143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svaraði ekki í fyrra andsvari þessu með yfirlýsingar hv. formanns fjárlaganefndar um Ríkisútvarpið og svo aftur skoðanir hennar á utanríkismálum sem liggur alveg ljóst fyrir að eru á þá lund að við eigum ekki að vesenast neitt mikið með útlendinga eða með útlendingum. Það er alveg ljóst. Það er erfitt að segja blákalt að það hafi haft áhrif. Hins vegar hlýtur maður að velta því fyrir sér að formaður fjárlaganefndar hefur ekkert legið á skoðunum sínum og heldur ekkert legið á því valdi sem hún hefur sem formaður fjárlaganefndar og á Alþingi. Þótt gömul sé lærði ég það fyrst í þinginu hvað það er mikil áhrifastaða að hafa dagskrárvaldið. Það er alveg ótrúlegt. Ef fólk vill beita því valdi getur það ráðið gífurlega miklu.

Ég held að ég kjósi að segja bara að ég velti þessu fyrir mér en kann ekki svarið við því og kannski kann ég ekki við að segja nákvæmlega hvað mér finnst.