143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað enginn vafi á því að samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu er mjög sterk. Hún er það kannski aðallega af tveim ástæðum núna, þ.e. gengisskráningin er henni mjög hagstæð eins og öðrum útflutnings- eða samkeppnisgreinum og hún er líka sterk vegna þess að Ísland hefur fengið gríðarlega landkynningu, það er vinsæll áfangastaður og ofarlega á listum mjög margra sem hugsa sér að ferðast. Það má auðvitað velta því fyrir sér og þær raddir hafa heyrst úr ferðaþjónustunni að við séum jafnvel að undirverðleggja okkur miðað við þá möguleika sem við eigum. Málsmetandi menn hafa nefnt það til sögunnar.

Það bendir ekki til þess að það væri stórhættuleg aðgerð að hækka virðisaukaskattinn til dæmis úr 7% í 14%.

Nýsjálendingar, sem ég þekki dálítið til, eru fyrir löngu búnir að breyta áherslum í sinni ferðaþjónustu þannig að þeir keppa að því að fá fleiri betur borgandi ferðamönnum, einfaldlega vegna þess að þeir eru komnir á svipaðan stað og við, reyndar eru þeir aftar en við ef við miðum við höfðatölu í ferðaþjónustunni. Þeir fá orðið eitthvað fleiri ferðamenn í milljónum talið en búa í landinu og ferðaþjónustan er orðin stór grein þar. Þeir eru með stórt, fallegt og viðkvæmt land og þeir hafa mótað þær áherslur að þeir vilji reyna að ná betur borgandi ferðamönnum. Þeir vilja ekki bara stjórnlausan massatúrisma eða fjölda heldur líka reyna að hafa sem mestar tekjur út úr greininni.

Ein leið til þess er auðvitað að láta greinina leggja aðeins meira í ríkissjóð. Kannski yrði vöxturinn eitthvað örlítið hægari, en væri það stórkostlegt í sjálfu sér? Erum við viss um að við ráðum við þennan vöxt næstu árin, ég tala nú ekki um ef við leggjum ekki eitthvað í innviðina? Það er auðvitað rétt og skylt að ræða þetta og setja þetta í heildarsamhengi.

Auðvitað eru þarna veikleikar, við vorum of sein af stað með að setja umtalsverða fjármuni í uppbyggingu og viðbúnað. Þarna er allt of mikil svört atvinnustarfsemi, það er svo sem að ýmsu að hyggja, (Forseti hringir.) ýmislegt sem taka þarf á, en mesta vandamálið er ekki það að samkeppnisstaða greinarinnar sé ekki sterk og að hún þoli ekki meiri greiðslur.