143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það speglast nefnilega svolítið í stefnu Vinstri grænna og skattheimtuhugmyndum þess flokks máltækið sem hljóðar svo: Mitt er mitt og þitt er okkar. (Gripið fram í.)

Stefnan er á einhvern hátt sú að þeim sem gengur vel og hafa auknar tekjur og geta séð fyrir sér eiga að borga alla samneysluna. Í þessu birtist bara nákvæmlega stefna stjórnmálaflokka sem starfa á Íslandi.

Mig langar til að benda á að þegar skattar eru orðnir of háir leiðir það til mikils tekjusamdráttar hjá ríkinu. Þau gögn sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd bara nú í haust hafa sýnt að tekjur af auðlegðarskatti hafa dregist mjög saman. Og merkilegt nokk, virðulegi forseti, meira að segja erfðafjárskatturinn hefur dregist saman um hundruð milljóna (Gripið fram í: Er fólk hætt að deyja?) en fólk heldur áfram að deyja á Íslandi. Það er meira að segja orðin ofsköttun í erfðafjárskattinum. Það eru eftirmæli ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.