143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi heilsugæsluna. Það er rétt ef á að fylgja þeim hugmyndum sem þar hafa verið uppi varðandi bæði Akureyri og Höfn í Hornafirði og hafa tekist mjög vel og þjónusta einmitt verið í þeim vanda að hún sé veitt nær. Ég er ekki viss um að það eigi að færa alla heilsugæsluna, þetta er ekki auðvelt vegna þess að það eru blandaðar stofnanir víða á landinu sem eru heilsugæsla, hjúkrunarheimili og sjúkrahús, allt hýst á sömu stofnuninni og þolir ekki að því sé holað í sundur.

Akureyri er til dæmis með alveg ótrúlega skemmtilega samvinnu á milli heilsugæslunnar sem þar er sjálfstæð og fjórðungssjúkrahússins. Þess vegna kom mér á óvart ef á að taka heilsugæsluna á Akureyri og færa hana út úr. Ég skal þó viðurkenna að þar hefði vantað fjármagn.

Varðandi framhaldsskólana er nefnilega um tvennt að ræða. Það er hægt að fara í sameiningu versus að reyna að tryggja fjölbreytnina og vera með samkeppni. Sjálfur hef ég verið talsmaður þess að vera með samvinnu í samkeppni, þ.e. að menn vinni saman á stórum svæðum, nái saman samlegðaráhrifum og vinni þannig saman, en haldi um leið sérstöðu skólanna og samkeppninni. Þess vegna er ég ekki talsmaður þess að menn fari að sameina skóla (Forseti hringir.) og auka þar með einsleitnina í framboði.