143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

viðbrögð AGS við skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar.

[10:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst þurfa miklu skýrari aðgerðaáætlun til að vinna bug á rót vandans á Íslandi, sem er óstöðugleiki á verðlagi, verðbólga. Það er staðan sem við erum sífellt í, við erum einfaldlega með óstöðugt efnahagslíf. Það bitnar á heimilunum. Ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé einfaldlega að benda á að staða íslenskra heimila er mjög sérstök. Lán íslenskra heimila eru bundin verðlagsvísitölu.

Lítum á hvað þessi þingsalur er að fara að gera hérna á eftir. Við erum væntanlega að samþykkja, eins og er gert hér árlega, hækkanir á opinberum gjöldum. Áhrifin á vísitölu neysluverðs verða kannski 0,3–0,35%. Það þýðir að höfuðstóll lána íslenskra heimila hækkar um 5 milljarða. Það á að lækka skuldir heimilanna um 20 milljarða með aðgerðum á næsta ári. Þarna er fjórðungurinn af höfuðstólslækkuninni einfaldlega farinn með ákvörðun sem við tökum bara hér á eftir. (Forseti hringir.) Þetta er ásigkomulagið sem við búum við. (Forseti hringir.) Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála því að mikilvægasta verkefnið fyrir heimilin sé að (Forseti hringir.) komast út úr þessu ásigkomulagi?