143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir það góða samstarf sem tókst um að ljúka 2. umr. um þetta mál í gær. Ég vil þó leggja áherslu á að við í Samfylkingunni erum eftir sem áður eindregið andvíg ýmsum þeim lagabreytingartillögum sem hér eru á ferðinni. Við munum freista þess að fá þeim breytt á milli 2. og 3. umr., ekki síst sjúklingaskattinum sem er með þeim fádæmum lagður fram að framsögumaður málsins gat ekki einu sinni svarað fyrir það hér við umræður hvað sjúklingurinn ætti að borga fyrir að fara inn á spítala. Það er fyrir neðan allar hellur.

Ég vil þó nota tækifærið og þakka hv. framsögumanni Pétri H. Blöndal fyrir þátttöku hans í umræðunum í gær og hæstv. fjármálaráðherra sömuleiðis. Það greiddi fyrir því að það tókst að ljúka umræðunni um þetta viðamikla mál, þó aðeins á einum degi.

Ég legg áherslu á það að við munum beita okkur af alefli til þingloka fyrir því að ná fram efnisbreytingum á því máli sem hér er á ferðinni því að þar er margt óhæfuverkið undir.