143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Hér eru mjög mörg umdeild mál undir, mál sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjumst eindregið gegn, mál á borð við sjúklingaskatta, hækkun skráningargjalda á stúdenta í opinberum háskólum. Mér finnst mikilvægt að það komi fram hér að við lítum svo á að þetta mál sé hvergi nærri útrætt því að þessir þættir eiga eftir að koma til umræðu hér við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga þar sem þessir þættir birtast auðvitað líka. Ég vil líka segja að við teljum að gera verði ákveðnar breytingar á þessu frumvarpi milli 2. og 3. umr. fari svo að niðurstaða þessarar atkvæðagreiðslu verði í takt við tillögur meiri hlutans.

Þessi mál eru ekki útrædd enda eru hér mörg stór grundvallaratriði undir sem eru sett fram í einni bendu og verðskulda hvert um sig talsvert meiri umræðu en hér hefur farið fram.