143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála þingmanninum um það að hér birtist ákveðin stefna. Ég sagði það líka og lagði áherslu á í máli mínu að í fjárlagafrumvarpi og efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar birtast pólitískar áherslur, það er eðlilegt. Það er eðlilegt að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks birtist þær áherslur sem sú ríkisstjórn vill beita sér fyrir. Ég geri enga athugasemd við það en ég get verið ósammála þeirri stefnu. Það er það sem ég vildi segja varðandi lækkun á skattbyrðinni sem þingmaðurinn nefndi, þ.e. á skattprósentunni í miðþrepinu, en á sama tíma höfum við tekist hér á um hvort greiða ætti upp desemberuppbót til atvinnuleitenda sem ætti í mínum huga að vera framar í þeim forgangi.

Við höfum til dæmis talað um veiðigjöldin og arð þjóðarinnar af auðlindum. Auðvitað getur verið tekist á um það hverjar tekjurnar eiga að vera og hvaðan þær eiga að koma. Hver er uppspretta teknanna o.s.frv.? Það er eðlileg pólitísk umræða sem (Forseti hringir.) er rétt að við tökum í þessum sal.