143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir svarið um vaxtabæturnar. Við getum svo sem rætt það betur kannski síðar í umræðunni. En hvað varðar þróunarmálin vil ég láta þá afstöðu mína koma fram — af því að þróunarsamvinnan er tvískipt, tvíhliða, í gegnum Þróunarsamvinnustofnun Íslands eða fjölþjóðleg í gegnum alþjóðastofnanir — að tvíhliða þróunarsamvinnunni hefur verið beitt að mínu viti mjög markvisst af Íslands hálfu í gegnum fá tiltekin verkefni til allra fátækustu þjóða heims. Það má auðvitað spyrja sig meira varðandi fjölþjóðlegu þróunarsamvinnuna, sem er í gegnum alþjóðastofnanir, en það er engu að síður þannig að það eru staðlar frá OECD, þróunarsamvinnunefnd OECD, sem segja nákvæmlega fyrir um hvað má telja til þróunarsamvinnu í skilningi Sameinuðu þjóðanna um 0,7% viðmiðið af þjóðarframleiðslu, af því að í þessari umræðu var einhvern tíma verið að blanda t.d. Þróunarsjóði EFTA inn í þetta, sem lýsir bara fullkominni vanþekkingu þeirra sem fjalla með þeim hætti um málið, (Forseti hringir.) hvernig um þessi mál er búið.