143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög fróðleg ræða sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, flutti hér, ekki síst um ýmsa þætti sem snúa að heilbrigðisþjónustunni. Þó þótti mér upphafsorð hans vekja mann til umhugsunar þegar hann rifjar upp ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í vor um að falla frá ýmsum tekjuöflunarleiðum. Þetta hefur oft verið reifað hér í þingsal, þ.e. hvernig horfið er frá því að innheimta 6,5 milljarða frá stórútgerðinni, yfir 9 milljarða í auðlegðarskatt frá þeim sem eru efnamiklir. Hann vakti athygli á því að hvað varðar virðisaukann á ferðaþjónustuna var verið að hækka það sem áður hafði verið lækkað. Mér þætti vænt um að fá hv. þingmann til að rifja upp þennan aðdraganda vegna þess að þetta skiptir máli.

Þarna er um að ræða hálfan annan milljarð á ári sem ætla má að kæmi inn í ríkissjóð. (Forseti hringir.) Hvernig mundi hv. þingmaður forgangsraða þeim peningum sem ríkinu hefur verið afsalað sér með þessum hætti?