143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Varðandi agaleysi í ríkisfjármálum, ég las hér upp það sem núverandi fjármála- og efnahagsráðherra bar á borð fyrir okkur, þar sem hann staðfesti það sem ég fór hér með, að aginn hefur verið mun betri en fjöldamörg undanfarin ár í ríkisfjármálum þrátt fyrir að slaki hafi verið síðla árs eins og Ríkisendurskoðun bendir vissulega á.

Varðandi tækin, viðhaldið og annað því um líkt og niðurskurð í heilbrigðismálum. Ef raunhækkun á framlögum til sjúkrahúsanna er tekin inn þá þurfum við líka að færa þetta upp til verðlags miðað við árið í ár. Þá sýnist mér upphæðin vera í kringum 2,6 milljarða sem koma raunverulega til viðbótar í stað þeirra 4 milljarða sem talað er um hér.