143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í umræðu hér í gær um þessa lagabreytingartillögu kom berlega í ljós að vinnsluborð hennar er handarbakið. Þetta eru hin fullkomnu handarbakavinnubrögð.

Upphaflega gerði ríkisstjórnin tillögu um legugjöld, að veikt fólk sem lagt verði inn á sjúkrahús verði rukkað sérstaklega. Þetta vakti gríðarleg mótmæli í samfélaginu. Þá var reynt að fara bakdyramegin og kalla legugjaldið komugjöld og það er það sem við erum að greiða atkvæði um núna.

Hins vegar á eftir að útfæra ákvæðið algerlega. Það var upplýst hér í umræðunni í gær, en miklu mikilvægara er þó hitt, að hér er um að ræða grundvallarbreytingu á fjármögnun heilbrigðiskerfisins sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggst algerlega gegn. Ég tek undir með formanni flokksins hér á undan atkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) þar sem hún lagði áherslu á að við skoðuðum þessar tillögur í sama vetfangi og við litum á fjárlagafrumvarpið. Þessu máli er ekki lokið.