143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[11:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki raunin, engum manni dettur í hug að verið sé að skoða þennan möguleika til þess að veikja einn skóla og styrkja annan. Það þarf að horfa á þá hluti í samhengi, það þarf að horfa til þess hvernig við nýtum best fjármuni hins opinbera, hvernig við byggjum sem best upp vísindastarfsemi og skólastarfsemi.

Það er ekki svo að nokkur hætta sé á því að til dæmis búfræðslan ætti að lenda til hliðar verði af slíkri sameiningu. Það er hægt að grípa til allra þeirra ráðstafana sem nægjanlegar eru til að tryggja nákvæmlega það að námið haldi áfram að vera öflugt og að hægt sé að efla það.

Hið sama á við um garðyrkjuna.

Háskóli Íslands er einn af 300 bestu háskólum í heimi. Það ættu því að vera heilmikil sóknarfæri fyrir landbúnaðarháskólann að vinna innan vébanda hans. Það þarf að horfa til þessara hluta, þ.e. vísindastarfseminnar, skólastarfseminnar og hagsmuna heima í héraði. Þetta hangir reyndar allt saman þannig að ef við ætlum ekki að horfa áfram á þá þróun sem verið hefur undanfarin fimm ár þar sem starfsemi skólans hefur dregist saman um tugi prósenta, þar sem störfum í vísindum hefur fækkað jafnt og þétt, ef við ætlum að snúa því við þurfum við að grípa til annarra aðgerða en að setja litla plástra á eins og gert hefur verið eða verið reynt að gera (Forseti hringir.) á undanförnum árum með þessum árangri. Það þarf stærri aðgerðir, það þarf að gera meira en það sem gert hefur verið.