143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:13]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafi farið ágætlega yfir breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar áðan og fjárlagafrumvarpið. Það er svo sem óþarfi að endurtaka það sem hún sagði. Sjálfum finnst mér fjárlagafrumvarpið vera metnaðarfullt plagg sem ber þess vitni að menn eru tilbúnir að taka á vandamálum í fjármálum ríkisins. Það er alveg ljóst að við getum ekki rekið ríkissjóð með tapi ár eftir ár og tekið lán fyrir hallanum og borgað vexti sem eru að sliga okkur og munu að óbreyttu sliga framtíðarkynslóðir þessa lands. Þetta mál snýst náttúrlega um framtíðina, hvernig framtíð við viljum búa börnum okkar og barnabörnum.

Það er auðvitað auðvelt að koma hingað upp í ræðustól og gagnrýna niðurskurð og forgangsröðun þegar kemur að úthlutun fjármagns. Það eru skiptar skoðanir um þau mál eins og eðlilegt er. Eftir stendur að verið er að leggja fram hallalaus fjárlög þannig að vonandi getum við farið að borga niður þær skuldir sem hvíla eins og mara á okkur.

Ég get líka tekið undir það með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að ef ég væri „Palli er einn í heiminum“ hefði ég viljað sjá miklu meiri afgang á fjárlögum. Ég held að þær nokkur hundruð milljónir sem lagt er til að verði í afgang séu í það allra minnsta. Ég hefði viljað sjá nokkra milljarða í afgang, það er ekkert launungarmál. En það er bara eins og það er, það er erfitt að finna peninga og svona er staðan eins og hún er í dag.

Það liggur líka fyrir að halli þessa árs verður væntanlega 25–30 milljarðar kr., sem er náttúrlega allt of mikið. Við höldum áfram að safna skuldum og þær bætast við halla fyrri ára. Við verðum á einhverjum tímapunkti að segja stopp. Auðvitað má spyrja, eins og var gert hér áðan, hvort ríkisstjórnin hefði frekar átt að stefna að hallalausum fjárlögum eftir tvö til þrjú ár en ég held að það hafi verið kominn tími á að stíga mjög fast á bremsuna strax þannig að ég er nokkuð sáttur við það hvernig þetta mál liggur í dag. Við verðum líka að átta okkur á því að söfnun endalausra skulda getur bara endað á einn veg, þ.e. með gjaldþroti ríkisins, og meðan allir segja „ekki ég“ og vilja ekki taka þátt í þeim aðhaldsaðgerðum sem nauðsynlegar eru er þjóðargjaldþrot sú framtíðarsýn sem blasir við okkur. Auðvitað vill enginn fara þá leið þannig að við verðum að segja stopp.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram breytingartillögur sínar og það virðist vera víðtækt samkomulag þvert á flokka um að veita meiri fjármuni til heilbrigðiskerfisins, meiri fjármuni en gert var í sjálfu fjárlagafrumvarpinu enda náttúrlega ljóst að það þarf mun meiri fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Það ætti því að vera kominn tími og er löngu orðið tímabært að snúa vörn í sókn í heilbrigðiskerfinu. Það er náttúrlega verið að bæta Landspítalanum upp mikinn niðurskurð undanfarinna ára.

Ég hefði viljað sjá mun meiri framlög til heilbrigðiskerfisins. Ég get alveg tekið undir það sem fram kemur í breytingartillögum 2. minni hluta fjárlaganefndar, sem undirritaðar eru af hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, þar sem lagt er til að veittir verði um 5 milljarðar inn í heilbrigðiskerfið, þ.e. „að Alþingi samþykki aukin útgjöld til heilbrigðismála frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu upp á tæpa 5 milljarða kr.“ Ég hefði talið að þetta væri mjög gott. Þetta er sú upphæð sem ég hefði viljað sjá fara í heilbrigðiskerfið. Því miður næst það ekki núna en vonandi getum við bætt við á næsta ári og næstu árum þannig að þetta kerfi fari eitthvað að braggast.

Það má líka segja varðandi þróunarmál og þróunarverkefnin að auðvitað viljum við og flestir að 0,765% af vergri landsframleiðslu fari í þróunarmál. Þetta er það viðmið sem vestræn ríki hafa sett sér. Hér á landi höfum við verið í kringum 0,26%, langt á eftir flestum öðrum vestrænum ríkjum, þó ekki öllum. Vinir okkar í Skandinavíu hafa verið með mun hærra hlutfall en við. Auðvitað er það óviðunandi til lengri tíma litið að við getum ekki sett meiri peninga í þróunarmál, það er alveg á hreinu. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar varðandi þróunarmál og hef verið lengi að nauðsynlegt sé að skoða í hvað þessir peningar fara. Mér hefur fundist skorta svolítið upp á að það sé skilgreint að þessir peningar skili sér í ákveðin verkefni en hverfi ekki í einhverja hít yfirbyggingar, milliliði og annað slíkt. Það er það sem ég hefði viljað sjá varðandi þróunarmálin, mér finnst vanta svolítið upp á að það sé skilgreint.

Varðandi Ríkisútvarpið verður að segjast eins og er að sú stofnun hefur að miklu leyti verið nokkuð stikkfrí í niðurskurði síðustu ára. Við sjáum t.d. af fjölda starfsmanna að í raun hefur hann ekkert breyst svo mikið þrátt fyrir einhvern niðurskurð þarna og þrátt fyrir uppsagnir sem hafa jafnan verið rækilega auglýstar í fjölmiðlum. Þó að starfsfólki þarna hafi verið sagt upp og jafnvel einhverjum tugum þá virðist starfsmannafjöldinn hafa aukist mjög snöggt aftur þannig að ef við horfum yfir nokkur ár er ekki svo mikill munur á starfsmannafjölda. Starfsfólki hefur kannski aðeins fækkað en ekki mjög mikið. Þetta er á sama tíma og fjölmiðlar á almennum markaði hafa neyðst til að draga saman seglin. RÚV hefur því ekki fylgt á eftir hvað það varðar. Við verðum að gera þá kröfur til Ríkisútvarpsins að það taki eitthvað á sig líka.

Ég held að sá málatilbúnaður að með þessum niðurskurði sé íslensk menning í stórhættu sé ekki boðlegur. Ríkisútvarpið er enn sterk stofnun og verður það vonandi áfram og mun sinna hlutverki sínu með ágætum. Ég set persónulega nokkrar spurningar við þá forgangsröðun sem var höfð þegar kom að niðurskurðinum sem var tilkynntur fyrir tveim, þremur vikum. Ég hefði talið að það hefði átt að standa betur vörð um Rás 1 sem hefur ótvírætt menningarhlutverk. Ég tel líka að standa eigi vörð um fréttastofuna, ég hef sagt það áður og ítreka það hér. Ég held að hún gegni mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu og hafi verið sú fréttastofa sem almenningur hefur haft einna mest trú á þannig að ég styð að fréttastofa Ríkisútvarpsins verði ekki skorin niður frá því sem orðið er.

Mér fannst forvitnilegt að heyra hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fara yfir tillögur Samfylkingarinnar hérna áðan. Hún fullyrti m.a. að verið væri að færa fjármagn frá þeim sem minna mega sín yfir til útgerðarmanna. Mér finnst þetta sérstaklega forvitnilegt í ljósi þess að síðasta ríkisstjórn setti ólög um sérstakt veiðigjald sem hefðu þýtt að ríkissjóður hefði orðið af milljarðatekjum ef núverandi stjórnvöld hefðu ekki tekið í taumana í sumar. Ég held að menn eigi að fara sér hægt í að gagnrýna þetta atriði. Ef ekkert hefði verið gert er alveg ljóst að útgerðarmenn hefðu greitt milljarði minna til þjóðfélagsins en raun ber vitni.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir vildi líka aukin framlög til Landspítalans, sem er fagnaðarefni og gott að það skuli nást svona mikil og breið samstaða um aukið fjármagn þangað. Ég fagna því að menn séu sammála um þessa hluti.

Það var líka talað hérna áðan um að menn hefðu viljað sjá hærri bankaskatt, einn eða tveir þingmenn hafa rætt það hérna. Auðvitað má alltaf deila um það. Ég hefði persónulega viljað sjá hærri bankaskatt, ég segi það alveg eins og er, það er ekkert launungarmál. Ég hefði talið að hann mætti vera hærri. Ég hefði líka talið að það hefði átt að fara fyrr í að leggja bankaskattinn á, það hefði átt að fara í það í fyrra. Auðvitað var ekki hægt að fara í það fyrir þremur, fjórum árum en ég hefði talið að það hefði verið hægt á síðasta ári.

Ég held að þetta álit meiri hluta fjárlaganefndar beri þess merki að menn ætli að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins sem eru heilbrigðiskerfið og menntakerfið, sérstaklega heilbrigðiskerfið. Ég fagna því eins og ég sagði hér áðan að það skuli nást samstaða meðal þingmanna allra flokka um að bæta í heilbrigðiskerfið, það finnst mér gríðarlega mikilvægt, og ég vona að þau framlög verði aukin verulega.

Ég vil í lokin taka undir eitt sem ég minntist á áðan, þ.e. tillögu 2. minni hluta fjárlaganefndar um að nauðsynlegt væri að setja meira í heilbrigðiskerfið, allt að 5 milljarða. Ég fagna þeirri tillögu. Ég gæti ekki verið meira sammála.

Ég vil líka taka undir eitt atriði sem kom fram í breytingartillögu 1. minni hluta fjárlaganefndar, þ.e. hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, þar sem lagt er til að farið verði í átak í skattamálum sem skili 3 milljörðum í auknar tekjur. Þetta er mér mikið hjartans mál, ég tók þetta upp í þinginu í sumar. Því miður fannst mér það ekki hljóta nægilega mikinn hljómgrunn hjá fjármálaráðherra, en ég hefði talið að þarna leyndust tekjur sem hægt væri að ná í, þ.e. að það mikil undanskot væru frá skatti að við ættum að geta náð í miklu meira og nauðsynlegt væri að taka mun fastar á þessum málum.