143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hefði ekki verið sanngjarnt að hækka álagið á uppsjávarveiðarnar meira en þetta borið saman við hina miklu lækkun sem varð á bolfiskinum. Það held ég að hafi skekkt dæmið allt of mikið í þá átt, einfaldlega vegna þess sem ég nefndi í ræðu minni, það eru mörg stór og öflug fyrirtæki með verulegan hluta eða mestan hluta veiðiheimilda sinna í botnfiski sem hafa gríðarlega góða afkomu. Ég sé ekki að sanngjarnt sé að þau fái þá svona miklu vægari meðhöndlun en hin.

Ég staðfesti hins vegar að uppsjávarfyrirtækin búa við geysilega góða afkomu og ráða vel við þetta gjald.

Það er ómögulegt að segja nákvæmlega hvernig í heild sinni spilast úr því. Kolmunnaaflinn mun fara upp. Makríllinn verður vonandi aldrei minni en hann hefur verið tvö undanfarin ár, kannski meiri, en norsk-íslenska síldin fer eitthvað niður og við vitum ekki um loðnuna. Þannig standa þau mál í grófum dráttum í bili.

En þorskurinn er á uppleið og framlegðin ætti að vaxa hjá fyrirtækjum sem eru með veiðiheimildir í þorski og allan fastan kostnað dekkaðan (Forseti hringir.) og fá að veiða núna ár eftir ár 20 þús. tonnum meira á ári. (Gripið fram í.) Mér fannst menn til dæmis horfa algerlega fram hjá árlegum vexti í þorskveiðum þegar þeir voru með þennan mikla afslátt af veiðigjaldinu í vor. Sem betur fer er verðið farið að hækka aftur.