143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

málefni Dróma.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður hefur eftir fjölmiðlum, það hafa staðið yfir viðræður um að Arion banki keypti lánasafn Dróma. Fjármálaráðuneytið hefur fylgst með því úr fjarlægð. Það kann að þurfa að liðka eitthvað fyrir því að það geti gengið eftir. Á það hefur ekki reynt enn þá, en mér skilst að þessi samningalota sé að verða búin og línur fari að skýrast hvort af þessu geti orðið.

Hvers vegna skyldi það skipta máli fyrir skuldsett heimili eða þá sem Drómi heldur á kröfum gegn hvort eigandi kröfunnar er Drómi eða Arion banki eða yfir höfuð einhver annar? Jú, það tel ég að geti skipt máli vegna þess að um leið og krafan er komin í hendur viðskiptabanka sem horfir til framtíðar og vill byggja upp eitthvert viðskiptasamband við viðkomandi þá eru sjálfkrafa líkur á því að viðhorfið breytist, viðmótið gagnvart því hvernig eigi að taka á málum, að horft sé til lengri framtíðar um það hvernig hægt sé að styðja við og greiða úr þeim vanda sem upp er kominn. Þegar við erum hins vegar með þrotabú, fjármálafyrirtæki í slitum, sem er einfaldlega að reyna að gera upp kröfur sínar, þá er svo sem hægt að segja að menn leitist alltaf við að hámarka virði eigna sinna en á hinn bóginn er ekki til staðar nein langtímahugsun um það hvernig samskiptum við viðkomandi skuldara verði háttað til framtíðar og það skiptir fyrirtæki í slitum óskaplega litlu máli vegna þess að það sjálft á sér enga framtíð. Þess vegna tel ég að það geti verið, ekki bara skynsamlegt heldur mjög jákvætt skref (Forseti hringir.) ef af þessum samningum getur orðið og við höfum svo sannarlega stutt að það gerist (Forseti hringir.) sem allra fyrst.