143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú fer fram 2. umr. um fjárlög sem gjarnan er sagt að sé mikilvægasta umræða Alþingis. Fjárlögin eru nú seint á ferð, þau eru seint á ferð vegna þess að ný ríkisstjórn taldi sig þurfa lengri tíma til að undirbúa þau og Alþingi féllst á það að setja þingið þrem vikum seinna en ætlað var vegna þess að svo sem vera ber eru fjárlögin alltaf mál nr. 1. Því er náttúrlega ekki hægt að setja þing fyrr en frumvarpið liggur fyrir. Þrátt fyrir að þetta hafi verið vitað erum við að hefja þessa umræðu nú, ég held að ég fari rétt með, tíu dögum eftir að áætlað var á starfsáætlun að hefja fjárlagaumræðu. Við munum taka afleiðingunum af því og þurfum að vera hér og vandséð er hvort okkur tekst að klára allar þær umræður og öll þau mál sem þarf að ljúka áður en þingið fer í jólafrí sem ég held að hafi verið áætlað 19. desember.

Væntanlega eigum við eftir að vera hérna að minnsta kosti tíu daga í viðbót og þá er komin Þorláksmessa. Ég er ekki að telja það eftir mér að vera hér, síður en svo. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þetta eru fjórðu jólin sem ég er hér og alltaf hefur verið talað um að mál þurfi að koma fram fyrr og það sé ómögulegt að vera að þessu á síðustu stundu en nú er þetta verra að því leytinu til.

Við klárum þetta samt allt, trúi ég, með sóma og eins og endranær heitum við því að þetta komi ekki fyrir aftur. Ég er samt ekki alveg viss um að staðið verði við það heit, en ég vona það svo sannarlega.

Formaður fjárlaganefndar sagði í dag að fjárlaganefnd hefði slitið sig frá framkvæmdarvaldinu, enda færi Alþingi með fjárveitingavaldið sem við öll vitum. Ég má til með að hafa orð á því vegna þess að mér fannst einmitt ýmsar uppákomur hér í byrjun þessarar viku benda til þess að fjárlaganefnd hefði nú lítið um þær tillögur sem áttu að koma hér til breytinga við frumvarpið að segja. Maður áttar sig ekki almennilega á hverjir höfðu mest um það að segja. Fyrir helgina var tilkynnt um alls konar breytingar sem áttu að verða og það mun hafa komið bréf frá ríkisstjórninni um eitt og annað og formaður fjárlaganefndar sagði að hún mundi leggja fram ýmsar róttækar breytingar, m.a. á barnabótum vegna þess að eftir því sem hún sagði værum við orðin bótafíklar, einhverjir í þessu landi, einhver ósiður sem vinstri stjórnin kom á, að jafna tekjur í landinu og færa tekjur frá þeim sem hafa meira til þeirra sem hafa minna, jafna tekjur barnafjölskyldna, sem sagt auka tekjur barnafjölskyldna á kostnað þeirra sem hafa meira. Það er eftir því sem hv. formaður fjárlaganefndar kallar að fólk verði, já, hún notaði kannski ekki það orð, en sem sagt að það verði hálfgerðir bótafíklar.

Ekki varð af þeirri lækkun sem hafði verið skýrt frá í fréttum að ætti að vera, ég held að talað hafi verið um að lækkun á barnabótum og vaxtabótum til samans ætti að vera um 600 milljónir, minnir mig að hafi verið sagt. Þar af eru 300 í barnabæturnar. Það var dregið til baka og ég fagna því sannarlega, en á hinn bóginn finnst mér það ekki hafa verið nógu skýrt, að nú eigi að hækka vaxtabætur um 500 milljónir en ekki um 300 eins og fyrst var ætlað. Við vitum ekkert hvernig þær munu leggjast, við munum væntanlega ræða það við 3. umr. Ef barnabætur lækka, þótt engin frekari skýring sé gefin á því, erum við það klár í kollinum hérna í þingsal að við vitum að barnafjölskyldur fara verst út úr því. Að minnsta kosti hef ég það ekki alveg klárt í kollinum hverjir það eru nákvæmlega sem munu bera skarðan hlut frá borði við það að lækka vaxtabætur. Mér finnst nauðsynlegt að við fáum að vita það hið fyrsta. Ég vona að það komi.

Hinu ætla ég að fagna, virðulegur forseti, að eins og fjárlögin eru borin fram eru þau hallalaus. Ekki er of oft sagt að það er hreint ótrúlegt að ríkisstjórninni skuli takast það og okkur skuli takast það á Alþingi Íslendinga árið 2013 að tala um og styðja það að fjárlögin fyrir næsta ár verði hallalaus.

Það þýðir náttúrlega ekki að við séum öll sammála um hvernig á að fara að því að reka ríkissjóð hallalausan. Einhvern tímann var sagt: Peningar eru afl þess sem gera skal. Ég held að einhver mektarkona hafi sagt þetta eða skrifað á fyrri hluta síðustu aldar. Það er auðvitað svo og þess vegna er bæði öflun og ráðstöfun opinbers fjár spegillinn af stjórnmálaskoðunum fólks, hvernig við viljum afla teknanna og hvernig við viljum ráðstafa þeim.

Þess vegna erum við, þó að við séum hér mjög sammála um það að við viljum hallalaus fjárlög, tiltölulega ósammála um mörg atriði, ákveðin áhersluatriði, hvernig við eigum að afla teknanna og hvernig við eigum svo að ráðstafa þeim.

Lagðar hafa verið fram tillögur um hvernig megi ráðstafa tekjum öðruvísi, jafnvel hvernig megi auka í en á móti verða lagðar fram breytingartillögur um hvernig eigi að afla þeirra tekna.

Það er svo sem búið að segja það oft, mér finnst aðalstefið í því hvernig ríkisstjórnin rekur sitt mál vera það, frá þeim áætlunum sem höfðu verið uppi, að ríkisstjórnin hefur verið að minnka álögur á atvinnuvegi sem eru mjög vel aflögufærir, láta þá greiða minna og lækka svo bætur og ýmis önnur atriði sem ég ætla að fara aðeins nánar yfir á eftir.

Mig langar til að byrja á að tala aðeins um þróunarsamvinnuna. Það hefur verið talað mikið um hana. Ég minnist þess að í utanríkismálanefnd, ég held að það hafi verið vorið eða sumarið 2011, var til umræðu tillaga til þingsályktunar um þróunarsamvinnu. Í þeirri tillögu var eftirfarandi: Að árið 2011 færu 0,19% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu. 2012 0,20% og svo 2013 0,21% og 2014 0,23%. Það var mjög ánægjulegt að vera í utanríkismálanefnd á þeim tíma, það var svo sem ekki eins og allir væru í að hrósa hver öðrum eða í faðmlögum eða að styðja við bakið hver á öðrum í því starfi sem þar var unnið, en utanríkismálanefnd var þá sammála — þetta var í júní 2011, ég held að það sé alveg rétt með farið hjá mér — að það sé skammarlegt, eða ekki skammarlegt, að geta ekki gert betur en að vera með 0,19% í þróunarsamvinnuna, var sagt. Getum við ekki gert betur? Og þá var litið til þess að árið 2007, áður en allt fór hér á hausinn, höfðum við verið með 0,24% í þróunaraðstoð. Fólk sagði: Þurfum við að vera með 0,19%? Það var samkomulag allra í nefndinni, og það var bara mjög skemmtilegt að vera þar vegna þess að þetta var virkilega öðruvísi en þegar talað hafði verið um önnur mál. Þá var samþykkt að koma með breytingartillögu um að fyrir 2011 skyldum við vera með 0,21% í staðinn fyrir 0,19%, 2012 0,21% í staðinn fyrir 0,20%, 2013 0,25% í staðinn fyrir 0,21%. Síðasta vor er aftur komið með nýja áætlun til þróunarsamvinnu eins og til stóð og þá ákveður utanríkismálanefnd, eða við, Alþingi, að í stað þess að vera með fyrir árið 2013 0,25%, eins og var í áætluninni, að fara með það í 0,26% og svo 0,28% 2014 sem er óbreytt frá því sem var. Þetta var ákveðið þar. Það var náttúrlega mjög ánægjulegt. Auðvitað hafa framlögin lækkað frá því sem var 2008, 2009 og 2010 enda fór þetta þá upp úr öllu valdi í samanburði við þjóðarframleiðsluna vegna þess að skuldbindingin er að mestu í erlendri mynt og helst þess vegna í því, og svo hrynur þjóðarframleiðslan, þannig að árið 2008 vorum við komin í 0,37% og 2009 í 0,35% og 2010 í 0,27%.

Þetta er sem sagt sagan um það. Samkvæmt þeirri samþykkt sem gerð var í vor, fyrir kosningar, mælti öll utanríkismálanefndin með þessu og skrifaði undir nefndarálitið. Þetta var samþykkt samhljóða af öllum þeim sem voru í þingsalnum nema, svo það sé skýrt tekið fram, einum þingmanni sem greiddi atkvæði á móti, og það er hv. formaður fjárlaganefndar. Það er kannski þess vegna sem hún segir að fjárlaganefnd hafi rifið sig frá framkvæmdarvaldinu, einmitt út af þessu. Og það er út af fyrir sig ekki við hana að sakast um það að þegar frumvarpið er lagt fram er ekki þessi hækkun upp á 600 milljónir sem átti að vera inni samkvæmt nýsamþykktri þingsályktunartillögu. Þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram vantaði 600 milljónir og síðan núna í þeim breytingum sem fjárlaganefnd leggur fram koma 460 milljónir til viðbótar. Við erum að tala um milljarð sem við erum að skera niður til fátækustu þjóða heims og til Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem við rekum hér en innan vébanda Háskóla Sameinuðu þjóðanna eru skólar tengdir t.d. sjávarútvegi og landgræðslu. Ég var að leita í gamni, án þess að það skipti meginmáli í heildarsamhenginu, en ég sé að það er 30% niðurskurður til þessara háskóla. Það er heilmikið. Þar fer fram mjög merkileg starfsemi.

Síðan hef ég kvartað yfir — og ætla aldrei að hætta að kvarta ef maður getur kvartað og ef maður hefur einhverja ástæðu til þess — því hvernig fjárlögin eru sett fram, virðulegi forseti. Á bls. 310 í fjárlagafrumvarpi eru þróunarmál og alþjóðastofnanir teknar saman í einn bálk eins og það sé það sama. Hér stendur:

„Heildarfjárveiting til málefnaflokksins hækkar um 626,4 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar breytingar …“

Ég hugsaði með mér þegar ég las þetta: Hvaða bull er þetta í mér? Af hverju hélt ég að það hefði átt að hækka um 600 milljónir? Var það ekki? Þetta er þarna inni, hugsaði ég með mér. Hvaða misskilningur er þetta eiginlega í mér?

Nei, nei, þegar maður les áfram er farið að telja upp hvað verður áfram innan þessara fjárveitinga sem verið er að ræða um í þeim kafla sem heitir þróunarmál og alþjóðastofnanir. Þá segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Þá koma fram nokkur ný tilefni fyrir útgjaldaskuldbindingum sem samtals auka útgjöldin um 677 millj. kr.“ — Það er sem sagt á móti. Svo segir:

„Þar má nefna tæplega 750 millj. kr. hækkun á framlagi í Þróunarsjóð EFTA …“ — Þá kemur hér og ég lái engum, ég segi það, sem heldur að þegar stendur Þróunarsjóður EFTA sé það til þróunarsamvinnu. En það er alls ekki svo. Þetta er hluti af því að vera í EES-samvinnunni. Það kemur til af því þegar Evrópusambandið fór á sínum tíma að setja miklu meiri peninga til að hjálpa þeim löndum sem veikast standa innan Evrópusambandsins. Fyrst hafði sjóðurinn verið stofnaður til að hjálpa löndunum í suðri, Spáni, Portúgal og Grikklandi, fyrir mörgum árum, virðulegi forseti. Síðan er þessi sjóður stækkaður mikið þegar Austur-Evrópulöndin fara að sækja um aðild og koma inn í Evrópusambandið og þá er kemur þessi Þróunarsjóður EFTA til sem við borgum innan við 1% í, eða eitthvað svoleiðis. Það er hlutfallslega alveg fáránlega lítið sem við borgum í þennan sjóð þó að það séu miklir peningar fyrir okkur vegna þess að Norðmenn borga þetta allt. Þegar þetta átti að hækka, framlögin í sjóðinn hækkuðu heilmikið fyrir nokkrum árum, þá tóku Norðmenn á sig alla þá hækkun. Það var meira að segja áður en við fórum á hausinn.

En það er sett fram mjög villandi um hvað er að ræða. Þetta vildi ég sagt hafa um þróunaraðstoðina og peningana sem fara þangað. Ég tel rétt að því séu gerð skil, ég er mjög svo ósammála þessari ráðagerð. Ég er reyndar bara aldeilis hissa á öllum sem að þessu standa, nema kannski hv. formanni fjárlaganefndar, ég verð að segja það. Fjármálaráðherrann og aðrir framsóknarmenn sem hafa komið að þessu máli hafa allir verið sammála því að okkur bæri að standa vaktina í þessum efnum. Við skulum líka rifja það upp að aðrar þjóðir, t.d. Bretar, ég held Frakkar líka, a.m.k. veit ég alveg nákvæmlega um Breta því að þeir þurftu að skera mjög mikið niður hjá sér, ég held að þetta hafi svei mér þá verið það eina sem þeir héldu óbreyttu, þ.e. framlögum til þróunarmála og í þróunarsamvinnu.

Síðan hefur verið mikið rætt um fjárfestingaráætlunina. Ég vonaði sannast að segja þegar ég sá fjáraukalagafrumvarpið að það sem var dregið til baka, hækkanir í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, væri vísbending um að ríkisstjórnin hefði séð sig um hönd og þess sæi stað í fjárlagafrumvarpinu. En svona er ég nú bjartsýn og bláeyg. Því miður náði það ekki fram að ganga.

Hæstv. fjármálaráðherra vitnaði í gær í töflu á bls. 245, held ég, í fjárlagafrumvarpinu, um framlög í rannsóknasjóði, í sjóði Rannís, og las upp. Það sem verið er að leggja til núna er nokkurn veginn það sama og var lagt til á síðasta ári. Það er því ekki rétt, sem ég held að hann hafi sagt, að verið sé að lækka þetta eitthvað óskaplega mikið.

Virðulegi forseti. Það er verið að lækka það sem hafði verið lofað. Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að í þessari starfsemi, eins og annarri starfsemi — við vitum hvernig og ég hugsa að við munum það öll hvernig er að búa til snjóbolta. Þegar maður býr til snjóbolta vindur maður hann upp eins og þegar maður vindur upp á hnykil, þetta byrjar smátt og svo verður snjóboltinn, eða hnykillinn, alltaf stærri og stærri. Það þarf meira og meira og það er einmitt það sem gerist í til dæmis rannsóknarstörfum. Þess vegna mótmæla allir okkar bestu vísindamenn og hafa sagt sig úr Vísindaráði eða hvað það nú er vegna þess að þeir vita að boltinn hefur stækkað svo mikið að það er ekki í lagi að bjóða bara upp á það sama og áður var. Það fer meiri snjór í að stækka snjóboltann. Það þarf meira til að þetta haldi áfram að vaxa og skili þeim mikla árangri sem við höfum haft.

Síðan langar mig í þessu sambandi líka að minnast á Kvikmyndasjóðinn. Hann er tekinn niður um 450 milljónir frá því sem áður var. Clint Eastwood eða hvað þeir heita allir strákarnir eru búnir að skrifa bréf og útskýra hvað þetta sé vitlaus aðgerð. Ég held nefnilega að þeir hafi rétt fyrir sér, ekki af því að þeir eru frægir menn, heldur einmitt vegna þess að við lærðum það til dæmis í markaðsfræðum og ekki bara í markaðsfræðum heldur öðrum fræðum, jú, þegar maður ætlar að selja vöru eða hasla sér völl í einhverju verður maður að tryggja fyrst heimamarkaðinn. Þegar heimamarkaðurinn er orðinn góður, þegar maður ræður við hann, stækkar maður og fer að flytja út. Það er alveg það sama með Kvikmyndasjóðinn. Þessi Kvikmyndasjóður er til þess að Íslendingar geti búið til bíómyndir. Og það sem mér finnst svo merkilegt sem hefur komið fram í viðræðum við þá sem við þetta vinna er að þar lærir fólk, Íslendingar sem hér búa, að vinna þau störf sem þarf að vinna þegar verið er að búa til stórar bíómyndir. Þegar þeir koma, Clint Eastwood og hvað þeir allir heita, og fara að setja hérna upp myndir kann fólkið hér til verka. Þess vegna getur það unnið í slíkum verkefnum, og ekki þarf að koma með allt liðið með sér. Við erum líka komin með flotta klippara og flott alls konar fólk sem getur unnið meira og minna hér á landi, jafnvel þó að það sé að vinna fyrir erlendar kvikmyndir. Þetta er náttúrlega það sem skiptir miklu máli — og nú dettur mér bara allt í einu í hug að þess vegna þarf náttúrlega líka háhraðatengingar úti á landi. Það þýðir ekki að skera niður fjarskiptasjóð vegna þess að fólk þarf líka að geta unnið að svona verkefnum í Búðardal eða hvar sem er. Mér finnst það skipta máli, virðulegur forseti. Með því hvernig farið er með þessa fjárfestingaráætlun — mér fannst það svolítið skondið þegar ég var að skoða eitthvað um daginn um Ríkisútvarpið að þá var sagt, og það er út af því hvernig er verið að færa allt til hjá Ríkisútvarpinu, ég kem að því á eftir, að vegna — mér fannst það mjög gott — ráðstafana til að taka til baka það sem einhvern tímann var búið að ákveða. Það voru beinlínis ráðstafanir í gangi til að taka það allt til baka sem búið var að gera tillögur og áætlanir um.

Þá er gjarnan sagt: Já, það var ekki til fjármagn fyrir þessu og þið lofuðuð upp í ermina á ykkur og ekkert var að marka þetta og eitthvað svona, en auðvitað er það ekki svo. Ef fólk vill eyða peningum í það þá gerir það það. Ég held nefnilega að þetta sé munurinn á nýrri atvinnustefnu og þá segi ég enn og aftur, af því að ég hef sagt það fyrr í þessum ræðustól, að ég er ekki að tala niður hinar hefðbundnu atvinnugreinar, alls ekki. Ég er ekki að tala niður sjávarútveginn eða áliðnaðinn, alls ekki, en ég segi: Þarna kemur fram atvinnustefna um að koma með eitthvað nýtt. Það tekur tíma, það tekur langan tíma. Það er ekki eins og hægt sé að gera það í einni stórri summu núna og sýna fram á að það verði byggt eitthvert álver, kviss bang, og einhver kallaði það stórkarlaleg áform. Þetta tekur tíma, þess vegna þarf að vera með fjárfestingaráætlun fram í tímann. Ég ætla bara að vona að þeir sem eru hér við stjórnvölinn muni átta sig á þessu fyrr en síðar, að það er nauðsynleg til að gera hér búsældarlegt í framtíðinni.

Þá ætla ég að koma aðeins að Ríkisútvarpinu. Það eru náttúrlega alveg skelfilegir hlutir sem þar hafa verið að gerast. Fyrst var farið í þennan leik með markaða tekjustofna eða tekjustofna sem búið var að marka Ríkisútvarpinu — sem var gert með vilja, Ríkisútvarpið er mjög sérstök stofnun, hún er ein af grundvallarstoðum lýðræðis í landinu, grundvallarstoðum menningar í landinu — að segja: Það er nefskattur og hann á að vera þetta hár og búið var að ákveða hvað hann ætti að vera hár mörg ár fram í tímann og sett var upp ný tegund af stjórn þar sem pólitíkusar ættu ekki að vasast í stjórninni.

Þetta ákveðum við allt hér með miklum meiri hluta eftir síðustu jól. Síðan er byrjað að kroppa í þetta. Fyrst er byrjað á því að breyta stjórninni, náttúrlega til þess að geta einmitt gert allt það sem hefur gerst núna á undanförnum vikum. Ef það hefði verið — mér finnst svo leiðinlegt þetta orð „faglegt“ — fagleg stjórn hefði ekki verið svona auðvelt að fara í gegnum þær breytingar sem nú er verið að gera á Ríkisútvarpinu. Mér sýnist alveg ljóst — og aldrei hefur þetta verið rætt hér í þinginu, aldrei hafa þessar miklu breytingar sem verið er að gera á Ríkisútvarpinu verið ræddar mikið í þinginu, nema jú það var óskað eftir sérstakri umræðu um málið. Þá var það rætt hér. Annars á bara að þjösna þessu í gegn í krafti fjármagnsins, taka frá þeim peninga og þá er ekki hægt að reka útvarpið eins og það var og þá verður að fara að vilja okkar. Þetta er ótrúlegt, virðulegi forseti.

Fyrir utan það sem er búið að gera núna, þ.e. að segja upp 39 manns — ég ætla ekki að tala um aðferðirnar sem voru notaðar við það, aðrir hafa gert það, ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir það, aðrir tala um það og ég er sammála þeim sem gagnrýna það — á að taka 215 milljónir — og þá fór ég að ruglast aftur hérna og hugsaði: Bíddu nú við, var þetta ekki eitthvað með háskólann, að þeir fengju ekki öll innritunargjöldin, það vantaði rúmar 200 milljónir upp á að þeir fengju — nei, þeir áttu að fá, já, það voru rúmar 215 milljónir eða ef maður reiknar það upp sem þeir hefðu átt að fá út af hækkun á innritunargjöldum fá þeir bara 39. Svo sé ég allt í einu núna að verið er að auka í breytingartillögum fjárlagafrumvarpsins um rúmar 200 milljónir í fjárveitingu til háskólans. Ég hugsaði: Bíddu nú við, eru þeir þá að skila innritunargjöldunum? Þeir eru ekki eins slæmir og ég hélt, hugsaði ég. Nei, nei, þá þarf maður aðeins að púsla, skoða og athuga þetta allt saman upp á nýtt og þá kemur í ljós að þessar 215 milljónir sem er verið að færa þeim eru teknar af Ríkisútvarpinu í viðbót. 19 manns í viðbót. Það er verið að rústa þessari stofnun án þess að svo mikið sem að ræða það hér á samkundunni.

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hrædd um að eitthvað það sama sé að gerast í menntamálunum. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að nú sé ætlunin að fara inn í menntamálin og gera stórfelldar breytingar þar án þess að við fáum nokkuð að tala um það. Kúnstirnar í fjáraukalagafrumvarpinu eru náttúrlega byrjaðar, 300 milljónir sem á að nota á næsta ári til að gera eitthvað. Nú getur vel verið að eitthvað verði gert, það eru bara svo margar spurningar sem koma upp í hugann ef við ætlum að fara að breyta framhaldsskólakerfinu alveg. Mér finnst ekki hægt að ráðherra geti bara gert það án þess að ræða það á þinginu. Mér finnst ekki gott að þeir peningar hafi verið færðir til vegna þess í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir utan bókhaldssubbuskapinn í því sambandi, þarna er miklu meira að gerast en að hægt sé að leyfa ráðherranum að þvælast með það eins og hann vill. Það þurfa að vera fjölbreyttir framhaldsskólar. Ef það er sáluhjálparatriði að allir verði stúdentar 19 ára, er þá ekki hugsanlega hægt að stytta grunnskólann? Væri ekki hægt að sjá það að auðveldara væri að þjappa námi saman sem er frá því að nemendur eru sjö ára og upp í 15, 16 ára, á þeim tíma frekar en á fjórum árum? Það er svo margt í þessu.

Mér finnst þetta alveg furðulegt, ég er svolítið skelfd út af því hvernig gengið er fram í menntamálaráðuneytinu. Ég verð bara að viðurkenna það, virðulegur forseti.

Heilbrigðismálin. Við erum auðvitað öll sammála um, og búið er að segja að þjóðarsátt sé um það, að setja meira fé í heilbrigðismálin. Við í mínum flokki og mörgum öðrum erum hins vegar algjörlega á móti þessum svokölluðu innlagnargjöldum. Það er náttúrlega algjörlega ótrúlegt að setja eigi það í reglugerð í gegnum sjúkratryggingar. Ég man þegar lög um sjúkratryggingagjöld voru sett, þá vann ég reyndar í heilbrigðiskerfinu og reyndi að vara fólk við því sem þar var að gerast. Það vildi enginn hlusta á mig þá, virðulegi forseti.

En það sem mér finnst samt skrýtið í öllu þessu tali um þjóðarsátt er að það minnist enginn á nýjan Landspítala. Það er ekki neitt talað um nýjan Landspítala. Ég held samt sem áður að nýr Landspítali sé forsendan fyrir því að við getum uppfyllt þær kröfur sem við gerum til læknisþjónustunnar í framtíðinni, bæði sjúklingar og starfsfólk. Við gerum þær kröfur að starfsfólkið geti uppfyllt skyldur sínar eins og það best getur. Ef við fáum ekki nýjan spítala er ekki hægt að kaupa öll þau tæki sem vantar vegna þess að byggingarnar sjálfar geta ekki hýst nútímalækningatæki.

Aðeins í lokin langar mig að nefna Jón og séra Jón. Hér heyrðist í vikunni þegar ná þurfti í peninga út af því að hætt var við að lækka barnabæturnar að færast ætti 5% lækkun á öll ráðuneytin. Þau ættu að lækka kostnað sinn um 5%. Ég skoðaði þetta svolítið og þá er nú alveg auðséð að þar er Jón og séra Jón. Forsætisráðuneytið á að skera niður um 3,5%. Svo eru flest ráðuneytin í kringum 5% en svo er eitt ráðuneyti sem sker sig úr. Utanríkisráðuneytið, aðalskrifstofa, á að skera niður um 7,5%. Þetta er til viðbótar 46 milljónum vegna tapaðrar kröfu sem var lögð á ráðuneytið í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég spyr: Hvað er í gangi? Er þetta líka hluti af því að fjárlaganefndin er búin að rífa sig frá framkvæmdarvaldinu, að nú skuli einangrunarstefna og einangrunarhyggja formanns fjárlaganefndar virkilega sýna sig í þeim fjármunum sem utanríkisþjónustan hefur yfir að ráða? Mér finnst þetta skelfilegt. Ég vona að þetta sé einhver misskilningur í mér, ég segi það satt.

Ég var búin að fara yfir það að furðulegt er að við höfum ekkert um hvernig vaxtabæturnar eiga að leggjast. Þetta er svo gífurlega stórt atriði, ég veit ekki hvort forseti getur kannski eitthvað upplýst það. Ég get kannski spurt hann undir liðnum um fundarstjórn forseta á eftir, hvort hann geti upplýst þingið um það hvenær við fáum eitthvað um það efni.

Ekki meira um það að sinni. Ég segi eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason: Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.