143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég ætla að leggja það til, það er tillaga flokksins míns, Samfylkingar – jafnaðarmannaflokks Íslands, að við öflum viðbótartekna upp á 3,5 milljarða á makríl. Við höfum farið mjög vel yfir þessi mál, við höfum kynnt okkur þau og teljum þetta fullkomlega og fremur hófleg markmið ef eitthvað er.

Varðandi það að gefa þá snýst þróunaraðstoð ekki um að við séum svo góð að við ætlum að gefa einhverju fólki peninga. Þróunaraðstoð er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt hefur verið að ríki heims skuli veita 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Við erum langt frá því að ná því marki. Þetta lýtur að því, ég endurtek það, þetta lýtur að því að skapa aðstöðu til heilsugæslu, fæðingaraðstoðar og hreins vatns m.a. Þetta eru grundvallarþættir. Þetta varðar konur sem eru að fæða börn í Malaví, einu fátækasta ríki heims, og aðstoð frá okkur (Forseti hringir.) getur skapað skil á milli lífs og dauða (Forseti hringir.) lítilla barna.