143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og sömuleiðis samstarfið í velferðarnefnd.

Forgangsröðunin er skýr í tillögum Samfylkingarinnar. Forgangsröðun Samfylkingarinnar hefur verið skýr síðustu ár í fjárlagagerð. Þar kemur mjög skýrt fram hvernig forgangsraðað var með mjög ákveðnum hætti í þágu velferðar og vaxandi verkefna.

Þeir sjóðir sem þingmaðurinn taldi hér upp, bókmenntasjóður, tónlistarsjóður og fleiri, eru einmitt í greinum sem Íslendingar flytja út. Við eigum fjölmarga rithöfunda sem selja grimmt á erlendum tungum. Við flytjum út tónlist, eigum tónlistarfólk sem er alþekkt um allan heim, svo ég nefni Björk, Sigur Rós og Of Monsters and Men og fleiri. Það skiptir máli að hlúa að þessum atvinnugreinum ekki síður en öðrum sem eru listir og menning og hafa á einhvern hátt atvinnuhlutverk en hafa líka mjög mikilvægt verkefni í samfélaginu.

Við erum með tekjuöflun á móti okkar tillögum. Hefðum við lagt fjárlagafrumvarpið fram hefði ýmislegt verið öðruvísi þar, þetta eru breytingartillögur við það frumvarp, en við hefðum líka þurft að leggja til aðhald á ákveðnum sviðum, aðhaldi í ríkisrekstri er ekki lokið. Við hefðum bara beitt því með allt öðrum hætti.

Hægri og vinstri vinna vel saman í velferðarnefnd, ég er sammála því, enda er þar gott fólk sem telur að samvinna skili okkur bestum árangri en ekki átök. En þegar kemur að því að veita fjármuni skýrist stefnan betur. Ég er, og ekki bara ég heldur heyrist mér þorri landsmanna vera hissa á þeirri forgangsröðun sem fram kemur hjá núverandi ríkisstjórn.