. Það hafa ekki áður komið fram tillögur um að vísa þeim köflum sem heyra undir menntamálanefnd til þeirrar nefndar, t.d. um greiðsluna til háskólanna, eða að vísa köflum um komugjöld, vegna innlagna á sjúkrahús o.fl., til velferðarnefndar, eða köflum varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð o.s.frv. Allt er í rauninni réttmætt en það er dálítið seint fram komið núna klukkan tvö að nóttu í lok umræðunnar sem verið hefur mjög ítarleg. Hún byrjaði klukkan tvö. Það var líka 1. umr. Þá var ekkert talað um að málið færi í aðrar nefndir.

Við skulum sjá hvað hægt er að gera. Ég held að það sé spurning hvað menn geta unnið hratt. Það eru nefnilega að koma jól, herra forseti, ég hef tekið eftir því þegar ég fer út, þannig að það má vel vera að það verði niðurstaðan að vísa málinu til þessara nefnda ef menn telja þörf á í efnahags- og viðskiptanefnd, þá komi eitthvað vitrænna út úr því. Það verður þá að gerast mjög hratt hjá þeim nefndum, þær þurfa að vera tilbúnar til að vinna mjög hratt. Menn hafa svo sem sýnt það áður að þeir geta það. En þetta var um þessa umræðu.

Ég vildi sem framsögumaður sitja alla umræðuna. Ég vildi taka þátt í henni með andsvörum. Ég vildi líka loka henni með ræðu og nú tel ég mig vera búinn að því og legg til að málið gangi að lokinni þessari umræðu aftur til nefndar milli 2. og 3., bæði vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram og vegna fleiri athugasemda. Ég þakka fyrir ágæta umræðu.