143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó svo mér finnist þetta nefndarálit um margt skrýtið en ég næ ekki að fara yfir það á einni mínútu.

Hv. þingmaður nefndi hve fáir þingmenn eru í salnum. Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa ekki sést fyrr en síðustu mínúturnar en það stendur kannski til bóta.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann um nokkra hluti. Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um agaleysi. Við fengum nýlega skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem kemur fram að agaleysi hefur ekki verið meira í ríkisfjármálunum í um áratug; 38% fjárlagaliða fóru fram úr fjárlögum. Það eru upplýsingar sem hv. fjárlaganefnd fékk og við fórum yfir. Í öðru lagi segir hv. þingmaður að búið hafi verið að stöðva niðurskurð til heilbrigðisþjónustunnar. Hvernig má það vera að niðurskurðurinn hafi verið stöðvaður úr því að fjárlagaárið kemur fram í þeim gríðarlega halla sem raun ber vitni? (Forseti hringir.) Partur af þessum 38% eru fjárlagaliðir tengdir heilbrigðisstofnunum.