143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom þó í lokin að það er margt gott sem kemur fram hér. Ég fagna því að við hv. þingmaður getum verið sammála um það.

Spurt er um hallann á Landspítalanum. Fyrrverandi ríkisstjórn gerði þann samning við stjórnendur Landspítalans að ef þeir gætu haldið sig innan fjárheimilda í þrjú ár yrði hallinn eða réttara sagt uppsafnaður vandi skorinn af eftir þrjú ár. Nú hefur komið í ljós að hallinn á Landspítalanum er 1,3 milljarðar á þessu rekstrarári þannig að í fjárlagafrumvarpinu er aukið fé veitt til Landspítalans og ekki er vitað með vissu hvernig verður tekið á því til framtíðar. Það er heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra að svara fyrir það en ekki formanns fjárlaganefndar.

Hér er verið að tala um að fyrrverandi ríkisstjórn hafi hætt við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu fyrir ári síðan. Jú, við sáum það vissulega í síðustu fjárlögum því að það var kosningaár. Það hefur meðal annars verið vandi okkar í fjárlaganefnd að á kosningaári fór ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fram með stórkostlegar fyrirætlanir um að setja fjármagn í hina og þessa hluti til þess jafnvel að liðka til fyrir atkvæðum í kosningunum. Sem betur fer fór ekki svo, landsmenn sáu í gegnum það. En skapaðar voru miklar væntingar og ýmis verkefni sett af stað sem við, því miður, höfum þurft að skera niður, falla frá, eða stórminnka fjármagn í. Ég veit að það eru nokkrir sem ganga sárir frá borði en þessu höfum við meðal annars þurft að taka á.

Hvað varðar það hvar þess sér stað í fjárlögunum á milli umræðna, hagræðingartillögum hagræðingarhópsins varðandi kerfisbreytingar þá eru þær ekki margar sem finna má í þessum (Forseti hringir.) breytingartillögum. Eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni koma þær fyrst fram í fjárlögum fyrir árið 2015.