143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:14]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að hv. þm. Helgi Hjörvar talar um hjón. Það er ekkert samasemmerki á milli þess endilega að þó að annar aðilinn sé með háar tekjur hafi hinn það líka. Hann þekkir jafn vel og ég að í mörgum tilfellum eru konur láglaunahópur. Það er alveg rétt að það má segja að það sé sanngirniskrafa að setja mesta skattalækkun á neðsta þrepið. Hins vegar er staðan líka sú að miðjutekjuhópurinn hefur kannski farið mjög illa út úr ýmsum niðurskurði undangenginna ára og miðjutekjuhópurinn er líka sá hópur sem ber skattlagningu á ýmsum sviðum.

Eitt af því sem við þurfum að gera er að hækka laun þeirra lægst launuðu. Ég get alveg tekið undir það að það er fyrir neðan allar hellur að fólk sé með fyrir neðan 200 þús. kr. á mánuði í laun. Það er ekki mannsæmandi. Ég ræð hins vegar ekki atvinnulífinu, þeim kjarasamningum, en ég vildi gjarnan sjá samfélag þar sem fólk hefði mannsæmandi laun og gæti haft í sig og á. Meðal annars þess vegna erum við með bótakerfi, til að styðja við bakið á þeim sem lægst hafa launin þó að í okkar blandaða hagkerfi hátti þannig til að þeir sem eru með meðallaun og jafnvel í hæstu launaflokkum fái barnabætur ef því er að skipta.