143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Íbúðalánasjóð held ég að hv. þingmaður geti ekki fundið annað en að sú sem hér stendur hafi haft áhyggjur af stöðu hans og áhrifum af erfiðri stöðu á ríkissjóð, sem getur virkað í báðar áttir. Við vorum auðvitað að átta okkur á stöðu sjóðsins þegar rykið var að setjast eftir bankafallið. Það má vera að menn hafi verið bjartsýnir á einhverju ákveðnu tímabili og gert ráð fyrir að uppgreiðsluáhættan væri ekki eins mikil og hún reynist vera. Síðan er það auðvitað vaxtamunurinn sem hefur áhrif þarna og það er hálfspaugilegt eða kaldhæðnislegt að það sem gæti bjargað stöðu sjóðsins séu hærri vextir, en það mundi auðvitað fara illa með aðra starfsemi í landinu.

Íbúðalánasjóður er vissulega áhyggjuefni. Það þarf að fara í skipulagsbreytingar þar en ekki má gleyma félagslegu hlutverki sjóðsins. Það þarf að skilgreina það hlutverk og gera ráð fyrir því. Það er algert lykilatriði en taka þarf á vanda sjóðsins því að búið er að koma honum í mjög erfiða stöðu sem erfitt er að sjá út úr.

Varðandi markaðar tekjur held ég að hv. þingmaður þekki vel mitt sjónarmið hvað þær varðar og ég er tilbúin til samstarfs við hann og fleiri við að finna út úr því hvernig löggjafarvaldið getur stjórnað stofnanaþróun í landinu en dregið úr mörkuðum tekjum. (Forseti hringir.) Ég verð að koma að RÚV í seinna andsvari.