143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eitthvað það besta sem var gert á síðasta kjörtímabili var að gefa í varðandi stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það er eitthvað það skynsamlegasta sem við getum gert sem þjóðfélag.

Mér sýnist það vera orðið einhvers konar leiðarstef í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á upphafsmánuðum sínum að vinda ofan af allri þessari aukningu. Ég skil ekki þá pólitísku stefnumörkun. Hér er eitt svoleiðis mál þar sem 17. gr., sem við greiðum atkvæði um hvort eigi ekki að falla brott, fjallar um að minnka endurgreiðsluhlutfall fyrirtækja vegna framlaga til nýsköpunar og þróunar.

Að vísu liggur fyrir breytingartillaga um að frekar verði farið í að lækka þak endurgreiðslna en það bitnar frekar á stórum nýsköpunarfyrirtækjum og það er heldur ekki gott.

Við styðjum eindregið að 17. gr. falli brott og ef hún fellur ekki brott erum við á móti bæði breytingartillögunni og greininni vegna þess að hún felur í sér minni stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það er slæmt.