143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Vita menn hér í salnum hvað desemberuppbót fyrir atvinnulausa er há, hvað það eru margar krónur? Ég hugsa að fáir hafi flett því sérstaklega upp. Það eru 50.152 kr. (KG: Ég vissi það.) Vissi það, segir hv. þm. Karl Garðarsson. (Gripið fram í.)

Hvað skyldu atvinnuleysisbætur vera? Þær eru 172.609 kr. Það eru ekki miklir peningar, ekki ef maður þarf að leigja sér íbúð, þar er maður kominn vel yfir 100 þús. kr., og síðan er það maturinn, börnin og yfirleitt að lifa lífinu sem við viljum kalla það ef fólk ætlar að veita sér það að kaupa einhver blöð eða fara í bíó. Það eru ekki til peningar fyrir slíku, hvað þá í jólamánuðinum.

Þess vegna höfum við sett það á oddinn að ekki verði brugðið út af þeirri venju sem við höfum fylgt í kjölfar kreppunnar, að láta desemberuppbót ganga til atvinnulauss fólks, 50.152 kr. Þetta er talið að muni kosta eitthvað yfir 200 milljónir en hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri þröngt í búi. Þegar þröngt er í búi er ekki hægt að greiða desemberuppbót til atvinnulausra en það er hægt að aflétta auðlegðarskatti sem er skattur sem settur er á þá eða þau sem hafa hreina eign yfir 75 milljónum, og 100 milljónum ef það eru hjón. Það er fallið frá honum og þar með afsölum við okkur yfir 9 milljörðum í ríkistekjur. Menn hafa farið ágætlega yfir það í umræðunni um fjáraukann og lög um ýmsa þætti sem — ég man nú ekki hvað þau heita — sem þarf að breyta til að fjárlög nái fram að ganga sem við afgreiddum hér í atkvæðagreiðslu í gær. Menn hafa verið að rifja upp þessar fjárhæðir sem stjórnarmeirihlutinn hefur afsalað ríkissjóði frá því að hann tók við völdum í vor. Við höfum oft rifjað þetta upp, 6,4 milljarðar til sjávarútvegsins og hálfur annar milljarður á ári í virðisauka á ferðaþjónustu. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson rifjaði það ágætlega hér upp í morgun hvernig virðisauka á ferðaþjónustuna var háttað hér fyrir ekki svo ýkja löngu. Þá greiddi hann virðisaukaskatt upp á 14%. Í hruninu var þetta lækkað niður í 7%, átti að vera tímabundið, og við hurfum síðan frá þessari ráðstöfun með tillögum okkar og vorum búin að lögfesta að 14% áttu að taka gildi núna með haustinu, enda var allt önnur staða uppi í þessari grein en áður hafði verið.

Fyrsta atriðið sem ég vil leggja áherslu á í þessari fyrstu ræðu minni um fjárlögin við 2. umr. málsins er að við erum að skoða málið heildstætt, ekki aðeins með frumvarpi til fjárlaga heldur einnig frumvarpi til fjáraukalaga og þeim lagabreytingum sem við afgreiddum í gær. Það mun heita, ég er búinn að finna það hér, frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Þetta er allt saman einn pakki og þó að við höfum gengið frá tilteknum atriðum þar og klárað 2. umr. er málið ekki afgreitt. Það er ekki út af borðinu. Það eru nokkur mál sem ég vil nefna sérstaklega að ég tel að stjórnarmeirihlutinn þurfi að taka til endurskoðunar.

Þar hef ég þegar nefnt desemberuppbótina til atvinnulausra. Mér finnst það vera réttlætis- og sanngirnismál og eiginlega ekki hægt að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við höfum haft undanfarin ár, að greiða þessa fjármuni, sem eru núna 50.152 kr., til atvinnulausra. Við eigum að sameinast um það. Við eigum ekki að fara úr þinginu fyrir jól án þess að afgreiða þetta, þetta tel ég mjög mikilvægt réttlætismál.

Annað atriði sem ég held að við ættum að geta náð samkomulagi um, ég trúi ekki öðru, er að falla frá komugjöldum inn á sjúkrahúsin. Þau heita komugjöld núna, áður hétu þau legugjöld og áttu að færa ríkissjóði rúmar 200 millj. kr., ég held að það hafi verið 220 millj. kr., en það kveikti svo mikla almenna andstöðu í þjóðfélaginu að þau hurfu í því formi út af vinnsluborði fjárlaganefndar en komu síðan inn að nýju, núna undir nýju heiti og eru kölluð komugjöld. Það er algjörlega óútfært með hvaða hætti eigi að leggja þau á. Enn er gert ráð fyrir að þau færi ríkissjóði um 220 millj. kr. Það segir í tillögugreininni að komugjaldið eigi að vera óháð lengd dvalar á sjúkrahúsi og þá spyr ég: Hvert á þetta gjald að vera? Það fást engin svör við því. Við reyndum að særa fram einhverjar upplýsingar um það í umræðunni um fjáraukann en þær upplýsingar lágu ekki fyrir. Ég vitnaði í ræðu minni í viðtal sem Morgunblaðið hafði við hv. framsögumann efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal, um það efni og hann játaði í því viðtali að hann hefði ekki hugmynd um það, þessir útreikningar lægju ekki á borðinu. Og nú ætlast menn til að Alþingi afgreiði slíkt frá sér.

Vinnsluborð Alþingis á ekki að vera handarbakið. Við eigum ekki að vinna handarbakavinnu hér, við eigum að vinna vandaða vinnu og þetta er ófrágengið mál. Þar fyrir utan erum við að tala um mjög mikilvægt prinsippmál, grundvallarmál. Ég þykist alveg vita hvers vegna ýmsir markaðshyggjumenn leggja höfuðáherslu á að fá þetta fram. Ég vitnaði í reynslu mína frá því upp úr 1990 þegar verið var að endurskoða svokallaða þjóðarsáttarsamninga sem hættu að vera þjóðarsáttarsamningar fljótlega eftir að ný ríkisstjórn tók við valdataumunum í landinu. Það var ríkisstjórn Framsóknar, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks sem gerði þjóðarsáttarsamningana og ég lít svo á að þeir hafi verið þjóðarsáttarsamningar, byggðir á mjög breiðri samstöðu þótt ekki væru allir sáttir við þá. Við minnumst andstöðu BHM í því efni en samningarnir byggðu engu að síður á breiðri samstöðu.

Við endurskoðun þessara samninga kom annað hljóð í strokkinn og ég minnist þess hve rík áhersla var á það lögð af hálfu sumra þeirra sem stóðu að samningunum að koma á tilteknum gjöldum í heilbrigðisþjónustunni. Þegar ég spurði eftir því — ég var þá formaður BSRB — hverju þetta sætti, hvort það væri vegna þess að þetta aflaði svo mikilla peninga, nei, þetta snýst um prinsipp, um kerfisbreytingu. Og það er það sem við erum að fást við núna með þessu og þess vegna er andstaðan í þjóðfélaginu sú sem raun ber vitni, menn átta sig alveg á því hvað er að gerast.

Markaðshyggjumenn vilja búa til kerfi þar sem enginn munur er á umgjörð almannarekinna heilbrigðisstofnana og einkarekinna, það á ekki að vera neinn munur á því það á að afnema hann með öllu. Ef það kostar eitthvað inn á einkarekinn praxís á hið sama að gilda í almannaþjónustunni. Þetta er hugsunin. Síðan á niðurgreiðslan að vera ofan á það í einhverju sjúkratryggðu kerfi. Þess vegna má sem sagt almannarekni hlutinn ekki hafa neina sérstöðu. Þetta er þeirra hugsun, þess vegna skiptir það þá máli.

Ég á eftir að sjá að félagslega þenkjandi sjálfstæðismenn og félagslega þenkjandi framsóknarmenn fallist á slíka kerfisbreytingu markaðshyggjuhaukanna. Þeir mega ekki láta plata sig í þessu efni, það er mjög mikilvægt. Þetta snýst ekki bara um upphæðina sem lögð er á hinn veika sem er settur inn á sjúkrahús heldur þurfum við líka að átta okkur á því að við erum að takast á um hvert við erum að stefna með kerfið. Mér finnst skipta mjög miklu máli að sú umræða sé tekin vitandi hvað hér hangir á spýtunni.

Þar fyrir utan er athyglisvert að hlusta á röksemdirnar sem reiddar eru fram. Menn tala um mikilvægi þess að tryggja jafnrétti og jafnræði gagnvart kerfinu, menn séu látnir borga svo mikið hér en ekkert þarna, nú þurfi að jafna út, en snýst ekki slagurinn eða á ekki slagurinn að snúast um það að ná þessum gjöldum niður?

Ég hef vitnað í mjög athyglisverða úttekt sem sérfræðingur í heilbrigðismálum, Ingimar Einarsson, gerði þar sem hann sýnir fram á hvernig kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur farið vaxandi. Hann horfir ekki bara til allra síðustu ára, hann horfir langt aftur. Ég held að hann horfi til áranna fyrir aldamót en aðallega til áranna upp úr aldamótum. Það er þó í byrjun tíunda áratugarins sem þessi þróun fer í gang. Ég var vitna til, kannski ekki upphafsins en mikilvægs áfanga á þeirri leið þegar verið var að endurnýja þjóðarsáttarsamningana á fyrstu árum tíunda áratugarins.

Ég tel að við eigum að reyna að halda okkur við þau prinsipp sem til dæmis Danir hafa gert, að hafa heilbrigðisþjónustuna alveg gjaldfrjálsa. Hún kostar að sjálfsögðu sitt en spurningin er hver eigi að greiða fyrir hana. Eigum við að jafna því niður á landsmenn alla og okkur meðan við erum frísk, vinnandi og aflögufær eða eigum við að bíða eftir því að fólkið verði veikt og rukka þá? Ég held að enginn sé að tala um að vilja veikja heilbrigðisþjónustuna, ekki nokkur maður. Deilan snýst bara um það hvernig eigi að greiða fyrir hana. Á að skipta byrðunum niður á hina heilbrigðu eða á að láta sjúklingana um hituna? Þarna held ég að sé fullgróft að segja að munurinn sé annars vegar félagshyggjan og hins vegar markaðshyggjan vegna þess að ég held að innan beggja stjórnarflokkanna séu einstaklingar þannig þenkjandi að þeir vilji ekki fara inn á þessa braut. Menn geta trúað því og viljað efla markaðsviðskipti, láta markaðinn sinna tilteknum hlutum þjóðfélagsstarfseminnar en vilji halda þessum geirum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu, utan hans og það sé á vegum hins opinbera, á vegum samfélagsins.

Þetta er sem sagt annar þáttur sem ég vildi nefna, þ.e. desemberuppbótin annars vegar og komugjöldin hins vegar. Aðeins til að botna þetta sem ég sagði um desemberuppbótina og hvort þjóðfélagið sé aflögufært hljótum við að horfa til þess sem er og var að gerast með ákvörðun ríkisstjórnarinnar allar götur frá því í vor þegar hún komst til valda og fram á þennan dag, þegar hún hefur létt sköttum af þeim sem eru aflögufærir í þjóðfélaginu. Ég nefni þar náttúrlega efst á blaði auðlegðarskattinn. Átti ég kannski að byrja á útgerðinni sem fékk sinn stóra afslátt og við heyrðum allan harmagrátinn fyrir utan Alþingishúsið á sínum tíma og síðan innan veggja þess eftir það um hve hræðilega aðþrengd stórútgerðin væri? Síðan liðu tvær, þrjár vikur, þingið fór heim, aðalfundir voru haldnir í útgerðarfyrirtækjunum og þau lýstu metgróða, aldrei betra árferði hjá Samherja, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum borgaði eigendum sínum 1.100 milljónir, eitt þúsund og eitt hundrað milljónir bara í vasann, svolítið feimnir sumir, ég man eftir því í fjölmiðlum þegar þeir voru inntir eftir þessu. Þess vegna þýðir ekkert að koma til okkar og þjóðarinnar og segja: Það er þröngt í búi, það er svo þröngt í búi að við eigum ekki fyrir 50 þús. kr. desemberuppbót fyrir þá sem eru atvinnulausir í landinu.

Síðan vil ég nefna Ríkisútvarpið. Nú er verið að auka á niðurskurðinn þar. Reyndar er það svo, og ég hef getið þess áður í ræðum mínum, að þetta er orðið svo flókið spil, orðnar svo miklar fléttur, að það þarf nánast dulmálsfræðinga til að ráða í hvað raunverulega er að gerast. Það er verið að hækka gjöld en um leið lækka þau, auka möguleika til auglýsingatekna og lækka framlagið sem fer til stofnana og síðan er búinn til úr þessu kokteill sem enginn skilur. En þegar búið er að ráða dulmálið kemur hið rétta út: Það er verið að skerða rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins með þeim afleiðingum að það er verið að segja þar upp fólki. Sumum finnst jafnvel grimmilegar gengið fram í því efni en efni standa til en það er verið að veikja rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins, það er alveg ótvírætt, og með þessum afleiðingum.

Ég tel að Ríkisútvarpið, nánast eins og ýmsar aðrar grunnstoðir okkar velferðarsamfélags, eigi að vera stofnun sem við reynum að skapa sátt um. Ef menn vilja að Ríkisútvarpið endurskilgreini á einhvern hátt starfsemi sína og við setjum þessari stofnun einhver önnur markmið ræðum við það, tökum þá umræðu og endurskoðum síðan framlagið til þessarar starfsemi. Þá umræðu verðum við líka að taka.

Reyndar finnst mér að líka þurfi að taka djúpa umræðu um áherslur okkar út á við. Menn hafa rætt hér um þróunaraðstoð og ýmislegt sem henni tengist og þá finnst mér skorta á að við tökum umræðu um það í þessum sal og í nefndum á vegum þingsins og almennt í samfélaginu um hvað Íslendingar vilja, hvaða áherslur við viljum hafa í utanríkismálum.

Á sínum tíma voru settar nokkur hundruð milljónir hygg ég í að reyna að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna með einn fulltrúa. Það var arfavitlaus tillaga, fullkomlega út í hött og hluti af hrunhugsuninni allri. Það er gríðarlegur kostnaður sem þarna var ráðist í og byggði auk þess á að mínum dómi rangri hugsun.

Það sem mér finnst að við eigum að gera er að styrkja okkur á tilteknum afmörkuðum sviðum. Við eigum að vera öflug í öllu sem snýr að mannréttindum. Þar eigum við að leggja mikla áherslu á allt sem snertir mannréttindi. Við eigum líka að horfa til þess sem snertir hafið, jarðhita, eldfjöll og annað slíkt þar sem við erum góð, þar sem við getum hugsanlega látið gott af okkur leiða inn í þekkingarsamfélag heimsins. Þarna eigum við að beina kröftum okkar að mínum dómi.

Þess vegna finnst mér dapurlegt þegar maður les að til standi að draga úr framlagi til Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem er á Íslandi. Það er jarðhitinn og jarðvísindin. Hingað hefur komið fjöldi fólks á hverju ári. Ég kann ekki þessar tölur og er ekki búinn að setja mig inn í þessa starfsemi þannig að ég geti talað um það af viti, en ég veit að hér hefur verið rekin deild úr Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem sinnir þessum verkefnum. Ég tel að það sé í senn framlag Íslendinga, sem þarna komi fram, og síðan erum við að fá þetta fólk til okkar.

Ég hef stundum vitnað til þess þegar ég var við nám í Bretlandi á áttunda áratug síðustu aldar þegar Bretar lögðu á skólagjöld. Þeir sem voru andvígir því að leggja þessi skólagjöld á voru úr tveimur hópum. Annars vegar voru það bisnessmenn og hins vegar félagslega þenkjandi aðilar sem vildu tryggja sérstaklega fólkið frá fátækum ríkjum til að koma til náms endurgjaldslaust.

Hvað er það sem bisnessmennirnir sögðu? Þeir sögðu: Það borgar sig fyrir Bretland að fá fólk til landsins til náms. Það kemur inn í landið með peninga, það leigir húsnæði, kaupir mat, fer í bíó og kaupir blöð og bækur o.s.frv. Síðan gerist tvennt í framhaldinu: Það kaupir bresku tímaritin með auglýsingunum frá bresku fyrirtækjunum, verkfræðingarnir gera það og halda tryggð við það síðan allt sitt líf og kaupa hugsanlega vörur sem þar eru framleiddar, og síðan kemur allur mannskapurinn aftur — og aftur og aftur í frí. Þetta skapar líka efnahagslegan styrk þeim sem er veitandi á einhverju skeiði.

Meginhugsunin hjá mér samt varðandi Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að við erum þar með að leggja eitthvað af mörkum á sviði þar sem við getum verið veitendur. Það styrkir okkur líka, það styrkir Háskóla Íslands, það styrkir okkar fræðimenn. Þetta er skorið niður um 81,3 millj. kr.

Það er erfitt að átta sig á því í þessum sundurliðunum hvað er hvað því að yfirskriftin er alltaf hin sama: Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi -5,3, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi -21,7, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, háskólar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sértækar aðhaldsráðstafanir -81,3. Síðan áfram og alltaf er textinn líka sá sami, það er verið að forgangsraða fjármunum „ríkissjóðs þannig að unnt verði að veita aukin framlög til brýnnar heilbrigðisstarfsemi beggja sérhæfðu sjúkrahúsanna“. Það er aldrei vísað í auðlegðarskattinn, það er aldrei sagt: Við erum að forgangsraða af því að við lögðum af auðlegðarskatt, við erum að forgangsraða vegna þess við ætlum að veita útgerðinni afslátt upp á 6,4 milljarða á ári. Það er ekki talað um það.

Við erum að forgangsraða og skera niður til Háskóla Sameinuðu þjóðanna vegna þess að við viljum ekki hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna sem er arðbær og gefandi atvinnugrein á Íslandi. Nei, það er alltaf sagt að menn séu að skera þetta allt saman niður vegna þess að þeir eru að passa upp á veika og sjúka. Þetta er náttúrlega ekki svoleiðis. Ég vildi þá fá tilvísun í annað sem ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Þetta eru nokkur áhersluatriði sem ég vildi nefna í fyrri hluta ræðu minnar en mig langar núna til að víkja að tveimur þáttum sem heyra sérstaklega undir þingið, Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur verið að skoða starfsemi beggja þessara stofnana og við höfum gengið frá skýrslu um umboðsmann Alþingis. Hún á eftir að koma til umræðu í þinginu, en hún snertir líka þessa umræðu um fjárlög. Í niðurlagi álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012 segir nefndin, með leyfi forseta:

„Nefndin telur mikilvægt að þingið sinni því aðhaldshlutverki sem því er falið gagnvart framkvæmdarvaldinu og leggur því áherslu á mikilvægi þess að skýrslan verði rædd á þingfundi þannig að athygli þingmanna og annarra sé vakin á skýrslunni. Þá er einnig mikilvægt að þingmenn fylgist með þeim álitum sem umboðsmaður gefur út og eru aðgengileg á heimasíðu hans og nýti í sínum störfum.“

Við eigum aftur að fara yfir þetta en leggjum líka áherslu á það í þessu áliti að embættinu verði gert kleift að sinna þeim lögboðnu verkefnum sem það hefur á hendi. Við höfum áhyggjur af því að það fjármagn sem honum er ætlað, umboðsmanni Alþingis, sé ekki nægilegt og vonuðumst til þess að viðbótarfjármagn yrði veitt til embættisins sem dygði til að hann gæti haldið þeim mannafla sem hann hefur með höndum og fær vart risið undir mjög vaxandi álagi á liðnum árum. Þá hefði þurft að koma til að minnsta kosti 20 millj. kr. viðbótarframlag. Ég sé að í breytingartillögunum er gert ráð fyrir 10 milljónum, það er aðeins helmingurinn af þessu sem er þá ávísun á uppsagnir hjá embættinu. Þetta er afar bagalegt vegna þess að umboðsmaður sinnir mjög veigamiklu aðhalds- og eftirlitshlutverki gagnvart stjórnsýslunni og það er nokkuð sem á að auka, efla og bæta, opna stjórnsýsluna. Umboðsmaður er mikilvægur þáttur í því. Hann er ekki bara umboðsmaður Alþingis, hann er umboðsmaður þjóðarinnar gagnvart stjórnsýslunni. Hann er annað þeirra embætta sem heyrir beint undir Alþingi og það er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur með höndum að fylgjast með störfum embættisins. Þar er vilji til þess að þrýsta á fjárveitingavaldið til að tryggja að embættið rísi undir lögbundnum skuldbindingum sínum.

Reyndar viljum við að það verði gengið lengra en gert hefur verið á undanförnum árum, ekki bara að sinna þeim kvörtunum sem berast heldur þarf að koma frumkvæðisvinna líka, embættið þarf að taka á brotalömum sem það telur þurfa að taka á.

Sömuleiðis er það Ríkisendurskoðun sem er einnig stofnun sem heyrir undir Alþingi. Það er aftur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur það verk með höndum að fylgjast með störfum Ríkisendurskoðunar. Það hafði verið vonast til þess og þyrfti að koma til 44 millj. kr. viðbótarfjárveiting til þess að Ríkisendurskoðun geti haldið sínum mannafla og haldið sínu striki. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Ríkisendurskoðun hefur á liðnum árum unnið margt mjög vel og ég hef trú á því að embættið og stofnunin sé stöðugt að sækja í sig veðrið og bæta vinnubrögð sín. Þingið er orðið miklu meðvitaðra líka og stjórnsýslan öll um mikilvægi þessarar stofnunar. Samkvæmt breytingartillögum sem liggja fyrir núna við 2. umr. er gert ráð fyrir að koma aðeins að helmingi til móts við beiðni embættisins, sem ég styð heils hugar, um 44 millj. kr. viðbót. Það fær 25. Ég vonast til þess og mælist eindregið til þess að fjárlaganefnd taki þetta hvort tveggja til umfjöllunar, veiti umboðsmanni Alþingis 20 millj. kr. viðbót og að 44 millj. kr. verði látnar koma til viðbótar hjá Ríkisendurskoðun.

Lokaþátturinn sem ég vildi koma inn á í þessari umfjöllun minni lýtur að löggæslunni. Ef ég hefði haft talsvert miklu rýmri tíma hefði ég viljað gera því mjög ítarleg skil sem um hana er að segja. 19. júní 2012 var samþykkt á þinginu þingsályktunartillaga alveg samhljóða sem flutt var undir forustu hv. þingmanns, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar. Ég ætla að lesa upp þau nöfn sem stóðu að þessari þingsályktunartillögu, með leyfi forseta:

Það voru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Kristján Þór Júlíusson, Einar K. Guðfinnsson og Unnur Brá Konráðsdóttir. Þetta eru nokkrir fulltrúar sem sitja í ríkisstjórn og aðrir í fjárlaganefnd og enn aðrir í þingsal. Þarna var samþykkt samhljóða að fara í að skilgreina mannaflaþörf og þörf lögreglunnar fyrir fjármagn. Þetta er samþykkt 2012.

Samkvæmt þessu er lagt til að skipa nefnd sem fari í saumana á þessum málum. Það er gert. Samhliða vinnu þeirrar nefndar sem fór þá fljótlega í gang lét ég vinna skýrslu til kynningar fyrir ríkisstjórn um stöðu lögreglunnar. Þá kemur á daginn, eins og við vitum að gerðist í stjórnsýslunni, í samfélaginu almennt og útgjöldum til samfélagsþjónustunnar, að hún hafði verið skorin niður á bilinu 20–25% að raungildi. Það átti við um löggæsluna líka. Okkur reiknaðist til í þessari skýrslu að niðurskurðurinn hefði numið 2,8 milljörðum kr. á ári. Þegar nefndin sem ég vísaði í hér og var samþykkt að tæki til starfa á grundvelli þingsályktunartillögunnar frá 19. júní 2012 skilaði af sér í þinginu lagði hún til að staða lögreglunnar þyrfti að batna um sem nemur 3,5 milljörðum kr., þ.e. aukafjárveitingu þyrfti í rekstur lögreglunnar sem næmi 3,5 milljörðum kr.

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp núna? Ég er að því vegna þess að ég las einhvers staðar í blaði að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að stórefla löggæsluna. Hvað er það mikið sem átti að setja í lögregluna? Okkur var sagt að það væri 0,5 milljarðar, 500 milljónir, þannig að ég fór að fletta pínulítið upp og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki rétt. Núna er verið að bæta í rúmum 300 milljónum, ekki meiru, ekki 3 milljörðum, ekki 3,5 milljörðum, eins og sagði í þessari skýrslu. Þegar nefndin skilaði af sér lagði hún til, ég ætla nú að leyfa mér að lesa það hér, með leyfi forseta:

„Vill nefndin undirstrika þetta sérstaklega og beina því til stjórnmálaflokkanna að taka mið af skýrslu þessari við gerð stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar, hvernig svo sem hún verður samansett og við fjárlagagerð næstu ára.“

Þetta segir í þessari skýrslu nefndarinnar sem í sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna. Þetta var rætt á þinginu og ég sagði meðal annars í umræðu 22. mars í ár, með leyfi forseta:

„Í rauninni er merkilegast við skýrsluna og nefndarvinnuna að gerð er tilraun til þess að tengja saman áætlun og fjármagn og reyna að horfa raunsætt á málin með slíkum hætti. Það er vinnulag sem við höfum tamið okkur á ýmsum öðrum sviðum, sem meðal annars er unnið að í innanríkisráðuneytinu og vísa ég þar til samgönguáætlunar. Þar er sett fram stefna og þar er sett fram markmið, þar er sett fram stefna og þar er sett fram framkvæmdaáætlun sem er tengd fjármagni. Þetta er vísir að slíkri vinnu og það er vel.“

Ég sagði einnig við þessa umræðu, ef ég man rétt, að auðvitað væri það komið undir getu ríkissjóðs á hverjum tíma hvort og þá hversu hratt hann gæti uppfyllt þessi markmið þannig að ég skil mætavel að menn taki þetta ekki í einu heljarstökki. Ég held að enginn geri kröfu til þess. Auðvitað horfum við til getu ríkissjóðs, til þess hvað hann er fær um að gera, en við þurfum líka að tala um hlutina eins og þeir eru og ekki gefa í skyn annað en það sem raunverulega er uppi á borðum. Það er ekkert verið að bæta stöðu lögreglunnar sem neinu nemur með þessum fjárlögum.

Á síðasta ári settum við, þáverandi ríkisstjórn og þáverandi stjórnarmeirihluti, 200 millj. kr. viðbótarfjármagn tímabundið inn í lögregluna sem að sjálfsögðu var ætlast til að yrði síðan viðvarandi fjárhæð. Á þessu ári er verið að nýta þá peninga. Til viðbótar heildarframlaginu til lögreglunnar og þar með talið þessum 200 millj. kr. er núna verið að setja 300 millj. kr. til viðbótar. Það rís ekki undir þeim sveru yfirlýsingum sem ríkisstjórnin gefur um að verið sé að efla löggæsluna í landinu stórkostlega. Ríkisstjórnin er ekkert að gera það, stjórnarmeirihlutinn er ekki að því. Þetta er nánast status quo, þetta er viðbótarframlag sem nemur um 300 millj. kr., gott og vel, það er þó það, en þá skulum við bara tala um hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, ekki gefa til kynna að eitthvað allt annað sé upp á teningnum en þetta.

Í þessari skýrslu er lagt til að allverulega verði fjölgað í lögreglunni. Hér segir að það þurfi að fjölga lögreglumönnum frá því sem nú er um allt að 236, bæta menntun þeirra og þjálfun og auka búnað lögreglunnar.

Svo ég haldi áfram að vitna í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Við skýrslugerðina er gengið út frá þeirri forsendu að tillögur sem nú liggja fyrir Alþingi um aðskilnað lögreglustjórnunar frá embættum sýslumanna og fækkun umdæma í átta nái fram að ganga.“

Þar er aftur verið að endurkveða Lilju í því samhengi að okkur er sagt að það eigi að fara að endurflytja aftur frumvörp sem lágu fyrir síðasta þingi um endurskipulagningu sýslumannsembætta og lögregluembætta, en það er verið að kynna okkur það sem eitthvað alveg spánnýtt. Þetta er búið að liggja fyrir þinginu í langan tíma. Það er ágætt og ég styð það heils hugar að ráðast í endurskipulagningu á lögreglunni. Ég styð það líka að efla löggæsluna, ég styð það að almennum lögreglumönnum verði fjölgað. Það er alvarlegt ástand víða innan löggæslunnar og ég horfi þar ekki síður til dreifðra byggða en þéttbýlissvæðisins suðvestan lands. Það eru stór svæði þar sem jafnvel hefur verið einn lögreglumaður á vakt á stóru svæði og slíkt er ekki leggjandi á nokkurn mann. Ég horfi til Norðausturlands, ég horfi einnig til Vestfjarða. Ég minnist þess að koma til Hólmavíkur og þar var lögreglumaður á vakt. Hann var á bakvakt hjá sjálfum sér og hann var í afleysingum og þetta er ekki mönnum bjóðandi. Þetta er aðstaða sem er stórkostlega hættuleg og varhugaverð.

Við sem höfum setið í ríkisstjórn erum að sjálfsögðu ábyrg fyrir þessu, ég er það. Þess vegna lét ég vinna þessa skýrslu um stöðu lögreglunnar, um niðurskurðinn, ég vildi ræða hann alveg opinskátt, hve mikill hann hafi verið og hvað hann hefði haft í för með sér, til þess að við gætum síðan horfst sameiginlega í augu við vandann og tekið á honum. Í þeim anda var þessi skýrsla unnin, í þeim anda var sett fram þessi áskorun til allra stjórnmálaflokka um að þeir létu ekki hjá líða að horfa til vanda löggæslunnar þegar næsta ríkisstjórn yrði mynduð og tekið á þeim vanda. Talan 3,5 milljarðar var nefnd. Það var hvergi getið um 300 milljónir þar en það er það framlag sem ríkisstjórnin og núverandi stjórnarmeirihluti lætur renna til löggæslunnar.

Rétt skal vera rétt og við eigum að ræða þessa hluti nákvæmlega eins og þeir eru en ekki gefa í skyn að það sé verið að gera eitthvað annað og meira en raunverulega er uppi á borðinu.