143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórkarlalegar framkvæmdir. Það má vel vera að þetta sé frasi en það sem við höfum verið að tala um eru helstu áform ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað mjög mikið fyrir því að eina leiðin út úr þessu sé að byggja álver í Helguvík. Við fengum upplýsingar um það bara í gær að það er kannski ekki alveg í farvatninu.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað annað ætlar núverandi ríkisstjórn að leggja til? Hvaða framkvæmdir ætlar hún að leggja til? Hann getur kannski upplýst mig um það.

Varðandi afkomu sjávarútvegsins þá bendi ég hv. þingmanni á að kíkja í nefndarálitið. Þar er ágætisglæra varðandi EBITDA í sjávarútvegi á síðustu árum, hvernig hún hefur verið. Upplýsingar undanfarið hafa sýnt að sjávarútvegurinn getur vel staðið undir því sem við höfum talað um og gert ráð fyrir að sé hægt að innheimta í veiðigjöld. Það er ekkert sem bendir til annars. Hér hafa menn verið að greiða sér arð svo milljörðum skiptir.