143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ég hef þetta skamman tíma verður það styttri útgáfan af svarinu sem hv. þingmaður fær. Nei, ég hef ekki séð atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar og mér finnst þessi ríkisstjórn bundin á klafa hugmyndafræði um að það sé aldrei réttlætanlegt að taka lán til að fjárfesta í uppbyggingu. Það eru til talnagögn um að það borgi sig að taka lán til að fjárfesta í tækniþróun og slíkum þáttum. Það er líka hægt að sýna fram á að það er hægt að taka lán til að byggja til dæmis upp fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni þannig að fólk geti búið við þráðlausar tengingar sem eru mannsæmandi og boðlegar til að tryggja samkeppnishæfni hinna dreifðu byggða. Svona mætti lengi telja.

Það er ekki hægt að leggja öll útgjöld undir sömu mælistiku. Þetta kemur skýrt fram hjá öllum vegna þess að þó að fjárlaganefnd og ríkisstjórnarmeirihlutinn séu komin á úrelta thatcheríska stefnu eru góðu fréttirnar á Íslandi í dag þær að Viðskiptaráð er komið af henni. Það er frábær greining að þessu leyti á vefsíðu Viðskiptaráðs frá hagfræðingi Viðskiptaráðs þar sem (Forseti hringir.) hann fjallar ítarlega um það hversu skynsamlegt það sé að fjárfesta einmitt (Forseti hringir.) með lántöku í framtíðinni fyrir hagvaxtarhvetjandi verkefnum.