143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðlegðarskattinn má framlengja. Það eru þeir sem eignir eiga sem geta greitt og við erum hér með tillögu um að innheimta þann skatt. Gríðarleg skattheimta — þetta snýst auðvitað alltaf um það hvað okkur finnst gríðarleg skattheimta. Ég lít á það sem núverandi meiri hluti boðar sem gríðarlegan niðurskurð, sumir hafa talað um blóðugan niðurskurð. Það þykir mér verra. Ég vil frekar að samneyslan sé meiri og við leggjum þá meira til til samfélagsins og að sjálfsögðu eiga þeir sem hæstar hafa tekjurnar, mestar eiga eignirnar, að gera það.

Við höfum rætt það sem þyrfti að laga í útfærslu auðlegðarskattsins og við erum með hugmyndir um það og þær hafa komið fram í þinginu, en að sjálfsögðu er svarið já. Ég mundi segja að þetta sé eitthvað sem við getum gengið út frá. En auðvitað er það alltaf þannig, hvort sem það eru tekjur eða gjöld, að við þurfum að skoða það á hverjum tíma og (Forseti hringir.) það hefur hv. þingmaður sjálfur sagt.