143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að ríkissjóður er skuldsettur viljum við afla honum meiri tekna. Hér hafa komið fram tillögur okkar til þess. Í sjálfu sér, ef við förum yfir fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir, er engin framtíðarsýn þar er varðar niðurgreiðslu skulda af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Ég er sammála þingmanninum að því leyti að ríkissjóður er vissulega mjög skuldsettur. Leiðir sem við viljum fara til að ná ríkissjóði út úr skuldunum eru ólíkar. Við viljum afla tekna með því að breikka áfram skattstofnana, ná inn tekjum þannig en ekki að lækka skatta á einstaklinga sem hafa háar tekjur eða annað slíkt heldur viljum við frekar auka skatta á þá sem geta lagt til samneyslunnar, eins og ég hef sagt áður.