143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við fjöllum um fjárlög sem í sjálfu sér eru besti vegvísirinn um það hvað koma skal. Þetta er pólitíkin í verki.

Prívat og persónulega er ég ekki á móti ráðdeild og mér finnst í sjálfu sér margt mjög jákvætt í þeirri stefnu sem er að finna í þessum fjárlögum varðandi ráðdeildina. Þó er það svo að ef maður fastar of lengi getur maður dáið úr hungri. Ég óttast að margt af því sem er lagt til að gera í þessum fjárlögum verði til þess að þau sem eru búin að herða sultarólarnar svo þétt og hafa beðið lengi eftir lausnum á sínum málum og sjá hvorki lausnir koma fram í tillögum ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu á forsendubresti né í þessu fjárlagafrumvarpi missi móðinn. Ég heyri mjög mikið í fólki sem hefur misst alla von, [Hlátur í hliðarsal.] það er búið að berjast við kerfið okkar — er nokkuð hægt að loka bara? Þið truflið mig svo mikið með öllu þessu skvaldri þarna.

Í þessari vinnu ætti maður meðal annars að passa upp á fólkið sem á fáa málsvara. Það eru allt of margir svoleiðis í samfélaginu okkar, allt of margir sem eru of fáir til þess að skipta einhverju máli og ef þeir mundu mótmæla væru þeir bara of fáir til að nokkur mundi hlusta á þá í raun. Ég sé ekki að komið sé til móts við þá hópa í þessu frumvarpi. Þvert á móti opinberaðist viljinn í atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin þegar hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir óskaði eftir því að þingið sýndi vilja sinn varðandi desemberuppbót fyrir atvinnulausa og þingið ákvað að verða ekki við þeirri ósk. Allir ráðherrar eru þingmenn þegar þeir eru í þingsal og ef þingmaður skorar á þingheim að gera eitthvað í einhverju máli, af hverju greiðir ráðherrann ekki atkvæði með því sem ráðherrann kallar eftir? Það er mér fyrirmunað að skilja. Það er ekki útúrsnúningur eða nein meinbægni að kalla eftir því að fólk standi sjálft við það sem það biður aðra um að hjálpa sér með.

Ég bar mikla virðingu fyrir hæstv. ráðherra þegar ráðherrann var einvörðungu þingmaður og er hissa á breytingunni. Það sem mig langar til að fjalla um sérstaklega í kringum þessi fjárlög er hinn furðulegi pókerleikur þegar einhverjir flokkar í minni hluta tala um X og berjast fyrir einhverjum tilteknum hlutum, svo þegar þeir komast í stjórn er allt í einu öllum hlutverkum snúið á hvolf. Ég held að þetta sé mjög óheilbrigt, það eru mjög óheilbrigð skilaboð inn í samfélagið að maður sé aldrei tilbúinn að standa með því sem maður berst fyrir ef maður er allt í einu kominn í einhverja aðra stöðu. Þannig er það ekki í lífinu, þannig á það ekki að vera, að þegar maður er í stjórnarandstöðu krefji maður stjórn um eitthvað og svo þegar maður er kominn í stjórn sé maður allt í einu farinn að segja eitthvað þveröfugt. Mér finnst það mjög furðuleg skilaboð og það stríðir gegn þeim skilaboðum sem við eigum að færa út í samfélagið. Ef það eru engir fastir pólar og enginn staður til að líta eftir einmitt ráðdeildinni og staðfestunni er ekkert skrýtið að við séum í þeim óefnum sem við erum í í dag.

Jákvæði hluturinn, ja, það er ekki beint jákvætt en það sem má segja okkur til varnar er að svona er þetta úti um allan heim. Þess vegna er krafan um alvörukerfisumbætur, og ekki bara kerfisumbætur heldur nýtt kerfi, sífellt að verða háværari. Kerfin okkar eru orðin svo margfalt flóknari en þegar fyrst voru lögð drög að þeim að þau eru hætt að þjóna þeim sem þau eiga að þjóna, þau eru hætt að þjóna fólkinu og eru farin að snúast eingöngu um sjálf sig.

Það sér maður skýrt þegar maður lítur til baka. Ég man þegar ég tók þátt í umræðum um fjárlög á síðasta kjörtímabili. Eins og komið hefur fram áður á ég því láni að fagna að hafa alltaf verið í nákvæmlega sömu stöðu, stöðu minnihlutaþingmanns, og kannski er þess vegna auðveldara fyrir mann að leyfa sér að gagnrýna hlutverkaskipti allra flokkanna hér inni fyrir utan Bjarta framtíð sem er nýr flokkur. Hlutverkaskiptin hljóta líka að vera erfið fyrir hv. þingmenn sem einstaklinga, að þurfa allt í einu að láta eins og þeir hafi algjörlega skipt um skoðun án nokkurra annarra raka en að vera allt í einu komnir í aðra valdastöðu. Það er mjög margt sem við þingmenn getum gert til að breyta þessu. Þegar ráðherra kallar eftir því að þingið hjálpi sér að sýna mennsku eigum við þingmenn að verða við því kalli, að sjálfsögðu. Það sem er kannski sorglegast, sérstaklega við desemberuppbótina, er að með umræðunni vakti ráðherrann ákveðna von hjá fólki. Margir sem fundu þessa von hafa haft samband við mig. Oft er einhverju hótað í fjárlögum, einhverjum niðurskurði, og svo er bakkað með hann ef það verður hávær krafa um það. Þetta er eins og pókerleikur með mannslíf. Komið er með tillögur um niðurskurð eða verið er að þrengja sultarólina enn frekar hjá fólki þegar því er gefin von og svo er hún tekin í burtu. Við erum að fjalla um fólk, tilfinningar þess, lífsviðurværi og vonir barna í kringum þessa hátíð. Hvernig getum við leyft okkur að gleyma því og halda að þetta séu bara einhverjar tölur?

Ég er svolítið reið yfir því að við getum ekki vandað okkur betur við að skilja að við erum að fjalla um fólk. Við erum að fjalla um einstaklinga. Við erum að fjalla um fólk sem nú hefur áhyggjur af því að lenda á spítala. Svo ég segi það enn og aftur, 5 þús. kr. eða 10 þús. kr., hvað þá 15 þús. kr., geta skipt öllu máli í fjárhag fjölskyldna. Það er þannig og þá er ég ekki bara að tala um atvinnulausa eða öryrkja eða þá sem fátækastir eru meðal þeirra sem þiggja ellilífeyri, nei, þá er ég líka að tala um námsmenn og þá sem eru á lægstu laununum. Það eru allt of margir. Það eru nefnilega allt of margir á fátæktarmörkum jafnframt að berjast við tilveru þar sem allt hefur hækkað svo mikið. Þetta eru ekki bara okkar fjárlög. Orkureikningurinn hefur hækkað gríðarlega mikið hjá fólki og húsnæði sömuleiðis. Reikningar þeirra sem eru til dæmis hjá Félagsbústöðum eða hafa keypt sér búseturéttindi hafa tvöfaldast.

Síðan kemur óöryggi með því að ef maður er veikur á maður ekkert skjól. Heilbrigðiskerfið er orðið alveg gríðarlega flókið og að sjálfsögðu þurfum við að stokka mikið upp þar, t.d. með því að hér verði vitundarvakning um það hvenær maður þarf að fara til læknis og hvenær ekki. Ég bjó áður í litlu þorpi úti á landi og þá fór maður ekkert rosalega oft til læknis. Ef það kom gat á hausinn eða eitthvað saumaði heimilislæknirinn gatið enda of mikið vesen að fara á slysó. Mér finnst samt skrýtið að heimilislækna- og heilsugæslukerfið er eitthvað svo brotið. Mig langar að spyrja einhvern hér eða ég vona að einhver úr stjórnarflokkunum útskýri fyrir mér hvort það sé eitthvað verið að gera með það sem mikið var rætt á síðasta kjörtímabili meðal þeirra sem vinna innan heilbrigðiskerfisins, að við þurfum að laga og styrkja heilsugæsluna. Ég hef ekki getað kynnt mér hvert einasta smáatriði fjárlagafrumvarpsins, ég á ekki sæti í fjárlaganefnd og við erum bara þrír þingmenn þannig að við þyrftum oft að vera í mörgum nefndum á sama tíma, en ég hef þó fylgst með umræðunum hérna og eins og ég segi hef ég skilning á þeirri hugmyndafræði að það sé nauðsynlegt að minnka skuldir ríkisins. Auðvitað er blóðugt að horfa upp á það að við séum að brenna svo miklu af okkar sameiginlegu sjóðum með vaxtagreiðslum. Auðvitað þurfum við að huga að því.

Það sem truflar mig er forgangsröðunin. Það er nefnilega eftir einhver kaka og einhver sjóður sem við eigum sameiginlega og það er svo margt sem mér finnst skringilegt. Til er orðatiltæki sem er á þann veg að maður hendi barninu út með baðvatninu og það finnst mér við til dæmis vera að gera þegar kemur að menningu. Ég fylgist mjög mikið með því hvernig aðrir í heiminum sjá okkur. Ég hef oft búið erlendis og þegar maður talar við fólk erlendis frá, og þetta hefur verið svona um langa tíð, segir það manni yfirleitt frá því sem það þekkir til Íslands. Það eru yfirleitt Björk, Sigur Rós, síðustu ár Eyjafjallajökull, náttúran — en það er alltaf fyrst menningin, það eru kvikmyndirnar, tónlistin og nú bókmenntirnar í sívaxandi mæli. Það er alveg magnað að hafa fylgst með menningu okkar fara á flug í hinum stóra heimi. Mér finnst það frábært af því að það er til dæmis ein leið til að viðhalda tungumálinu okkar. Þetta hangir allt saman.

Við höfum fengið margt fólk til Íslands í stór verkefni í tengslum við erlendar kvikmyndir. Það fólk hefur komið með reynslu inn í reynslugagnabanka íslenskra fyrirtækja sem sérhæfa sig í að þjónusta þessi stóru og viðamiklu verkefni. Þrátt fyrir mjög þröngan kost okkar hafa líka komið frábærar kvikmyndir frá Íslandi sem hafa hlotið viðurkenningar. Einn af kostum þess að vera smáþjóð er þessi svokallaði smáþjóðakomplex, við þurfum alltaf að sýna umheiminum að við getum staðið okkur. Ég hef einmitt átt margar samræður við fólk héðan og þaðan úr heiminum sem furðar sig á því hvað það er mikill fjölbreytileiki í menningu okkar.

Á síðasta kjörtímabili kom út stórmerkileg skýrsla þar sem farið var yfir hagnað af hverri krónu sem var látin í menningu. Hann er töluvert mikill af því að þegar við tökum þátt í svona stórum og viðamiklum verkefnum eins og gerð kvikmynda, sem er eitt af flóknustu verkefnunum sem við getum farið út í, er það alltaf krafa að íslenska ríkið styrki um eitthvert smotterí en svo koma kannski 2/3 utan frá í styrkjum. Þá fáum við meiri peninga í kökuna okkar til að styrkja menningu. Það væri athyglisvert að fá alvörukönnun á því, ég held að það hafi verið gerðar einhverjar yfirborðslegar kannanir, hversu margir sem koma hingað heyra fyrst af Íslandi út af menningunni. Ég get alveg sagt ykkur að ég áætla að þeir séu margir. Svo fara þeir að skoða náttúruna, skoða ljósmyndir og koma hingað til að upplifa náttúruna en ekki síður samfélag okkar og menningu.

Það vekur furðu þegar við byrjum að skera niður og tala niður menninguna okkar. Ha? Það er fólk hérna sem finnst alveg sjálfsagt að við höfum ekkert þjóðleikhús og að við sleppum sinfóníunni. Við getum líka bara búið til frystihús úr Hörpu eða margra hæða grænmetisverksmiðju.

Það er eitt annað sem ég skil heldur ekki. Mér þótti til dæmis græna hagkerfið mjög spennandi af því að við öll á þinginu tókum þátt í að móta framtíðarstefnu. Það var mjög spennandi. Þannig er mín sýn á að þingið eigi að virka, að við vinnum saman, finnum þessa sameiginlegu sýn. Auðvitað þurfti fullt af fólki að bakka, þar á meðal við í Hreyfingunni á þeim tíma, til að koma til móts við Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn. Þetta gengur allt út á að finna sameiginlega sýn.

Nú erum við með þannig þing að það er mjög mikill meiri hluti og þá upplifir maður pínulítið að ekki sé eins mikill áhugi á að vinna þverpólitískt saman. Þannig á það ekki að vera. Við sem einstaklingar, fulltrúar fyrir mismunandi hópa samfélagsins, eigum að finna okkur knúin til að vinna saman. Það voru vonbrigði á síðasta kjörtímabili, sér í lagi á fyrstu tveimur árunum, að þá var oft mjög erfitt að ná samvinnu um ýmis mál. Við náðum þó sem betur fer mikilvægri samvinnu þingmanna um til dæmis Icesave. Það var gríðarlega mikil vinna sem átti sér stað við að lagfæra þann ónýta samning. Það er ekki hægt að hafa aðventu án þess að þetta orð heyrist að minnsta kosti einu sinni, (Gripið fram í: Á jólaföstunni.) á jólaföstunni. Það er kannski þess vegna sem mér finnst álagið ekki neitt í kringum þessi jól af því að í kringum fyrstu jólin og áramótin sem ég var á þingi var það talsvert öðruvísi. Ég hélt að þetta væri alla daga svona, að maður væri í vinnunni 16 tíma á dag og fengi sér lúr á skrifstofunni sinni, en það er kannski ekki til fyrirmyndar.

Mig langar að ræða líka þetta fyrirbæri sem heitir nefskattur. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt um kerfið sitt sem er virkilega gagnlegt af því að ég held að maður geti ekki breytt neinu nema maður kynnist og skilji hvernig þetta gríðarlega flókna kerfi funkerar. Það var einu sinni til eitthvað sem hét útvarpsgjald. Af því að það var gjald rann það beint til útvarpsins. Núna þegar búið er að breyta þessu í skatt, sem er kallað því snyrtilega nafni nefskattur af því að það er á hvert einasta nef á Íslandi sem er komið á skattborgunaraldur, rennur það ekkert endilega til RÚV, það fer bara inn í einhverja gríðarlega stóra hít og það er ekki skylda að verja því til Ríkisútvarpsins þó að það sé skattur sem komi fyrir Ríkisútvarpið.

Er ég ein um að finnast þetta pínu furðulegt? Mér fannst svo frábært að það væri til eitthvert skattadæmi þar sem ég hefði tilfinningu fyrir því að ég vissi eitthvað hvert skatturinn sem ég er að borga fer, en svo er það bara ekkert þannig, þetta er bara blekking. Ég legg þá til að í staðinn fyrir að vera með svona blekkingarskattheimtu sem fer ekkert í það sem það á að fara í — og þetta er ekkert bara um nefskattinn á RÚV, það eru fleiri tekjustofnar byggðir á blekkingu — förum við bara aftur í að nota hugtakið gjald, sem sagt framkvæmdina gjald, á allt sem á að gjaldfæra fyrir. Nefskatturinn er gjald, það er bara búið að breyta um eðli og þarna er í raun verið að plata fólk. Ég held að langflestir sem borga þennan nefskatt haldi eða hafi haldið að hann færi til RÚV og skilja svo ekkert hvernig það getur hreinlega verið löglegt að skattur sem er búið að nefna nefskatt fyrir RÚV fari ekki þangað.

Ég hef líka áhyggjur af þessu með háskólann. Nú á að fara að hækka inntökugjöldin eða skólagjöldin og ég hef áhyggjur af því að að þau gjöld — eru þetta gjöld eða er þetta skattur? Mun þetta allt renna í undirstöðurnar eða verður þá skorið af háskólanum? Verða teknar af honum tekjur af því að hann er að fara að hækka gjöldin? Mér finnst þetta allt eitthvað svo ruglingslegt og fólk ætti að fylgjast með umræðunum úti í samfélaginu. Ég finn fyrir miklum ótta hjá fólki og óöryggi akkúrat á þeim tíma þegar maður á kannski að gefa fólki smáljós í skammdeginu.

Ég geri mér líka grein fyrir því, svo ég sé ekki bara einhver neikvæðnispúki, að það er flókið ferli að finna pening í þær miklu holur sem eru í fjármunum ríkisins. Það var samt tekin mjög afdrifarík ákvörðun um forgangsröðun í sumar og hætt við að leggja aukaskatt á sem tengist gistinóttum og það var hætt við að reyna að finna einhverja leið til að tryggja að arðurinn af fiskinum í sjónum rataði í okkar sameiginlegu sjóði. Það voru meingallar á því frumvarpi, ég er meðvituð um það, en það var samt búið að koma með tillögur að úrbótum sem hefðu getað hjálpað okkur að tryggja að réttilegur arður af fiskinum okkar rataði í afar illa stæðan ríkissjóð. Ég er ekkert að reyna að snúa út úr eða neitt svoleiðis, ég er bara að segja hvernig þetta horfir við mér og pírötunum.

Það hefur líka verið markvisst unnið að því að láta í veðri vaka að eftirlitshlutverki ríkisvaldsins, þeirra stofnana sem við höfum valið til þessa, sé gert mjög erfitt fyrir. Það eru til stofnanir eins og Persónuvernd og Ríkisendurskoðun sem eiga að veita aðhald og fylgjast til dæmis með tölvukerfum ríkisins. Það vill svo til að Ríkisendurskoðun hefur ekki haft neina peninga eða starfsmann til að sinna þessu hlutverki í meira en ár, jafnvel tvö ár. Mér finnst það gríðarlega alvarlegt mál. Við getum kvartað yfir því að „innboxið“ hjá Vodafone hafi verið hakkað og það fyrirtæki geymt gögn allt of lengi, mjög viðkvæm gögn, en hvernig er það með til dæmis sjúkraskrárnar okkar? Hvernig er tölvukerfunum háttað í kringum þær og hver er að fylgjast með þeim? Veit það einhver hv. þingmaður?

Ég veit að þessum tölvukerfum og öryggi í kringum þau er verulega ábótavant. Tölvukerfið til dæmis á Alþingi hefur ekki verið uppfært í langan tíma og þá ekki bara kerfið heldur búnaðurinn líka, tölvurnar og annað. Tölvubúnaðurinn hjá mörgum heilbrigðisstofnunum sem hýsa afar viðkvæmar skrár er mjög gamall. Það eru allt of fáir starfsmenn með nauðsynlega menntun á þessu sviði. Það er hægt að fara á námskeið og annað til að staðreyna að maður hafi nægilega þekkingu, það eru bara allt of fáir sem hafa þá þekkingu sem til þarf til að geta verndað þessar viðkvæmu upplýsingar. Og það er margt svona í kerfinu okkar sem einhvern veginn er horft fram hjá þangað til búið verður að leka sjúkraskrám öllum hv. þingmanna. Þá kannski vöknum við. Ég vona að í staðinn fyrir að vera alltaf í einhverri viðbragðapólitík getum við tryggt að fjármunir séu settir í þær stofnanir sem eiga að veita okkur aðhald og öryggi.

Svo er það hinn furðulegi kúltúr á Íslandi sem er einsdæmi, get ég sagt ykkur, nema kannski er þetta aðeins skárra eða á svipuðu kalíberi og í Norður-Kóreu eða Simbabve. Það er einhvern veginn alveg sama hvað kemur upp úr dúrnum, eins og mjög mikið var um á síðustu árum, að upp komst um algjörlega vanburða eftirlit með mengun og öðru hérlendis. Það var engin ábyrgðarkeðja í raun, enginn sem sagði: Ég segi af mér af því að ég get ekki sinnt starfinu mínu, eða eitthvað slíkt. Það eru einhvern veginn engar afleiðingar af neinu sem við gerum hér í þessu samfélagi og mér finnst það mjög skringilegt. Þetta er ekki svona í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Nú síðast sagði dómsmálaráðherra í Danmörku af sér út af einhverju sem ég man ekki hvað var. Ekki það að ég sé að kalla eftir að fólk sé endalaust að segja af sér, ég er bara að tala um þessa tilfinningu fyrir ábyrgð gagnvart stöðu sinni og samfélaginu. Hún er rosalega skringileg hérlendis.

Ég nefni þetta í sambandi við það að ég vara við því að setja ekki meiri fjármuni, styrkja ekki betur við eftirlitskerfin okkar og hafa ekki skýrari ábyrgðarkennd. Póst- og fjarskiptastofnun er til dæmis mjög aðþrengd og hún á að sjá um gríðarlega viðamikið öryggi og gæði en hefur bara enga burði til þess. Það er alveg nauðsynlegt að við hjálpum fólki sem vill vinna vinnuna sína vel til að geta haldið utan um þá ábyrgð sem því er færð á hendur. Þar af leiðandi finnst mér þessar tillögur um áframhaldandi mikinn niðurskurð í ráðuneytunum áhyggjuefni án þess að sjá alveg skýrt hvernig hlutunum verður raðað í ráðuneytunum. Ég ætla að fylgjast með umræðunum hérna. Ég óska eftir því að heyra kannski betur af stefnu varðandi niðurskurðinn í ráðuneytunum. Þá er ég ekki að tala um niðurskurð er lýtur að sendiráðum eða einhverju slíku heldur frekar þessum stóru burðarbitum eins og heilbrigðisráðuneyti og ekki síður innanríkisráðuneyti sem er rosalega stórt ráðuneyti og ég held að sé enn að jafna sig eftir sameininguna. Þar var steypt saman ráðuneytum sem eiga kannski ekkert rosalega mikið sameiginlegt.

Mig langaði aðeins að fara líka í nauðsyn þess að þingmenn vinni betur saman. Ég legg til að á milli 2. og 3. umr. eða bara núna meðan við erum í þessum samræðum um fjárlögin skoðum við aðeins fátæktarskýrsluna sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi í ræðu sinni. Ég hef mikinn áhuga á að sjá hvort við getum notað eitthvað af þeim tillögum til að skapa þverpólitíska sátt um að hjálpa þessum hópi sem er sístækkandi. Eins og ég segi er fólk sem býr við erfiðleika alltaf að hafa samband við mig. Einn stór hópur fær alls ekki nægilega aðstoð, fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Það var síðast í fréttum nýverið að það er alls ekki nægilega mikið utanumhald um fólk sem á í geðrænum vandamálum, sem sagt marga sem fara í úrræði þar sem þeir búa sjálfstætt án stuðnings. Það er enginn stuðningur. Ég leigði einu sinni á stigagangi og mjög veik kona bjó á móti mér og kunni ekkert að passa upp á sig. Það var enginn sem kenndi henni að elda mat, það kom enginn til hennar og fór með henni á kóræfinguna, nokkuð sem hana dreymdi um að gera en hún var of veik til að fara ein.

Við búum til alls konar stuðningselement og svo vantar helminginn af stuðningnum. Nýverið heyrði ég frétt um mann sem hafði verið látinn í marga daga í íbúðinni sinni. Hvers konar samfélag er þetta orðið? Einhver er búinn að vera dáinn í marga daga og það veit enginn af því og hann er samt í einhverju stuðningsapparati. En það ber auðvitað enginn ábyrgð á svona, nei, nei, nei.

Á tímabili var mikill stuðningur eða kannski ekki mikill, það var að þokast í rétta átt að það væri stuðningur fyrir til dæmis fjölskyldur þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Mér hefur fundist allir þessir vísar að heilbrigðara samfélagi vera aftur að molna í sundur og mér finnst það átakanlegt. Þó að ég hafi verið mjög gagnrýnin á síðustu ríkisstjórn sem hér var má hún eiga það að hún reyndi að standa vörð um þá sem enginn vildi standa vörð um. Maður fær ekkert endilega mörg atkvæði frá útigangsfólki eða öðrum sem eru of veikir til að fara á kjörstað. En það mátti síðasta ríkisstjórn eiga og mér finnst sorglegt að horfa upp á það frá núverandi ríkisstjórn að í raun sé verið að taka í burtu þessa litlu vísa.

Gleymum því ekki að þegar þetta gríðarlega hrun varð á Íslandi — sem er svo sannarlega ekki „meint hrun“, þetta var alvöruhrun sem hafði gríðarlegar afleiðingar, ekki bara hjá fólki fjárhagslega heldur var eins og öllu hefði verið kippt undan fólki og allt það sem það hafði treyst hvarf í einni svipan eins og það hefði verið einhver tálsýn sem það að mörgu leyti var — var mikil fátækt, hún var bara miklu faldari, en hún fer stigvaxandi þó að við eigum að vera komin upp úr kreppunni. Ég minni á að við erum enn í miðri kreppu.

Ég hef aðeins fylgst með hvernig Bretar hafa tæklað sína kreppu. Þeir fóru ekki í svona mikinn niðurskurð, að mér skilst, þeir reyndu að fara í innspýtingu eins og nýsköpun og þeir eru að komast aftur í jafnvægi, skilst mér. Það er aldrei alveg að marka það sem maður heyrir í fréttum. Fréttirnar erlendis af því hvað hefur gerst á Íslandi eru mjög furðulegar og eiga litla stoð í veruleikanum og þá á ég við þegar fólk heldur að allir hafi fengið allt afskrifað o.s.frv. Það var ekki þannig.

Það er enn svigrúm til að reyna að taka verstu oddana og mig langar að skora á hæstv. ríkisstjórn og hv. fjárlaganefnd og þingmenn þessara flokka að skoða það virkilega í hjarta sínu hvort ekki sé hægt að finna samstöðu um desemberuppbótina. Mér finnst svolítið asnalegt að hún sé einhver skiptimynt i foringjasamræðum. Þannig er það oft hérna, allt í einu eru allir formennirnir farnir að ræða um hluti sem mér finnst að við eigum að ræða á þinginu. Mér finnst við verða að muna, eins og ég sagði fyrst þegar ég byrjaði að tala um þessi mál, að á bak við tölurnar í þessum fjárlögum eru margir einstaklingar. Þar er fólk, við verðum að muna að þetta er fólk og við megum aldrei leyfa okkur að sjá það bara sem númer. Við verðum að muna að um leið og við erum búin að taka ákvörðun um að það sé réttlætanlegt að hafa legu- eða komugjöld, eða hvað orðaleik sem við ætlum að fara í með þetta, er til fólk sem getur ekki farið á spítala. Hvað á að gera við þá sem geta ekki borgað? Á að taka veð í bílnum þeirra? Á að segja þeim að fara aftur heim?

Það verða að vera til svör við þessu áður en hv. þingmenn sem ætla að greiða atkvæði með þessum lið fjárlaga gera það. Og ég virkilega óska eftir því að fá skýr og skorinorð svör við því hvað þetta komugjald á að vera hátt og hvað gerist ef menn geta ekki borgað það. Hvað gerist þá?

Ég óska líka eftir því og ætla að fara í næsta lið — ég er sem sagt alls ekki búin, það er mjög margt sem mig langar til að tala við þingmenn um sem lýtur að fjárlögum. Þetta er, eins og áður hefur komið fram, pólitíkin og stefnan í verki hjá þeim flokkum sem eru við völd. Ég skora á þingmenn meiri hlutans að forgangsraða á annan hátt og ég óska eftir góðri samvinnu meðal allra þingmanna í að koma með mennsku inn í þessi fjárlög.