143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (frh.):

Virðulegur forseti. Ég hafði í ræðu minni fyrir hádegishlé talað um stöðu ríkissjóðs, þann árangur sem náðst hefur frá hruni og fagnaði því að stefnt er að því jákvæða markmiði að ná heildarjöfnuði á árinu 2014. Hann er tæpur, er um 660 millj. kr., og ég fór yfir óvissuþætti sem gætu ógnað þessari stöðu þannig að við gætum endað í neikvæðum heildarjöfnuði þegar upp væri staðið.

Ég var búin að fara yfir afturhaldssama atvinnustefnu sem mér finnst birtast í þessu helsta stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar, sem er fjárlagafrumvarpið, og einnig í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar sem hér eru til umræðu.

Ég var byrjuð á að ræða um byggðastefnuna sem birtist í frumvarpinu, var búin að tala um jöfnun húshitunar og fjarskiptasjóð og benti á varðandi bæði þau atriði að horfið er frá þverpólitískri sátt sem náðist á síðasta kjörtímabili, um mitt síðasta kjörtímabil, og benti á slæm áhrif stefnubreytingarinnar á heimili landsins.

Virðulegur forseti. Ég held þá áfram að ræða um byggðastefnuna.

Skilaboð nýrrar ríkisstjórnar til byggða landsins eru einnig athyglisverð. Brotthvarf IPA-styrkja setur í uppnám verðmæt verkefni á sviði eflingar innviða víða um land. Í sóknaráætlun landshluta er ný nálgun á svæðasamvinnu og byggðaþróun í samstarfi allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga og felst í því að fjármunum sé útdeilt á grundvelli sóknaráætlana sem heimamenn á hverjum stað móta. Allt verkefnafjármagn sóknaráætlana er strikað út í fjárlagafrumvarpinu en meiri hluti fjárlaganefndar leggur til 85 millj. kr. framlag við 2. umr. fjárlaga. Það er til bóta en betur má ef duga skal.

Undanfarin ár hefur umræða um byggðamál verið með öðrum og skýrari hætti en áður. Eftirtektarverð er vinna Byggðastofnunar um byggðir sem skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun, erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár. Unnið hefur verið með íbúum Raufarhafnar, Bíldudals, Skaftárhrepps og Breiðdalshrepps. Í þessari nýstárlegu nálgun felast sértækar aðgerðir og vinna með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða duga ekki ein til. Verkefninu hefur verið fylgt úr hlaði með fjölsóttum íbúafundum um framtíðarsýn byggðanna, styrkleika og tækifæri. Þótt aðferðin sé miðuð við brothættar byggðir snertir hún stefnumótun í byggðamálum í heild. Má þar nefna stefnu í fjarskiptamálum, samgönguáætlun, jöfnun húshitunar á köldum svæðum, dreifnám, menntastefnu og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga.

Byggðastofnun var tryggt fé, 50 millj. kr., á fjárlögum yfirstandandi árs til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferð. Ný ríkisstjórn hefur slegið þessa mikilvægu vinnu Byggðastofnunar af og auk þess hætt við byggingu húsnæðis fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi sem hefja átti á þessu ári. Þekkingarsetrið er vel undirbúið samstarfsverkefni sem heimamenn höfðu bundið miklar vonir við og samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sett ofarlega á forgangslista í sóknaráætlun landshlutans. Eftir standa byggðirnar vonsviknar.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað skipulagsbreytingar á námi í framhaldsskólum og háskólum. Í framhaldsskólum er um að ræða styttingu námstíma til stúdentsprófs og til prófa í starfsnámi og rætt er um sameiningar háskóla. Lítil umræða hefur farið fram um þessi áform meðal alþingismanna, í þingsal eða í nefndum þingsins nú á síðasta kjörtímabili og það sem liðið er af þessu nýhafna kjörtímabili. Um er að ræða flókin skipulags- og sameiningarferli sem undirbúa þarf vel og gæta þarf að hag bæði nemenda og starfsmanna skólanna. Svo virðist hins vegar að stjórnvöld hyggist framkvæma þessar breytingar með miklum hraði. Vísbendingar um það eru bæði í fjáraukalögum í ár og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp 2014. Í fjáraukalögum eru 300 millj. kr. færðar á nýjan lið ráðuneytisins sem ætlaður er til að framkvæma skipulagsbreytingar í framhaldsskólunum. Í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið er óskað eftir 6. gr. heimild til að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir framhaldsskóla og háskóla í tengslum við sameiningar, breytingar eða hagræðingu á starfseminni. Í skýringum með heimildarbeiðninni segir að verið sé að fara yfir rekstrarumhverfi skólanna með tilliti til hugsanlegrar sameiningar eða annarra breytinga á starfsemi þeirra og að ráðuneytið telji mikilvægt að hafa svigrúm til að takast á við þær með stuttum fyrirvara. Draga má af þessu þá ályktun að keyra eigi skipulagsbreytingarnar í gegn með hraði þannig að þær komi fram í breyttri þörf fyrir húsnæði á árinu 2014. Heimildarbeiðnin er galopin og veitir ráðherra heimild til að gera hvað sem er við hvaða skóla sem er. Varasamt er að veita svo opna heimild í fjárlagafrumvarpi án frekari skýringa eða umræðu um hvaða skóla eða landsvæði sé um að ræða eða um fagleg rök fyrir skipulagsbreytingunni.

Rekstrarstaða framhaldsskólanna er mjög slæm og viðurkennt er að einingarverð sem greitt er til skólanna með hverjum nemenda sé of lágt. Gert er ráð fyrir að til að halda rekstri þeirra innan fjárheimilda með óbreyttum nemendafjölda þurfi um 250 millj. kr. viðbótarfjárveitingu. Því til viðbótar skortir fé til þróunarvinnu um bætt skólastarf. Auk þess flytja of margir skólanna halla frá árinu í ár yfir á það næsta. Hætta er á að ef fjármunir verða ekki veittir til að mæta vanda skólanna muni þeir ekki eiga annan kost en að vísa nemendum frá. Þar sem stjórnvöld skera einnig niður aðstoð við unga atvinnuleitendur getur verið að með þessum ákvörðunum sé verið að búa til vanda sem hefur kostnað og slæmar aukaverkanir í för með sér. Þótt stjórnvöld hugsi sér að breyta skipulagi skólanna og lækka kostnað við rekstur þeirra til lengri tíma geta þeir nemendur sem neitað verður um skólavist ekki beðið eftir að sú skipulagsbreyting fari að skila árangri. Allar greiningar sýna að í kreppu sé æskilegt að opna framhaldsskólana fyrir ungmennum en hins vegar, ef aðsókn er takmörkuð, valdi það félagslegum vandamálum langt fram eftir ævi ungmennanna sem verða fyrir aðgerðunum.

Meiri hlutinn leggur til 100 millj. kr. til byggingar verkmenntahúss við Fjölbrautaskólann á Suðurlandi. Það er ánægjuefni að hreyfa eigi við því aðkallandi verkefni að nýju en hönnun hússins er lokið og til stóð með framlögum í fjárlögum 2013 og áætlun fyrir 2014 að ljúka byggingu hússins. Það skaut skökku við að falla frá eflingu starfs- og tæknináms þegar það er að sögn stjórnarliða eitt af stóru áherslumálunum. Áætlun um lok verksins liggur hins vegar ekki fyrir og það er afleitt því að það er ekki fyrr en sú áætlun er komin að útboð verksins getur farið fram.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að stjórnvöld hverfi frá stefnu sinni um frekari niðurskurð í heilbrigðiskerfi og er það vel. Tekið hefur verið tillit til gagnrýni minni hlutans og framlög hækkuð, einkum til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, en heilbrigðisstofnanir úti um land fá einnig aukin framlög og niðurskurðarkrafa er tekin til baka að mestu. Rekstrarstaða flestra stofnananna er mjög slæm á árinu 2013 og því er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þeirra nú og á næsta ári þrátt fyrir aukin framlög sem lögð eru hér til. Ekkert verður af framkvæmdum á árinu 2014 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi eða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem hefðu skipt miklu máli bæði vegna starfsaðstöðu en einnig sem möguleikar á hagræðingu til lengri tíma.

Það sem sker í augu og er engan veginn ásættanlegt er að stjórnvöld leita í vasa þeirra sem lítið eiga fyrir til að greiða fyrir þessum aðgerðum. Þróunaraðstoð er lækkuð um 460 millj. kr., vaxtabætur lækkaðar um 500 millj. kr. og Starfsendurhæfingarsjóður um 295 millj. kr. Sú ákvörðun stjórnvalda að gefa milljarða afslátt af auðlindagjöldum til þeirra sem búa við afskaplega góð skilyrði en láta þá sem minna hafa milli handanna greiða aukið álag til að fjármagna þann afslátt er verulega ógeðfelld svo ekki sé meira sagt, virðulegi forseti.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til niðurskurð á þróunaraðstoð þannig að hún verði alls um 0,23% af landsframleiðslu. Í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir skerðingu frá árinu í ár og 0,26% hlutfall af landsframleiðslu látið standa. Á 141. löggjafarþingi samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu með aðeins einu mótatkvæði, atkvæði núverandi formanns fjárlaganefndar, um hvernig ná mætti í áföngum markmiði Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð sem er 0,7% af þjóðarframleiðslu. Samkvæmt henni ætti hlutfallið að hækka í 0,28% á árinu 2014 sem væri hækkun um rúmar 600 millj. kr. ef sú áætlun sem þá birtist í þingsályktunartillögunni hefði staðist um þjóðarframleiðsluna. Í stað þess er framlagið lækkað um 460 millj. kr. eins og áður sagði. Markmið þróunarsamvinnu er skýrt tekið fram í þingsályktunartillögunni, þ.e. að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitist Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.

Slegið er föstu í ályktuninni að barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé áfram þungamiðja í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Jafnframt verði lögð rík áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála. Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir, virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.

Þrátt fyrir þessa samþykkt leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að þróunaraðstoð verði skorin niður til þess að bæta megi stöðuna í íslensku heilbrigðiskerfi. Meiri hlutinn leggur þetta til á sama tíma og ríkulegur afsláttur er gefinn af tekjum af auðlindum þjóðarinnar.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að heildarupphæð til almennra vaxtabóta lækki um 5,6%. Vaxtabætur voru hækkaðar umtalsvert til að koma til móts við skuldug heimili í greiðsluvanda á síðasta kjörtímabili. Þær breytur sem stýra bótaupphæðinni eru laun og skuldir heimila. Minni hlutinn hefur ekki fengið að sjá nákvæma útfærslu á þessari lækkun. Líklegt er þó að launalágar, skuldugar barnafjölskyldur verði fyrir barðinu á þessari lækkun og þurfi með þessu móti að fjármagna framlög til heilbrigðiskerfisins að tillögu meiri hlutans.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að ríkið standi ekki við skuldbindingar sínar er varða greiðslur til Starfsendurhæfingarsjóðs sem nemur 295 millj. kr. Í lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða er gert ráð fyrir þrískiptu framlagi af launum starfsmanna, frá lífeyrissjóðum og ríkinu til starfsendurhæfingarsjóða. Áætlað er að framlag atvinnurekenda og lífeyrissjóða muni á árinu 2013 nema nálægt 2 milljörðum kr. Meiri hluti fjárlaganefndar lítur svo á að það framlag sé meira en nægilegt til að sjóðurinn sinni verkefnum sínum að svo stöddu. Afar ólíklegt er þó, ef ríkið ákveður að breyta lögum þannig að það losni undan greiðslum til sjóðsins, að hinir samstarfsaðilarnir verði ánægðir með það. Starfsemi VIRK starfsendurhæfingarsjóðs verður því væntanlega í uppnámi á árinu 2014 og þann skaða bera öryrkjar. Enn leitar stjórnarmeirihlutinn til þeirra sem síst skyldi til að greiða fyrir afsláttinn til útgerðarinnar.

Virðulegi forseti. Á 141. löggjafarþingi voru samþykkt lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Með lögunum eru ýmis ný ákvæði sem m.a. tíminn hefur kallað á, bæði fagleg og tæknileg. Á meðal grundvallarbreytinga með lögunum er að útvarpsgjaldið renni óskipt til Ríkisútvarpsins. Það þótti mikilvægt til að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og til að stofnunin væri ekki háð duttlungum stjórnmálamanna um rekstrarfé enda gætu einhverjir þeirra haft horn í síðu hennar fyrir efnistök. Ný stjórnvöld ákveða að láta útvarpsgjaldið renna aðeins að hluta til starfseminnar og láta 600 millj. kr. renna í ríkissjóð til annarra verka. Að auki leggur meiri hluti fjárlaganefndar nú til að 215 millj. kr. verði skornar niður til viðbótar en leyfilegur auglýsingatími verði lengdur á móti. Stjórnendur Ríkisútvarpsins telja að þessi viðbót muni leiða til uppsagna fleiri starfsmanna en nú þegar er raunin. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ákveðið að veikja Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, og því mótmælir 1. minni hluti.

Atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert frá hruni og stendur nú í rúmum 4%. Það er þó óásættanlega hátt hlutfall sem þýðir að enn eru um 7.000 einstaklingar án atvinnu. Há niðurskurðarkrafa er gerð á Vinnumálastofnun, svo há að talið er að hún muni ekki geta sinnt hlutverki sínu hvað varðar ráðgjöf til atvinnuleitenda og miðlun atvinnu. Það er alvarlegt mál og mikilvægt að á milli umræðna verði starfsskilyrði stofnunarinnar bætt þannig að hún geti uppfyllt sitt lögbundna hlutverk.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili vann sameiginlega að samþykktum um breytt vinnulag um úthlutun safnliða. Breytingarnar miðuðu að auknu gegnsæi við útdeilingu opinberra fjármuna til sveitarfélaga vegna einstakra verkefna, félagasamtaka og einstaklinga. Forgangsröðun útdeilingarinnar ætti því í ríkari mæli eftir breytingu fjárlaganefndar að byggjast á stefnumótun og þarfagreiningu og í kjölfarið eftirliti. Öll nefndin var samstiga enda engin flokkapólitík til staðar þegar bæta á vinnubrögð við skiptingu opinberra fjármuna. 1. minni hluti leggur á það áherslu að ekki verði horfið til fyrra horfs í vinnu nefndarinnar en ef gallar finnist á nýrri aðferð eða nýju skipulagi verði farið í vinnu við frekari umbætur.

Vinna fjárlaganefndar við afgreiðslu mála fyrir 2. umr. fjárlagafrumvarpsins hefur einkennst af flýti og örum breytingum á tillögum og skjölum. Það vinnulag gagnrýnir 1. minni hluti og varar við því að vegna þess geti mistök átt sér stað sem geti kallað á vandamál á árinu 2014 í rekstri stofnana.

Fyrsti minni hluti leggur fram breytingartillögur sem unnar eru af Samfylkingunni. Tillögurnar sem eru á þskj. 359 eru viðbrögð við tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og við fjárlagafrumvarpinu. Hér er um nokkur áhersluatriði að ræða en hvergi nærri tæmandi yfir það sem breyta þyrfti til að stefna stjórnvalda fari saman við stefnu Samfylkingarinnar.

Gerð er tillaga um aukna tekjuöflun með hærri veiðigjöldum og leigu á makrílkvóta, með 14% virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu, hertu skatteftirliti og hærri bankaskatti. Breytingartillögurnar gera einnig ráð fyrir að gjaldskrár hækki ekki á árinu 2014, að framhaldsskólar fái nauðsynlegt rekstrarfé, reiknað er með framlagi til samkeppnissjóðanna, nýsköpunar og skapandi greina og til Ríkisútvarpsins. Einnig er gerð tillaga um bætta byggðastefnu með öflugri sóknaráætlun landshluta, stuðningi við brothættar byggðir, jöfnun húshitunar og framlagi til fjarskiptasjóðs. Þá fær Landspítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir aukin fjárframlög samkvæmt tillögunni. Gert er ráð fyrir aðgerðum fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins og skattalækkunum sem miða að því að hækka viðmiðunartekjumörk lægsta skattþrepsins.

Að lokum þetta, virðulegi forseti. Mikið álag hefur verið í hv. fjárlaganefnd og því skiljanlegt að fulltrúar hennar, bæði í meiri og minni hluta, hafi verið við þær aðstæður á köflum viðkvæmir fyrir áreitum og brugðist við í samræmi við það.

Ég þakka fulltrúum fjárlaganefndar fyrir samstarfið í vinnu við fjárlagafrumvarpið en auðvitað eigum við enn eftir að vinna með það á milli 2. og 3. umr. þar sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hefur kallað frumvarpið inn til nefndar að lokinni þessari umræðu.