143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afar yfirgripsmikla ræðu sem var full af góðum upplýsingum fyrir hv. þingmenn. Það væri hægt að koma inn á ýmis mál en mig langar samt í andsvari mínu að halda mig við virðisaukaskatt og byrja á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur vaxið ótrúlega mikið á Íslandi. Fram kom hér fyrr í umræðunni að 60 þús. erlendir ferðamenn komu hingað til lands fyrir 20 árum og nú stefnir í að þeir verði 800 þúsund, 900 þúsund eða jafnvel milljón á næsta ári eða næstu tveimur árum.

Það gefur augaleið að það er heilmikið í kringum þetta allt saman. Íslendingar hafa góða reynslu af því að vera með atvinnugrein sem hefur vaxið þeim yfir höfuð, er með lausan ramma. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann meti rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og hvort neysluskattskerfið eða virðisaukaskattskerfið í kringum ferðaþjónustuna, ekki bara á hótel- og gistiþjónustu heldur allt sem er þarna í kring, hvort hann telji það nægilegt eða hvort við þurfum að leggjast í vinnu til að bæta umhverfi ferðaþjónustunnar allrar og hvort hann sé ekki sammála mér í því að skynsamlegt sé að fara í slíkar ráðstafanir einmitt þegar greinin er í örum vexti þannig að fjárfestingar og annar rekstur verði þá miðaður við eðlilegt umhverfi sem önnur fyrirtæki búa við.