143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrrverandi velferðarráðherra þessa fyrirspurn.

Ég er í svolitlum vanda því að það er að verða mjög áberandi í þinginu að Samfylkingin ein má gagnrýna aðra. Það er einkennilegt að ef maður leyfir sér að benda á eitthvað sem miður fór hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna rísa þingmenn Samfylkingarinnar alltaf upp til varnar. Það hef ég orðið vör við í störfum þingsins eftir kosningar. Það er einkennilegt að upplifa að þetta sé svona.

Hver ætlar að neita því, þeirri almennu staðreynd, að heilbrigðiskerfið hafi verið tekið niður af síðustu ríkisstjórn? Hver getur neitað því þegar allir landsmenn sjá það þrátt fyrir að þingmenn, aðallega Samfylkingarinnar, standi hér dag eftir dag og neiti því? Þess vegna er þessi ríkisstjórn að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Við göngum hér í að laga það sem var skemmt á síðasta kjörtímabili og það eru heilbrigðismálin. Það getur enginn neitað því. Þetta er eins með Samfylkinguna nú sem áður, þeir neita til dæmis enn að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á árunum 2007–2009 þegar bankahrunið varð. Samfylkingin hefur verið sex ár í ríkisstjórn. Hér er komin ný ríkisstjórn, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem er að snúa frá þeirri óheillaþróun sem meðal annars Samfylkingin leiddi yfir þjóðina.

Varðandi það hvað mér finnst eðlileg samneysla hef ég ekki myndað mér skoðun á því, en úr því þingmaðurinn bendir á að samneyslan sé um 40% í Bretlandi bendi ég á að breski Verkamannaflokkurinn var 12–14 ár í ríkisstjórn og hann er nú systurflokkur Samfylkingarinnar.