143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir viðamikla og ágæta ræðu hér áðan. Ég get tekið undir margt sem hann sagði, ekki síst það þegar hann ræddi aðeins um skuldamál heimilanna og benti á að fyrri ríkisstjórn hefði gert ýmislegt fyrir heimilin í landinu. Ég er alveg sammála því, ég held að menn hafi verið of stóryrtir hér í ræðustól í lok síðasta þings um að lítið væri gert. Auðvitað var ýmislegt gert fyrir heimilin, það er alveg rétt, m.a. þessi 110%-leið. Það verður svo sem ekki tekið af fyrrverandi ríkisstjórn.

Hann minntist líka aðeins á Keynes og að nauðsynlegt væri að sýna aðhaldssemi á uppgangstímum hjá stjórnvöldum en gefa aðeins í í samdrætti, eins og hann orðaði það. Vegna þess langar mig að spyrja hann hvort hann sé þeirrar skoðunar að í dag sé rétt að auka skuldsetningu ríkisins til þess að auka framkvæmdir og annað slíkt. Ég bendi á að í fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) var ekki komið fjármagn í það allt saman. Mig langar að spyrja hann þessarar spurningar: (Forseti hringir.) Eigum við að taka stór lán í dag til að fara í fjárfestingar?