143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála þemanu í henni, það er mikilvægt að við hugsum ekki um fjárlög sem fjárlagaliði bara því að þarna er verið að marka stefnu um stórt og smátt í öllu sem viðkemur eiginlega lífi okkar í samfélaginu á næsta ári og til lengri tíma í raun og veru.

Það var tvennt sem mig langaði að nefna sérstaklega og biðja hv. þingmann aðeins að útfæra nánar á stuttum tíma. Hún talaði aðeins um menningarstarfsemi og nefndi kvikmyndagerð sérstaklega. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. Nú er talsverð umræða á alþjóðavettvangi, meira að segja í íhaldssömum tímaritum á borð við The Economist, um að það sé mjög mikilvægt að fara ekki þá leið sem hv. þingmaður nefndi hér í upphafi máls síns, um að spara sig út úr kreppu. Við áttum þessi samtöl líka á síðasta kjörtímabili. Það er mikilvægt að stjórnvöld um heim allan sem eru að mæta þessum efnahagsþrengingum horfi á tvennt, hvernig hægt sé að örva atvinnusköpun og vöxt. Hv. þingmaður vitnaði aðeins til úttekta á skapandi greinum, kvikmyndagerð, og það er rétt, það var gerð úttekt sem sýndi að skapandi greinar veltu 189 milljörðum á árinu 2009 sem var jafn mikið og áliðnaðurinn velti það ár. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér?

Svo langar mig að nefna út af því sem hún nefndi um að spara sig út úr kreppu og fólkið sem er á bak við þetta að það eru dæmi um óafturkræf áhrif niðurskurðar. Hvað er það sem hv. þingmaður hefur mestar áhyggjur af í þeim efnum? Þá er ég auðvitað að vitna til velferðarhlutans; menntamálanna, velferðarkerfisins, heilbrigðisþjónustunnar. Hverju er mikilvægast að við reynum að breyta í þeim efnum að mati þingmannsins?