143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í fyrra var afgreitt hér sambærilegt frumvarp sem fól í sér verðlagshækkanir. Þá benti þáverandi 2. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar á að verðlagshækkanirnar mundu hækka höfuðstól verðtryggðra lána um svona 5 milljarða á árinu. Mér finnst mjög áríðandi að við áttum okkur á því í þessum sal að það er um það bil að fara að gerast aftur núna. Það ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni um það hvert meginviðfangsefni íslenskra efnahagsmála er. Það er að komast út úr þessari stöðu þar sem verðlagsbreytingar hækka höfuðstól verðtryggðra lána. Þetta er fimmtungur af því sem stendur til að lækka höfuðstól verðtryggðra lána á næsta ári. Fimmtungur verður étinn upp hér í atkvæðagreiðslunni þegar þetta frumvarp verður samþykkt.

Það ætti að vera okkur umhugsunarefni. Og það þarf kjark og pólitíska sýn til að komast út úr þessum kringumstæðum þar sem við erum með verðtryggð lán og krónu og einhæft atvinnulíf.

Það er margt í þessu frumvarpi sem við leggjumst (Forseti hringir.) eindregið gegn eins og skattur á sjúklinga núna, stúdenta og ýmislegt fleira.