143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég byrja á verkmenntahúsinu svo ég komist nú yfir að svara spurningum hv. þingmanns. Með þessari breytingartillögu, verði hún samþykkt, segir þingið og löggjafinn og fjárveitingavaldið að það vilji að farið verði í þetta verkefni. Það er búið að teikna útlit hússins og búið að ákveða nokkurn veginn hvernig það á að vera en það á eftir að fara í verkfræðiteikningarnar þannig að það er í rauninni það sem þarf að gera næst og að sjálfsögðu þarf að gera áætlun um með hvaða hætti verkið verður klárað. Það kostar peninga. Sveitarfélögin bera 40% af kostnaðinum, sveitarfélagahlutinn er um það bil 240 millj. kr. Þá getum við reiknað út hvar ríkisstjórnin stendur í því máli og ég veit að við, hv. þingmaður og ég, þingmenn kjördæmisins, erum sammála um mikilvægi þess að fara af stað í þetta verkefni.

Varðandi stöðu framhaldsskólanna er það alveg rétt að maður hefur auðvitað áhyggjur af því að gengið sé of nærri þeim í rekstri. Við heyrum fréttir af því. (Forseti hringir.) Staðan er erfið en við munum fylgjast með þessu áfram og auðvitað stefnum við að því að það fari ekki allt í voða varðandi þetta mál.