143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vek vinsamlegast athygli forseta á því að hér er ekki viðstaddur umræðuna hæstv. fjármálaráðherra, hér er ekki viðstaddur umræðuna formaður fjárlaganefndar og hér er ekki viðstaddur umræðuna varaformaður fjárlaganefndar. Læt ég þá lokið umfjöllun minni um það mál.

Ég hef fyrir mitt leyti tekið það mjög skýrt fram alveg frá því að frumvarpið kom fram og reyndar talað alloft um það undanfarin þrjú ár að það sé afar mikilvægt að halda sig við það markmið að ná hallalausum fjárlögum á árinu 2014. Það eru tvö eða tvö og hálft ár a.m.k. að verða frá því að við fórum að komast á þá skoðun í fjármálaráðuneytinu á Íslandi að það væri skynsamlegt að endurskoða aðeins taktinn í efnahagsáætlun Íslands og ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Þetta var rætt báðum megin við áramótin 2010/2011 við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og reyndar var þá þegar búið að gera nokkrar breytingar á upphaflegri efnahagsáætlun frá því í nóvember 2008 — nema hvað, áætlunin var meira og minna skot út í myrkrið, það var verið að reyna að giska á ástandið í svartholinu sem íslensk efnahagsmál voru þá.

Þegar kemur undir lok ársins 2010 og við erum að sigla inn á árið 2011 er orðið ljóst að ýmislegt hefur gengið heldur betur hjá okkur en upphaflegar spár gerðu ráð fyrir. Það var alveg ljóst að hagkerfið var að snúa við og við vorum að stefna í sæmilegan hagvöxt á árinu 2011. Ljóst var að þá þegar hafði náðst meiri árangur í aðlögun ríkisfjármála en menn höfðu átt von á og að skuldaþakið, þ.e. hinar opinberu skuldir og sérstaklega skuldir ríkissjóðs, mundi aldrei lenda eins hátt og menn reiknuðu með í árslok 2008 og framan af ári 2009. Við urðum langt, langt undir hættumörkunum, 120%, og margt leiddi líkur að því að það væri mögulegt að milda aðeins aðlögunaráætlunina og það væri efnahagslega skynsamlegt.

Það er skemmst frá því að segja að um þetta varð samstaða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varð sammála þessu mati eins og má lesa um í úttektunum sem fóru fram á framvindu efnahagsáætlunarinnar seint á árinu 2010 og í byrjun árs 2011. Þetta gekk inn í undirbúning fjárlagafrumvarpsins á árinu 2011 fyrir árið 2012. Þá var markið sett á að ná heildarjöfnuði á árinu 2014 og helst svolitlum afgangi.

Það er ágætt að rifja þetta upp vegna þess að ýmiss konar misskilningur er í gangi eða vanþekking á þessu hjá einstökum mönnum. Til dæmis hefur varaformaður fjárlaganefndar komið hingað upp með ræður um það að við höfum verið óralangt frá því að ná upphaflegum markmiðum um frumjöfnuð. Það er alveg rétt enda var löngu, löngu ljóst að það þyrfti ekki í þær svakalegu aðgerðir sem menn reiknuðu með að yrðu kannski nauðsynlegar til að bjarga Íslandi haustið 2008, þegar menn reiknuðu með að umfang aðgerðanna þyrfti að vera 16% af vergri landsframleiðslu. Svo geta menn margfaldað 16 sinnum 16 eða 16 sinnum 18 og séð hvað var verið að tala um í hundruðum milljarða. En sem betur fer reyndist þess ekki þörf.

Það var líka alveg ljóst að það var mjög skynsamlegt efnahagslega að ganga ekki harðar fram en nauðsynlegt var vegna þess að það studdi við batann í hagkerfinu að fara ekki í harkalegri aðgerðir en var í raun gert, hvort sem þær voru fólgnar í tekjuöflun eða niðurskurði. Þetta er alveg augljóst vegna þess að slíkar aðgerðir hafa kælandi áhrif og sérstaklega ef þær verða mjög umfangsmiklar. Ég tel líka að reynslan hafi sýnt að þetta var hárrétt mat. En eftir stendur að það er mikilvægt að við reynum að ná hinu setta marki sem Ísland hefur unnið að í þrjú ár. Það er líka mikilvægt vegna þess að þetta er það sem Ísland hefur boðað út á við að það ætli að gera. Þessi áætlun hefur legið fyrir, matsfyrirtækin og alþjóðastofnanir hafa vitað að þetta er það sem Ísland stefnir á. Þess vegna yrði það neikvætt fyrir landið ef þetta tækist ekki.

Ég vil líka minna á að tengt þessu hafa verið ýmiss konar umbætur hér í löggjöf og framkvæmd sem snýr að fjárlögum og fjárreiðum. Á miðju síðasta kjörtímabili eða upp úr því settum við lög um fjármál sveitarfélaganna, ný heildarlög, þar sem kom inn ítarlegur kafli um viðmiðunarmörk sem sveitarfélögin eiga að stefna að. Eitt af því sem hrunið leiddi í ljós var að samhæfing opinberra fjármála var alls ekki næg. Það var sáralítið samspil milli ríkisins annars vegar og fjárlaganna og þeirra reglna sem giltu um sveitarfélögin hins vegar. Við reyndum að byggja þetta samstarf upp og liður í því var breyting á lögum sveitarfélaganna, enda var það þannig að sveitarfélögunum var ætlað að taka á með ríkinu í þessum aðlögunaraðgerðum. Það var að vísu ekki nema 1% af vergri landsframleiðslu sem í áætluninni var gert ráð fyrir að hagræðing hjá sveitarfélögunum legði í púkkið, í púkk hinna opinberu fjármála, en það munar um það engu að síður, 16 milljarða.

Þá má nefna að í þessum áformum voru ný fjárreiðulög eða ný lög um opinber fjármál. Það hefur dregist nokkuð að þau líti hér dagsins ljós. Sem betur fer hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra margstaðfest að hann heldur þeirri vinnu áfram, það er gott, en okkur er sum farið að lengja nokkuð eftir frumvarpinu. Það væri ákaflega gott að hafa nægan tíma til að fjalla um það hér, þyrfti helst heilan vetur hjá þinginu. Ég batt vonir við að frumvarpið kæmi fram í nóvember eða nú í desember svo að við hefðum veturinn til að vinna það vandlega og gera það að lögum. Það þarf ákveðið tilhlaup til að komast inn í það kerfi. Ef þetta kemst ekki í lög á fyrstu mánuðum næsta árs missum við eitt fjárlagaár, það er eiginlega alveg augljóst að þá fer eitt fjárlagaár í viðbót fram hjá þessari nýju löggjöf.

Það reyndist unnt, og um það má lesa í greinargerð fjárlagafrumvarpsins frá haustinu 2011 fyrir fjárlagaárið 2012, að endurskoða aðlögunaráætlunina í fyrsta lagi vegna betri árangurs í ríkisfjármálum. Það stendur þar svart á hvítu og undir það er kvittað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Menn gera að vísu mismikið með hann nú í dag, sérstaklega ef hann segir eitthvað sem er þeim ekki að skapi, samanber hæstv. forsætisráðherra en það er auðvitað ekki nýtt að hann atyrði erlendar stofnanir og kalli þær skammstafanir úti í löndum sem sé lítið með að gera. Ég verð að segja alveg eins og er að mér líkar það ekki. Ég tel að það sé heldur snúið að hafið sé opinbert orðaskak og skítkast frá ríkisstjórn Íslands í garð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Menn mega segja hvað sem er um hann, en er það endilega okkar málstað til framdráttar eða OECD? Hefur það ekki þrátt fyrir allt reynst verðmætt að hafa góðan aðgang að og eiga samstarf við þessar stofnanir?

Við gátum aðlagað endurskoðunaráætlunina vegna lægri skulda, vegna minna atvinnuleysis og svo ber vissulega að nefna að vorið 2011 voru gerðir kjarasamningar sem höfðu þó nokkur útgjaldaáhrif fyrir ríki og sveitarfélög og það gerði það bæði efnahagslega skynsamlegt og í raun nauðsynlegt að horfa til áhrifanna af þeim og endurskoða svolítið taktinn í framvindu efnahagsáætlunarinnar.

Nú stöndum við á þeim tímamótum, eins og oft áður, að þurfa að velta fyrir okkur vænlegustu leiðum í stöðunni. Við þurfum að taka lokaskrefið í þeim efnum. Við eigum um það bil 10% eftir af verkefninu að komast í mark og ná hallalausum fjárlögum. Ef hallinn á þessu ári verður um 20 milljarðar kr. þá er það innan við 10% af hallanum 2008 og um 8% af hallanum 2009. Verkefni ríkisstjórnarinnar núna við að koma saman þessum fjárlögum er um 10% af því sem fyrri ríkisstjórn mátti láta sig hafa. Þannig er það nú. Samt tala sumir hér eins og það hafi aldrei nokkur kynslóð stjórnmálamanna í landinu staðið frammi fyrir öðrum eins ósköpum og þeim að koma saman þessum fjárlögum til að þau verði hallalaus. En stærðargráðan er um 10% af því sem búið var að gera á árunum 2009 til og með 2013.

Eftir sem áður skiptir máli hvaða aðferðir eru notaðar og hér er verið að hverfa af þeirri leið sem skilaði Íslandi þó þessum árangri eftir hrunið, hinni blönduðu leið tekjuöflunar og sparnaðaraðgerða. Það er klárlega verið að hverfa frá henni vegna þess að það er verið að gefa frá ríkinu umtalsverðar tekjur og aðeins í einu tilviki að afla nýrra, þar sem er bankaskatturinn, og stærstur hluti hans, ef marka má núverandi áform, fer í að efna ¼ af kosningaloforðum Framsóknarflokksins.

Förum aðeins yfir möguleikana á því að afla tekna. Hér áðan voru veiðigjöldin tilefni orðaskipta og hv. þm. Páll Pálsson nefndi úttekt Hagstofunnar á afkomu sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, sem við fengum núna í vikunni. Það vill svo til að ég hef líka lesið það plagg eins og ég geri reglubundið og skal aðeins ræða út frá því.

Hefði sjávarútvegurinn ráðið við veiðigjöldin af stærðargráðunni sem lagt var upp með vorið 2012 upp á 13,8 milljarða kr. á þessu fjárlagaári? En um það var samið að færu veiðigjöldin upp fyrir það yrði það bætt upp á fyrsta gjalddaga fiskveiðiársins 2013/2014 þannig að greiðslurnar yrðu ekki meiri. Skoðum útkomuna á árinu 2012. Hvernig var hún? Eða eigum við að byrja árið 2008? Muna menn hvað sjávarútvegurinn greiddi í veiðigjöld þá? 500 milljónir. Framlegðin, EBITDA, var engu að síður 48 milljarðar sem var í sjálfu sér ekki slæmt og var vel yfir því sem framlegðin hafði oft verið, en efnahagsreikningur sjávarútvegsins var í rúst. Sjávarútvegurinn var með neikvæðan höfuðstól upp á 12%. Hann var með öfugan höfuðstól upp á 80 milljarða. Auðvitað var hann í þeim skilningi ekki í góðum færum til þess að standa fyrir miklum útgreiðslum, en það breyttist hratt með gengishruni krónunnar og með ágætisárferði til sjávar, mjög háu verði og góðum aflabrögðum. Þær þrjár meginbreytur sem mestu ráða yfirleitt um afkomu sjávarútvegsins, þ.e. gengisskráningin, afurðaverðin og aflabrögðin, voru allar hagstæðar og bötnuðu ár frá ári enda fór framlegðin í 64 milljarða 2009, 66 milljarða 2010, 83,5 milljarða 2011 og 87,2 milljarða 2012 — fyrir veiðigjöld. En af þessu gengu 500 milljónir 2008, 1 milljarður 2009, 2,3 milljarðar 2010, 3,6 milljarðar 2011 og um það bil 7,5 milljarðar 2012, ég hef þá tölu ekki nákvæmlega útreiknaða. Hvað gerðist á meðan í efnahagsreikningi sjávarútvegsins? Jú, hann fór úr 80 milljarða neikvæðum höfuðstól í um 106 milljarða jákvætt eigið fé. Þetta er sem sagt tæplega 187 milljarða sveifla sem eiginfjárstaða sjávarútvegsins batnar á fjórum árum frá því að hún snýst við 2009, 2010, 2011 og 2012.

Finnst mönnum mikið að í veiðigjöld hafi farið innan við 20 milljarðar á þessum tíma? Innan við 15 miljarðar reyndar ef við tökum árin 2008 til og með 2012. Á fimm árum fara um 15 milljarðar í veiðigjöld en efnahagur sjávarútvegsins batnar um 187 milljarða þrátt fyrir þessi veiðigjöld. Er það ekki alveg þokkaleg útkoma? Jú, ég hefði haldið það. Og auðvitað þegar við lítum á framlegðartölur, eiginfjárþróun og stöðuna núna og horfurnar þá er málflutningurinn hér á árunum 2011 og 2012 og inn á árið 2013 um afkomu sjávarútvegsins og burði hans til að leggja sitt af mörkum þeim sem fyrir honum stóðu til háborinnar skammar vegna þess að opinberar hagtölur sýna að það voru engar innstæður fyrir því að það væri verið að ganga svo nærri sjávarútveginum að hann væri að fara á vonarvöl, öðru nær. Íslenskur sjávarútvegur hefur aldrei í sögu sinni búið við jafn samfellt góðæristímabil og frá árinu 2009, ég þekki alla vega ekki dæmi þess að meira og minna öll greinin hafi styrkt stöðu sína svo geysilega eins og á þessu tímabili.

Er ósanngjarnt að þær atvinnugreinar sem njóta góðs af hinu mikla hruni á gengi krónunnar, sem er borgað af öðrum í samfélaginu, leggi eitthvað af mörkum? Auðvitað eiga þær að gera það. Auðvitað eiga þær greinar sem sérstaklega hagnast á lágu gengi krónunnar, sjávarútvegurinn, útflutningsiðnaðurinn og ferðaþjónustan, að leggja af mörkum við þær aðstæður. Það jafnar aðstöðumuninn gagnvart hinum greinunum sem ekki njóta góðs af lágu gengi og þvert á móti gjalda sumar fyrir það. Það er sanngjarnt gagnvart almenningi á Íslandi sem borgar fyrir lækkun gengis í skertum lífskjörum. Það er þannig.

Að vísu er vottur af efnislegum rökum í því enda hefur því aldrei verið haldið fram að formúlurnar eða álagningin á árinu 2012 hafi verið sú besta möguleg miðað við afkomu einstakra greina sjávarútvegsins. Það er alveg ljóst að engin ein aðferð er til sem er góð og fullkomin í þeim efnum. Það er heldur ekki sanngjarnt að láta fyrirtækin borga hvert eftir sinni eigin afkomu því að þá borga best reknu fyrirtækin allt gjaldið en þeir sem standa sig lakar ekki neitt. Þá er líka hættan sú að menn fari að gullhúða hjá sér handriðin til þess að losna við að borga gjaldið.

Ég hef margsagt það að þegar maður lítur yfir þetta og skoðar þetta núna má færa nokkur rök fyrir því að gjaldtakan á bolfisk hafi verið fullþung á meðalstórar útgerðir sem ekki nutu góðs af framlegð í vinnslu, sem sagt þar sem um hreinar útgerðir var að ræða, ekki minnstu útgerðirnar því að þær fá auðvitað afslátt og hann eltir svolítið uppi gjaldið, 30 tonn gjaldfrjálst og næstu 75 tonn með hálfu gjaldi. Eftir á að hyggja og ég get vel tekið þá ábyrgð og sök á mig held ég að við hefðum átt að hafa afsláttarreglur aðeins rýmri, ekki endilega hærra frítekjumark en kannski hefði verið skynsamlegt að hafa til dæmis hálfa gjaldtöku upp í 200–300 tonn. Þá hefði hrunið sá málflutningur sem menn notuðu í vor leið fyrir því að stórlækka sérstakt veiðigjald á allan bolfisksflotann vegna þess að þess þarf ekki. Það er rangt að með breytingunum í vor hafi menn skilið algerlega á milli stóru fyrirtækjanna og hinna litlu og meðalstóru. Síðan hvenær varð Grandi lítið fyrirtæki? Síðan hvenær varð Fiskiðjan Skagfirðingur lítið fyrirtæki? Síðan hvenær varð Útgerðarfélag Akureyringa lítið fyrirtæki? Þrælstöndug fyrirtæki með gríðarlega góða afkomu en með það mikinn kvóta eða nánast alfarið í bolfiski, borið saman við uppsjávartegundir, að þau fengu gríðarlega eftirgjöf á sérstökum veiðigjöldum í vor. Þess þurfti ekki, breytingartillögur minni hlutans í sumar voru skynsamlegar að því leyti og hefðu leyst málið.

Ég tel því að það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa, herra forseti, eins og dómararnir sögðu í gær, að greinin hefði þolað það veiðigjald og jafnvel vel það sem henni var ætlað að bera upp á 13, 14 milljarða kr. og gæti vel gert það á næsta ári. Með tilteknum ráðstöfunum sem vel kunna að vera skynsamlegar, eins og ég hef hér farið yfir, væri hægt að sníða agnúana af því þannig að það þýddi ekki að koma hér upp með grátkórinn um það að þetta mundi setja alla á hausinn. Það er alveg yfirgengilegt að heyra slíkan málflutning. Það er aldeilis metnaður fyrir hönd greinarinnar þegar menn tala þannig, væla þannig, þvert á opinber haggögn og staðreyndir mála.

Auðvitað getur það verið þannig að einstaka fyrirtæki sé í sérstökum erfiðleikum og mundi ekki einu sinni ráða við þetta. En þá er eitthvað annað og meira að en það að miðað við svona eðlilega afkomu ráði menn ekki við hófleg veiðigjöld. Má ég þá minna á að inni í kerfinu er verulegur afsláttur til þeirra fyrirtækja sem bera miklar skuldir vegna kvótakaupa á umliðnum árum, sem má auðvitað kallast umdeilanlegt. Þar horfast menn í augu við veruleikann og grípa til gagnráðstafana sem eru ekkert endilega sanngjarnar gagnvart öðrum fyrirtækjum í greininni. En til þess að láta þetta ganga upp var það engu að síður gert. Ekki geta menn kennt því um. Ekki er komið aftan að mönnum þar þó að þeir hafi fjárfest og keypt kvóta jafnvel á þeim árum sem verðið var hæst.

Nákvæmlega sama á við um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Auðvitað er skynsamlegt að færa ferðaþjónustuna núna í einhverjum áföngum nær eðlilegu skattalegu umhverfi. Það er bullandi uppgangur í greininni. Nýting er t.d. að batna. Vetrarmánuðirnir eru að koma inn hjá velflestum gististöðum og hótelum sem á annað borð eru opin allt árið. Það er ávísun á mun betri afkomu, betri nýtingu. Hvað á það að þýða að virðisaukaskattur á hótelherbergi sé 7%? Látum það vera ef við viljum alveg sérstaklega styðja mat og menningu, en 7% virðisaukaskattur á gistinguna, 7% útskattur á ferðaþjónustuna, sem er reyndar ýmist 0 eða 7, nánast ekkert í 25%, hvað þýðir það þegar virðisaukaskattsuppgjör greinarinnar er skoðað? Það þýðir að á uppbyggingarárum borgar ríkið með virðisaukaskatti í ferðaþjónustu af því að innskatturinn kemur að fullu til frádráttar, útskatturinn er bara 7% þannig að ríkið borgar með greininni í virðisaukaskattsuppgjörinu.

Þessu mátti ekki breyta. Nei, nei, nei, nei, menn hlupu til í vor og kipptu þessu til baka — algerlega glórulaus aðgerð. Komið var næstum því að því að þetta ætti að taka gildi þannig að það var búið að mæta kröfum ferðaþjónustunnar um langan aðdraganda, rúmlega ár, en það var samt ekki nóg. Má ég þá spyrja að einu, herra forseti? Kannski veit hinn vísi formaður fjárlaganefndar það: Hefur ríkisstjórnin skoðað að hve miklu leyti virðisaukaskattshækkunin var komin inn í gjaldskrár ferðaþjónustuaðilanna? Hefur hún skoðað hvað margir hafa breytt gjaldskránni aftur til lækkunar? Ég er að vísu búinn að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. ferðamálaráðherra um þetta mál og ég er mjög spenntur að sjá svarið. Gæti það hugsast að ferðaþjónustan hefði séð sér leik á borði, búin að kynna verðskrár sínar, búin að undirbúa að það kæmi þarna svolítil hækkun út af breyttum virðisaukaskatti á Íslandi 1. september 2013,(Gripið fram í.) og kannski ekki endilega kippt henni til baka? Annað eins hefur nú gerst.

Hvernig gekk að ná niður matarverði þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 14% í 7%? Það muna margir þá sögu sem er sennilega ein af glórulausustu aðgerðum þeirrar ríkisstjórnar — og eru þó margar að telja — þegar í miðri þenslunni var rokið til og virðisaukaskatturinn á lægra þrepi lækkaður úr 14% í 7% við aðstæður þar sem var alveg augljóst mál að erfitt yrði að tryggja það að sú lækkun skilaði sér til neytenda. Það var beinlínis þensluhvetjandi aðgerð eins og bólan væri ekki nógu útblásin á Íslandi árið 2007.

Það eru þessir valkostir í stöðunni, herra forseti. Undan því komast stjórnarliðar ekki hversu hallærislega sem þeir semja sín nefndarálit og útlistanir á breytingartillögum sínum sem ég ætla að fara aðeins betur yfir hérna á eftir. Breytingartillögur minni hlutans, bæði okkar þingflokks, Vinstri grænna, og sömuleiðis Samfylkingarinnar, sýna það mjög vel að við eigum valkost. Við getum aflað tekna þannig að það þurfi ekki að bitna á almenningi nema í mjög litlum mæli. Við náum okkur í meiri tekjur af auðlindum okkar, við látum útflutningsgreinarnar borga. Auðvitað þyrftum við að komast lengra í þeim efnum, t.d. að ná meiri auðlindarentu í orkugeiranum. Af hverju á þjóðin ekki að njóta góðs af því þegar aðstæður eru þannig að nýting náttúruauðlinda hennar skilar mjög miklum arði? Arðurinn fer því miður í allt of ríkum mæli til annarra aðila. Hann fer úr landi í gegnum erlendu stórfyrirtækin sem eiga stóriðjuna, hann skilar sér ekki til okkar í þeim mæli sem hann gæti gert í ferðaþjónustunni og hann rennur í vasa eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna enda borga þeir sér út ríkulegan arð núna margir hverjir.

Áherslur meiri hlutans sem mikill vandræðagangur hefur einkennt — ég veit ekki hvort ég á að segja að mér hafi þótt það verra hversu vandræðalegt það var þegar tillögurnar komu fram og hurfu og allt var allt á fljúgandi ferð en mér fannst þetta fyrst og fremst ótrúverðugt, mér fannst þetta ónotalegt vegna þess að það vakti ekki traust að sjá hversu mikil lausung er í því (Gripið fram í.) þegar menn eru fram yfir eina helgi að stefna á (Gripið fram í.) að skerða barnabætur, svo renna þeir á rassinn með það og ákveða að bakka með eitthvað sem fékk ekki nógu gott próf úti í samfélaginu. (VigH: Eins og vaskurinn hjá þér.) — Herra forseti. Er ekki formaður fjárlaganefndar búin að halda hér heilmikla ræðu í dag? Hún getur bara farið á mælendaskrá aftur, er það ekki, herra forseti? Ég mæli með því að forseti setji hana á mælendaskrá. — Hvað er þá rokið til og gert? Jú, það er ákveðið að draga til baka skerðingu barnabóta en færa hana að 2/3 yfir í vaxtabætur sem auðvitað hittir að stórum hluta til sama hóp fyrir, yngra fólkið sem er með miklar skuldir og ekki endilega með háar tekjur og börn. Það var öll reisnin yfir því. Svo er farið og skorið flatt niður hjá ráðuneytunum um 5% upp úr þurru. Já, allt í lagi. En er þetta trúverðugt? Er þetta yfirvegað? Hafa menn lagt niður markmiðin fyrir sér og lagt niður stefnuna og unnið skipulega að því síðan í vor hvernig þeir ætla að takast á við ríkisfjármálin? Nei, það er nú varla hægt að segja það. Það hefur legið fyrir síðan í haust þegar frumvarpið kom fram að það gengi aldrei upp gagnvart heilbrigðismálunum þannig að ríkisstjórnin hefði átt að hafa tímann frá 1. október til þess að átta sig á því hvernig hún ætlaði að snúa sig út úr þeirri stöðu.

Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig gengið er frá ýmsum þáttum. Einn þeirra er t.d. Vegagerð ríkisins — hvar eru nú landsbyggðarhetjurnar? — og ýmis önnur byggðatengd mál. Það er undarlegt að enginn hefur rætt að það á að skerða verulega almennt framkvæmdafé Vegagerðarinnar til vegamála á næsta ári. Það á meðal annars að gera með því að láta Vegagerðina skila á 13. hundrað milljónum í ríkissjóð af mörkuðum tekjum sínum núna allt í einu. Eru góðar aðstæður til þess á Íslandi? Hefði ekki verið hugsanlegt að skoða hvort menn gætu náð þarna fram í senn mikilvægum verkefnum og markmiðum í samgöngumálum og haft svona frekar en hitt heillavænleg áhrif á t.d. framkvæmdastigið úti á landi með því að halda inni a.m.k. því framkvæmdagildi fjárveitinga til vegamála sem er á þessu ári? Það er ekki gert enda hefur það komið á daginn að ekki er staðið við gildandi samgönguáætlun. Verkefni sem átti að vera búið að bjóða út fyrir löngu eru ekki boðin út. Af hverju? Væntanlega af því að Vegagerðin og vegamálastjóri þora það ekki. Auðvitað vilja þeir ekki horfa fram á sjóðþurrð. Dettifossvegur er búinn að bíða núna í hálft ár eða svo, tilbúinn á borðinu, en hann er ekki boðinn út. Hver hefur umboð til þess að bjóða hann ekki út þegar Alþingi er búið að samþykkja samgönguáætlun og fjárveitingarnar lágu fyrir á þessu ári?

Vaxtabæturnar, það er veruleg skerðing á vaxtabótunum þegar þær eru búnar að taka á sig í viðbót stærstan hluta af skerðingunni sem átti að fara á barnabæturnar. Það er farið að taka í, það er farið að muna um það. Hvernig á það eftir að koma út fyrir einmitt fjölskyldurnar sem eru með lágar tekjur og þunga greiðslubyrði af lánum? Það verður mjög neikvætt fyrir þær, það er bara þannig. Tekjuskerðingarmörkin í vaxtabótunum eru auðvitað það skörp.

Daprast af öllu verð ég að segja, herra forseti, er þróunarsamvinnan. Það er alveg hryllilegt að lesa þetta.

Nefndarálit meiri hlutans er ákaflega stutt, það er rétt rúm ein blaðsíða í þessu litla broti, og svo koma bara útskýringar fjármálaráðuneytisins á breytingartillögunum. Það er ekkert óskaplega ítarlegur rökstuðningur af nefndarinnar hálfu fyrir t.d. forsendum fjárlagafrumvarpsins eða stóru dráttunum í efnahagsmálum. Ég velti fyrir mér, það væri gaman að skoða nefndarálit frá meiri hlutum fjárlaganefndar á undanförnum árum og sjá hvort menn hafi verið svona naumir á því í textanum. (LRM: Naumhyggja.) Þetta er mikil naumhyggja og gekk þó ekki lítið á við að ná þessu út úr nefndinni.

Í þessu skjali er utanríkisráðuneytið á bls. 11. Það verður að segja að farið er nokkuð harkalega í það ráðuneyti. Sjálft á það að taka á sig, þ.e. aðalskrifstofan, tæplega 100 milljóna niðurskurð. Svo fékk það víst löðrung í fjáraukalögunum og á að sitja eftir með 47 milljóna tjón af fjárdrætti. Þýðingamiðstöðin tekin niður og sendiráðin, sett á þau aðhaldsmarkmið. Gott og vel. En svo kemur alveg hryllilegur kafli, herra forseti, á bls. 12, 13, 14 og inn á blaðsíðu 15 í þessu plaggi. Ef menn hafa skjalið undir höndum mega þeir fletta því með mér. Það byrjar svona, með leyfi forseta:

„03-390 Þróunarsamvinnustofnun Íslands“ — almennur rekstur. Jú, hún er skorin niður líka. Það eru valdar út nokkrar stofnanir undir ráðuneytunum og þær skornar niður en aðrar ekki. Hvernig varð þessi hópur til af stofnunum, svona ein og upp í fjórar, fimm undir hverju ráðuneyti sem er skorið niður hjá en öðrum ekki? Hver valdi þær? Jú, það var gert á örfáum klukkutímum þegar menn bökkuðu út úr barnabótunum og skáru niður ráðuneytin. Þá allt í einu fljóta nokkrar stofnanir með, það er rosalega faglegt.

Svo kemur: „03-390 Þróunarsamvinnustofnun Íslands“ — þróunaraðstoð, mínus 174,8 milljónir. Þetta er þróunaraðstoðin sem við stöndum fyrir sjálf þar sem við, á grundvelli áherslna okkar, reynum að aðstoða fátækustu þjóðir heimsins.

Hvaða pólitík höfum við verið að taka upp í vaxandi mæli á síðustu árum? Við höfum valið að aðstoða sérstaklega konur og börn. Við höfum valið að beina þróunaraðstoð okkar í meira mæli í heilbrigðisgeirann. Við höfum valið að aðstoða við fæðingar og ungbarna- og mæðraeftirlit. Við höfum valið að aðstoða fólk í Afríku við að eiga kost á heilnæmu drykkjarvatni. Í vaxandi mæli höfum við svo aðstoðað þar sem aðstæður eru til við jarðhitanýtingu. Þetta á að skera niður um tæpar 175 milljónir.

Svo kemur: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, mínus 3,4 milljónir.

Svo kemur: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNDP, mínus 5,3 milljónir.

Svo kemur: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — Alþjóðabarnahjálparstofnunin, UNICEF, mínus 21,7 milljónir.

Er ekki gaman að lesa þetta?

Svo kemur: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — háskólar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Við ætlum ekki að hlífa þeim. Þeir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Jafnréttisskólinn og Landgræðsluskólinn. Elstu skólarnir eru Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn. Þeir hafa verið stolt okkar á alþjóðavettvangi í 20, 30 ár. Það er óumdeilt það starf sem unnið hefur verið t.d. í Jarðhitaskólanum, svo ég leyfi mér nú að nefna hann sérstaklega enda tilnefndum við hann til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs á síðasta ári. Hann hefði verið vel að því kominn að fá þau verðlaun. Það er gríðarlega merkilegt starf sem þar hefur verið unnið undir forustu Ingvars Birgis Friðleifssonar síðustu tvo áratugina eða svo. Já, við ætlum að skera það niður. Í tengslum við það verður Þróunarsamvinnustofnun á hina hliðina að skera líka niður sitt jarðhitaverkefni.

Bíddu, hvað hafa menn verið að tala um, á hverju eru þeir að monta sig, utanríkisráðherrarnir, bæði núverandi og fyrrverandi, svo að maður minnist nú ekki á Bessastaðabóndann? Það er búið að halda ófáar ræðurnar um það sem Ísland geti gert fyrir heiminn með því að aðstoða við jarðhitavæðingu. Það er mikið til í því. Við Íslendingar vitum nefnilega dálítið um jarðhita, fiskveiðar og svo nokkra hluti aðra þó að við reyndumst ekki vera snillingar í bankarekstri. Það er skynsamlegt að horfa til þess hvar við höfum eitthvað jákvætt fram að færa og getum lagt af mörkum.

Svo kemur, virðulegur forseti: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women, mínus 21,7 milljónir. Það er myndarlegt. Hefur ekki verið opinber stefna Íslands í sambandi við þróunaraðstoð að leggja sérstaklega áherslu á málefni kvenna og virkja þær til góðs í þeim löndum þar sem verið er að aðstoða við uppbyggingu og þróun? Það er hárrétt áhersla, það hefur sýnt sig, en við ætlum samt að skera niður framlagið til stofnunar Sameinuðu þjóðanna einmitt á þessu sviði.

Dapurlegastur er næsti liður, herra forseti: „03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi“ — mannúðarmál og neyðaraðstoð, mínus 32,5 milljónir kr. Hver er rökstuðningurinn fyrir þessu?

Hann er svona: „Lagt er til að dregið verði úr“ — þetta er staðlaður texti meira og minna út í gegn og er óþarfi að eyða pappír í að prenta hann tuttugu sinnum — „styrkjum til þróunaraðstoðar og þessum viðfangsefnum 32,5 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 2013 voru framlög til þessa málaflokks aukin um 1 milljarð kr., m.a. með hliðsjón af verulegri hækkun á veiðigjaldi á sjávarútveg sem þá var áformuð og annarri nýrri tekjuöflun sem átti að útfæra síðar.“

Hér er farið rangt með margt. Þessi hækkun var ekki bara áformuð, hún var framkvæmd. Það eru aðrir sem drógu hana til baka. Menn ættu a.m.k. að reyna að hafa svona texta rétta, ekki gefa það í skyn að þetta hafi bara verið áform — kannski getgátur — sem hafi verið að engu hafandi. Veiðigjöldin voru hækkuð en þau voru lækkuð aftur hér í vor. Rökin halda því ekki.

„Tillagan er gerð í því ljósi og í því skyni að breyta forgangsröðun fjármuna ríkissjóðs þannig að unnt verði að veita aukin framlög til brýnnar heilbrigðisstarfsemi beggja sérhæfðu sjúkrahúsanna í landinu sem fram koma í öðrum breytingartillögum við frumvarpið. Með þessari breytingu verða heildarframlög til þróunaraðstoðar á næsta ári 4.015 millj. kr. eða sem svarar til 0,23% af áætluðum þjóðartekjum.“

Sem sagt í staðinn fyrir 0,26% á þessu ári og samþykkt af Alþingi 0,28% á næsta ári fara þau til baka niður í 0,23%.

Þetta var liðurinn mannúðarmál og neyðaraðstoð, herra forseti, sem hér var verið að lesa upp með þessari beysnu röksemdafærslu eða hitt þó heldur, að þetta sé óumflýjanlegt til að hægt sé að leggja fjármuni í heilbrigðiskerfið. Samt kemur fram í röksemdafærslunni — gott og vel, tökum það gilt að hækkunin á þróunaraðstoðinni hafi að einhverju leyti átt að byggjast á hækkuðum tekjum af veiðigjaldi, en það er dálítið óheppilegt að taka það þarna fram vegna þess að núverandi ríkisstjórn lækkaði þær tekjur, eigum við þá að segja að ef hún hefði lækkað þær 1 milljarði minna hefðum við getað haldið okkur við samþykkta stefnu Alþingis um þróunaraðstoð, bætt rúmum 500 milljónum í og farið í 0,28%?

Svo verð ég að segja eitt, herra forseti, varðandi uppstillinguna. Það er verið að lækka liðinn mannúðarmál og neyðaraðstoð til þess að það sé hægt að láta einhverjar krónur í Landspítalann. Þetta er einhver ömurlegasta uppstilling sem ég hef nokkurn tíma séð á Alþingi. Þetta er svo lágkúrulegt, þetta er svo mikil móðgun við þjóðina. Haldið þið að fólk sé svona vitlaust, haldið þið að menn kaupi þetta? Hverjum datt þessi snilld í hug, að menn mundu sætta sig við hvað sem er bara ef það yrði tengt við Landspítalann eða Háskóla Íslands? Þá mundu menn kyngja því að Ríkisútvarpið yrði rústað enn rækilegar en þetta. Ég frábið mér svona uppsetningu enda eru engar innstæður fyrir því á einn eða neinn hátt. Þetta er algerlega fráleitt.

Haldið þið að þetta gerist þannig að núverandi fjármála- og efnahagsráðherra sitji við ríkiskassann og grípi krónurnar sem koma úr þróunaraðstoðinni og merki þær og sendi inn á Landspítala, haldið þið að þetta verði þannig? Haldið þið að það verði sömu krónurnar? Nei, það er nefnilega ekki þannig. Það eru bara tekjur sem koma inn í ríkissjóð og það eru bara gjöld sem fara út úr honum. Það eru engar merkingar á þeim krónum eða aurum.

Hvar endum við ef við höldum þessu áfram? Hverju megum við eiga von á næst? Verður Háskólanum á Akureyri næst stillt upp á móti sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og sagt: Heyrðu við verðum að skera aðeins niður í Háskólanum á Akureyri svo að við getum lagað kaffistofuna í sjúkrahúsinu á Stykkishólmi. Sjáið þið ekki hvað þetta er fráleitt og út í hvaða ógöngum menn lenda? Þetta er ekki sniðugt og þetta selst ekki og þetta dugar ekki. Það er bara þannig. Í fyrsta lagi sjá allir að það eru fleiri kostir í stöðunni. Það sjá líka allir hvað það er yfirgengilega fáfengilegt að halda að hægt sé að tengja saman með spottum útgjöld á einum stað og öðrum þvert í gegnum ríkisbókhaldið og flytja til merktar krónur frá einni stofnun yfir í aðra. Þetta er ekki svona, þetta gerist ekki svona í veruleikanum. Það er heimskulegt að setja svona á blað.

Verst er hve niðurlægjandi og móðgandi það er við íslensku þjóðina að reyna að telja henni trú um að við verðum að skerða aðstoð við fátækustu löndin í heiminum, við sem fram að þessu höfum þegið meira í þróunaraðstoð en við höfum veitt í sögu okkar sem lýðveldis, til þess að geta rekið Landspítalann okkar sómasamlega. Það er ekki svoleiðis, við getum það vel og við getum gert miklu betur. Við getum lagt þó nokkra fjármuni í mörg önnur góð verkefni, fjárfestingaráætlun, rannsóknir, þróun, nýsköpun, ef við höfum vilja til þess að fara þó ekki væri nema að einhverju leyti blandaða leið í þessum efnum.

Ég spyr: Hvar er Framsóknarflokkurinn? Er hann búinn að selja sál sína algerlega undir „austerity“-stefnu Sjálfstæðisflokksins, nýfrjálshyggju, niðurskurðar, aldrei-skattahækkanastefnu Sjálfstæðisflokksins? (GÞÞ: Gróðapungar.) Mér þykir vænt um að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er með því lífsmarki (Forseti hringir.) að hann getur gjammað aðeins hérna fram í. [Hlátur í þingsal.]