143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

málefni Dróma.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við munum bregðast eins skjótt og hægt er við fyrirspurnum frá hv. þingmanni. Ég ítreka það sem ég sagði áður, ég tel að það geti leitt til þess að tekið verði á málum þeirra sem skulda Dróma vegna fyrri viðskipta, eins og við SPRON, með öðrum hætti. Hins vegar er óskaplega ólíklegt, og við eigum ekki að byggja upp neinar væntingar um það, að kröfusambandið breytist. Það hvernig tekið verður á málinu kann hins vegar að breytast, en við erum heldur ekki í stöðu til að lofa því að það gerist. Það eina sem ég get sagt almennt um þetta er að mér finnst líklegra að tekið verði með öðrum hætti á málum þegar komið er viðskiptasamband við þann sem heldur á kröfunni. Aðalumkvörtunarefnið varðandi samskipti við Dróma, eins og það hefur borist til mín, hefur verið að það gildi ekki jafnræði þegar borið er saman (Forseti hringir.) hvernig tekið er á sambærilegum málum hjá öðrum lánastofnunum. Það er nokkuð sem við eigum að láta okkur (Forseti hringir.) varða.