143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að kippa okkur á Alþingi inn í raunveruleikann í vinnu okkar við fjárlagagerðina og hugsa um hana út frá manneskjunum á bak við þessar tölur sem við erum að fjalla um.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta sem hún nefndi með blekkingarskattheimtuna. Ég er sammála þingmanninum, það slær mig líka mjög skringilega hvernig þetta er sett fram í fjárlögum. Sveitarfélög mega til dæmis ekki útbúa fjárhagsáætlanir sínar svona. Þau gjöld sem eru tekin á ákveðnum stað eru mörkuð á þann stað aftur þannig að mér finnst líka skringilegt hvernig er hægt að setja allt saman í einn pott og svo bara einhvern veginn útdeila.

Píratar eru með vettvang til að auka beint lýðræði og auka þátttöku til samfélagsins, „Betra Ísland“, og því langar mig að spyrja hvort þið sjáið fyrir ykkur eitthvert kerfi sem gerir skattheimtuna gagnsærri og jafnvel þá að fólk geti haft áhrif á hvernig skattpeningum þess er varið eins og fólk getur núna gert með sóknargjöldin, er það ekki? Svo kem ég með síðari spurninguna eða athugasemdir í næsta andsvari.