143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kenningin segir mér að við höfum verið undanfarið og séum enn þá í ákveðinni efnahagslægð og að við þær aðstæður sé eðlilegt að ríkið reki, eigum við að segja, ágenga efnahagsstefnu. Hvernig það er síðan fjármagnað er hluti sem verður að takast á við hverju sinni.

Vissulega erum við mjög skuldsett í augnablikinu og það má kannski til sanns vegar færa að ekki sé á það bætandi. Það þýðir líka vaxandi vaxtaútgjöld til lengri tíma litið. En þá er spurningin: Höfum við svigrúm að öðru leyti til að auka tekjur? Við höfum talað um það hér að ríkisstjórnin hafi kippt að vissu leyti fótum undan ákveðnum tekjupóstum með breytingum á veiðigjaldinu í sumar. Við höfum sagt að fjárfestingaráætlunin hafi víst verið fjármögnuð og það hafi verið ákvarðanir núverandi ríkisstjórnar sem kipptu grundvellinum undan þeirri fjármögnun, en ekki þau áform sem uppi voru af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar.