143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[11:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hafa verið mikið til umræðu undanfarið, bæði á þingi og heima í héraði, og mikil fundarhöld hafa verið í Borgarfirði vegna málefna háskóla eins og Bifrastar og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Niðurstaða þessara funda hefur verið, bæði með sveitarstjórnarmönnum, þingmönnum og íbúum og ráðherra, einróma að ég tel. Það er hvorki vilji heimamanna né þingmanna kjördæmisins að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri Háskóla Íslands. Hvorki eru fyrir því fagleg rök né fjárhagslegur sparnaður. Í fýsileikakönnun 2009 kom fram að enginn fjárhagslegur ávinningur er af sameiningu, þvert á móti mun það kosta umtalsverða fjármuni að sameina skólana, kjör starfsmanna þarf að samræma og ekki er hægt að hafa halla Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri með inni í Háskóla Íslands.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur viðurkennt það opinberlega að enginn fjárhagslegur ávinningur er af sameiningu. Aukið samstarf hefur verið milli skólanna síðustu þrjú ár sem gerir það að verkum að flæði nemenda í valkúrsa hefur aukist mikið. Þverfaglegt samstarf er auðvelt að eiga ef viljinn er fyrir hendi og liðkað er til í samningum milli háskólanna, en það er ein helsta ástæðan sem gefin er upp fyrir sameiningu.

Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann ætli sér að hlusta á heimamenn og vel rökstudd orð þeirra um að ekki sé vilji heima í héraði fyrir sameiningu og menn sjái ekki hvaða árangri það eigi að skila, hvorki fjárhagslega né faglega, og hvort hann ætli að standa með heimamönnum og hætta við þau áform sem uppi hafa verið um sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands.