143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka upplýsingarnar. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki meðvitaður um að þetta væru þvílíkar upphæðir. Eitt finnst mér þó alveg ljóst af umræðunni í samfélaginu og á hinu háa þingi, eftir að umræðan um legugjöld kom upp, að þjóðin vill forgangsraða heilbrigðiskerfinu. Það er alveg kýrskýrt.

Ef maður spyr Íslendinga segja þeir: Við erum með heilbrigðiskerfi, það er þess vegna sem við þurfum hærri skatta en margir mundu kannski vilja borga. Það er þess vegna sem við höfum svokallað ríkisbákn fyrst og fremst. Við þurfum auðvitað lögreglu og dómskerfi o.s.frv. en ef það er eitt sem fólk almennt vill að við séum með framar öðrum þjóðum, ekki bara sem grunnstoð heldur að við höfum það sem best þá er það heilbrigðiskerfið, hef ég tekið eftir.

Ég mundi skjóta á að menntakerfið væri aðeins á eftir en ekki langt. Vissulega kemur það í ljós út frá reiði almennings og allra sem ég talaði við á sínum tíma, sem létu sig málið varða á annað borð, að forgangsröðunin á að vera á heilbrigðiskerfinu og þess vegna er afskaplega leiðinlegt að sjá þá hugmynd dvína sem maður hafði um að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri gott. Ekki bara út frá þjónustulegu sjónarmiði heldur líka að því leyti að fólk þyrfti ekki að greiða mikið fyrir það, að fólk hefði raunhæfan aðgang að þjónustunni óháð efnahag. Því tek ég undir áhyggjur hv. þm. Árna Þór Sigurðssonar og vona að á þessu finnist einhver farsæl lausn.