143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:00]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Undanfarnar vikur hefur frumvarp til fjárlaga verið til umræðu og undirbúnings í fjárlaganefnd til 2. umr. Um 20 fundir hafa verið haldnir í fjárlaganefnd og ítarlega verið farið yfir frumvarpið sem lagt var fram til 1. umr. í byrjun október. Fyrir nefndina hafa komið fulltrúar allra ráðuneyta, sumir oftar en einu sinni. Ríkisendurskoðun hefur fundað með nefndinni sem og Hagstofa Íslands. Fulltrúar yfir 50 sveitarfélaga og fulltrúar atvinnulífsins hafa komið fyrir nefndina og þess utan heimsótti fjárlaganefnd ýmsar stofnanir á Akureyri og í Reykjavík.

Ég vil segja að fyrir nýja fjárlaganefndarmenn er upplýsingar mjög aðgengilegar. Allir nefndarmenn fá tækifæri til að spyrja og ræða við hverja þá sem komu fyrir nefndina um hvað eina er lýtur að þeirra stofnun. Allir þeir sem komu fyrir nefndina voru boðnir og búnir að veita þær upplýsingar sem um var beðið og útskýra þær eða senda nefndinni ítargögn. Nefndarmenn nýttu sér það mjög vel og það voru oft mjög miklar umræður þar sem staðan var krufin frá ýmsum sjónarhornum. Fyrir mitt leyti var þetta starf lærdómsríkt og fræðandi og ég býst við að það muni nýtast við næstu fjárlagagerð.

Það var unnið mjög skipulega. Ég vil þakka formanni og varaformanni fyrir góða verkstjórn og leiðbeiningar. Ég vil líka þakka nefndarriturum fyrir alla þeirra aðstoð og nefndarmönnum öllum fyrir góða samvinnu.

Auk hefðbundinna funda í fjárlaganefnd átti stjórnarmeirihluti fjárlaganefndar ásamt sínum varamönnum og þeim þingmönnum sem skipuðu hagræðingarhópinn marga fundi til undirbúnings framlagningu fjárlagafrumvarps til 2. umr. Lögð var mikil vinna í að fara vel yfir alla fjárlagaliði gagnrýnum augum og skoða ríkisreikninga fyrri ára með það að markmiði að sjá þróun undangenginna ára. Sú vinna mun nýtast áfram þótt hún hafi ekki verið nýtt að fullu núna.

Markmið stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd var að ná því að lögð yrðu fram hallalaus fjárlög og að tilfærslur og niðurskurður ættu sér stað frá 1. umr. sem skapaði svigrúm til að bæta verulegum fjármunum inn í heilbrigðiskerfi landsmanna. Öllum er fullkunnugt að árum saman hefur vantað aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið og ég held að það hafi komið skýrt til skila til þingmanna að almenn sátt sé um það að nú sé komið að því að setja það fjármagn sem mögulegt er þangað.

Þrátt fyrir það mun enn vanta verulega í og þrátt fyrir að við 2. umr. fjárlaga sé nú bætt 4.000 milljónum í heilbrigðiskerfið, þar af 3.000 milljónum við framlög til Landspítala sem voru 43 þús. milljónir við framlagningu frumvarpsins og er því sá fjárlagaliður um 45 milljarðar árið 2014.

Til Sjúkrahússins á Akureyri er bætt við 544 milljónum við þær 5.000 milljónir sem því var ætlað við 1. umr. Þá er bætt 405 milljónum við framlög til annarra heilbrigðisstofnana á landinu og 200 milljónum til hjúkrunarheimila á landinu. Það er ánægjulegt að geta staðið að þeirri breytingu og vonandi mun það verða til þess að allt heilbrigðisstarfsfólk sem hefur unnið af heilindum undir gríðarlegu álagi til fjölda ára fái einhverja bót á starfsaðstöðu sinni og geti veitt sjúklingum enn betri umönnun og þjónustu. Það hefur sýnt fádæma æðruleysi í sínum erfiðu aðstæðum.

Hins vegar er það svo að annað ríkiskerfi hefur einnig búið við samfelldan niðurskurð árum saman, en það er skólakerfið okkar. Ég vil reyndar taka framhaldsskólann sérstaklega út þar. Stjórnendur og starfsfólk framhaldsskóla hafa sýnt fádæma þolinmæði og samviskusemi í störfum sínum með ungmennum landsins og búið við afar þröngan kost hvað starfsaðstöðu varðar. Framhaldsskólum er ákvarðað fjármagn gegnum reiknilíkan sem í sjálfu sér væri ásættanlegt ef ekki væri fyrir þá sök að breytur þar eru margar löngu skekktar.

Árum saman hafa skólameistarar bent á þær stikur í reiknilíkani sem þarfnast leiðréttingar án þess að hægt hafi verið að taka tillit til þeirra ábendinga. Þeir hafa ekki staðið á torgum og hrópað út þennan vanda, heldur lagt mikla áherslu á að vinna með sínu ráðuneyti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur mikinn metnað til að bæta þá stöðu.

Hæstv. forseti. Á rekstrargrunni er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði á árinu 2014 samtals 591,8 milljarður og heildargjöldin 591,1 milljarður. Frumjöfnuður eða jákvæð afkoma er því 661,7 millj. kr.

Það er afar mikilvægt að ríkissjóður verði rekinn með jákvæðri afkomu hallalaus.

Gert er ráð fyrir að vaxtagjöld ein og sér sem ríkissjóður þarf að greiða á árinu 2014 séu 75,5 milljarðar á rekstrargrunni. Fyrir þá upphæð mætti reka Landspítalann í næstum tvö ár. Það er augljóst mál að mikilvægt er að auka ekki lántökur hjá ríkissjóði.

Hér er verið að ræða fyrstu hallalausu fjárlög í sex ár, hæstv. forseti.

Í þessum fjárlögum eru margar tillögur sem miða að því að styðja við bakið á barnafjölskyldum, lántakendum, öryrkjum og eldra fólki. Þannig verður tekjuskattur í miðjuþrepi lækkaður um 0,8% sem hefur í för með sér að ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 5 milljarða. Þá verður launafólki heimilað að ráðstafa séreignarsparnaði til niðurgreiðslu á húsnæðislánum sínum og gefst kostur á að leggja fyrir allt að 4% af launum skattfrjálst og fá á móti 2% frá launagreiðanda. Þau 6% sem verða skattfrjáls notar launþeginn annaðhvort til þess að greiða beint inn á húsnæðislánin sín til lækkunar, eða inn á húsnæðissparnaðarreikning til að nota við kaup á eigin húsnæði. Sá húsnæðissparnaður getur lækkað höfuðstól lána um allt að 20% á þeim fjórum árum sem aðgerðin mun standa.

Dregið verður úr skerðingum til bótaþega, en framlög til elli- og örorkulífeyrisþega svo og félagslegrar aðstoðar aukast um 5 milljarða og þar að auki um 3,4 milljarða vegna verðbóta og fjölgunar bótaþega. Hér er því samanlagt mesta útgjaldaaukning í einstökum málaflokki fjárlagafrumvarpsins, eða 8.400 millj. kr. aukning til bótaþega á árinu 2014.

Launaþak í fæðingarorlofi mun hækka úr 350 í 370 þúsund og mánaðarlegar greiðslur hækka einnig.

Hækkun barnabóta frá 2013 verður varin, en þar er um 2.700 millj. kr. hækkun að ræða og er því í allt um 10,2 milljarða að ræða sem ríkissjóður greiðir í barnabætur á árinu 2014.

Hæstv. forseti. Aðalskrifstofum ráðuneyta verður gert að draga úr útgjöldum sem nemur 13,8 milljörðum kr. Milli 1. og 2. umr. var aðhaldskrafan aukin um 1,8 milljarða. Utanríkisráðuneyti er gert að draga saman um 620 milljónir frá framlagningu fumvarpsins. Heildarframlag til þróunaraðstoðar af hálfu Íslendinga nemur 4.015 millj. kr. árið 2014, eða 0,23% af áætluðum þjóðartekjum. Árið 2012 og árin þar á undan var það 0,21%. Heildarframlög til þróunarsamstarfs og aðstoðar nema að frátöldum niðurskurði til málaflokksins því 6.700 milljónum á árinu 2014. Heildarútgjöld utanríkisráðuneytisins nema rétt tæpum 11 milljörðum.

Hæstv. forseti. Það sem einkennir þessi fjárlög eru stóraukin framlög til heilbrigðismála og niðurskurður á aðalskrifstofum ráðuneytanna. Markmiðið allan tímann er að skila hallalausum fjárlögum og hætta skuldasöfnun til hagsbóta fyrir kynslóðir framtíðar. Ég hef oft sagt að við getum verið þakklát fyrir að ríkissjóður skyldi vera orðinn skuldlaus árið 2007. Það er brattur vegur fram undan en allt mjakast og vonandi lítum við öll bjartari tíma.

Ég vil að endingu segja það að allir sem komið hafa að gerð þessara fjárlaga hafa gert það af samviskusemi, heiðarleika og einlægum vilja til að vinna þjóð sinni vel. Menn getur greint á um áherslur og útfærslur, en að halda að baki búi einhverjar annarlegar hvatir einstakra fjárlaganefndarmanna er sannarlega út í hött. Við höfum úr ákveðnu fjármagni að vinna og í mörg horn er að líta. Við sáum líka í vinnu okkar að sumar stofnanir og ríkisfyrirtæki hafa verið í vari, ef svo má segja, og í einhverjum tilfellum fengið aukningu á framlagi á næstliðnum árum meðan aðrar stofnanir hafa verið í sífelldum niðurskurði. Þess vegna bind ég sérstaklega vonir við að í næstu fjárlögum komi örugglega að skólakerfinu okkar.