143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Varðandi sameiningar heilbrigðisstofnana held ég að grundvallarspurningin sé hvernig að því er staðið, það skiptir mestu máli til að einhver árangur sé af þeim. Ég held að mjög óraunhæft sé að reikna með því að það skili hagræðingu í formi lækkaðra framlaga til þessara stofnana. Það er búið að skera það mikið niður hjá þeim að við þurfum að bæta við.

Þess vegna er vont að sjá þetta í gegnum fjárlögin, það hefði þurft að fara fram miklu ítarlegri greining. Hún liggur fyrir hvað varðar Norðurland, þar hefur verið vandað mjög til verka, en þar hefur þó aldrei verið tekin afstaða til þess hvaða stofnanir á að sameina. Sumar stofnanir á Norðurlandi, eins og á Norðurlandi vestra, Hvammstangi er undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Á að sameina allt svæðið? Af hverju er fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri úti? Eiga Þingeyingarnir og Skagfirðingarnir saman o.s.frv.? Þetta hafa þeir verið að vinna sjálfir og ég held að það eigi að byggja á þeirri vinnu, en það þarf að ná fram samlegðinni og styrkleikanum í því að styrkja svæðið og styrkja það svo austur fyrir í gegnum fjórðungssjúkrahúsið. En menn verða að vanda sig mjög ef þetta á að skila einhverju (Forseti hringir.) af viti.