143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins fylgja þessu eftir með heilsugæsluna. Það sem við eigum algjörlega ónotað tækifæri í er í sambandi við tæknivæðingu, þ.e. að menn geti þjónustað heilbrigðiskerfið úti á landi frá stóru spítölunum, frá miðlægum stöðvum þar sem menn geta bókstaflega í gegnum fjarlækningar þjónustað vel. Þetta er gert víða erlendis, mikið í Kanada, við sjáum þetta á Grænlandi og víðar. Við eigum mikil sóknarfæri þar til að bæta þjónustuna. Það er ekkert rosalega mikil fjárfesting í að koma þessu á.

Varðandi greiðsluþátttökuna er svarið einfalt: Við erum að fara upp í 19–20% af útgjöldum í gegnum endurgreiðslu frá fólki. Ég segi að við eigum að vera í um það bil 18%. Til þess aftur á móti að jafna það þurfum við að taka undir, eins og verið er að gera núna, öll útgjöldin, hvort sem það er ferðakostnaður utan af landi til þess að komast í læknisþjónustu, á sjúkrahótelin og aðra slíka þjónustu, hjálpartækin og annað, og reyna að jafna þann kostnaði út með því að þeir sem þurfa litla heilbrigðisþjónustu borgi meira og þeir sem bera mikinn kostnað (Forseti hringir.) borgi minna.