143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir mjög góða og yfirgripsmikla ræðu. Ég var sammála honum í mjög mörgu, ekki síst þegar hann ræddi um fátækt og nauðsyn þess að eyða henni á Íslandi. Það er til skammar að árið 2013 skuli enn þá vera raunveruleg fátækt hér á landi. Ég er líka sammála honum varðandi desemberuppbótina, hún hefði þurft að koma til framkvæmda og það er mjög mikil synd að hún virðist ekki ætla að koma til útborgunar.

Spurning mín er eiginlega framhald af spurningu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Ég spyr vegna þess að hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur mikla reynslu af velferðarmálum. Heilsugæslan úti á landi, sér hann einhvers staðar möguleika á hagræðingu þar og sparnaði umfram það sem nú er? Við vitum að það hefur orðið mikill niðurskurður, en sér hann sem fagaðili möguleika á frekari sparnaði?