143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hreinskilið svar því að hv. þingmaður fór akkúrat yfir það sem ég sagði, að ekki hefði verið hægt að framfylgja þeim ólögum sem voru sett í tíð Samfylkingar og Vinstri grænna. Það var ekki hægt að innheimta gjaldið. Þar stóð hnífurinn í kúnni. Þess vegna varð að fella þetta sérstaka veiðileyfagjald niður og innheimta tekjur til ríkissjóðs hjá útgerðinni með skatttekjum. Svo einfalt er þetta, en sífellt skal þessi söngur sunginn, í hverju einasta viðtali og hverri einustu ræðu sem fulltrúar Samfylkingarinnar tjá sig um þetta mál.

Ég veit að hv. þingmaður náði ekki að svara spurningunni um þróunaraðstoðina. Ég vonast til að hún komist í það í seinna andsvari þótt það sé bara ein mínúta.

Mig langar til að leggja hér aðra spurningu fyrir hv. þm. Oddnýju Harðardóttur. Harkalega hefur verið ráðist að ríkisstjórninni varðandi bankaskattinn. Það hefur verið ráðist svo harkalega að ríkisstjórninni að sagt hefur verið að ekki sé hægt að innheimta hann, hann sé ólöglegur og að ekki hafi verið farið í hann af síðustu ríkisstjórn vegna þess að tæknilega hafi það ekki verið hægt. Í þessu nefndaráliti gerir þingmaðurinn það að tillögu sinni að hækka bankaskattinn um 6 þús. millj. kr. Er þetta ekki tvískinnungur, (Forseti hringir.) virðulegi forseti?